Sigurður Jónsson
Sigurður Jónsson
Frá Sigurði Jónssyni: "Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, svarar greinarkorni sem ég hafði sent blaðinu í Morgunblaðinu í dag, föstudaginn 1. ágúst."

Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, svarar greinarkorni sem ég hafði sent blaðinu í Morgunblaðinu í dag, föstudaginn 1. ágúst. Þar segir að íslenski fáninn sé dreginn að húni í þjóðgarðinum alla fánadaga og auk þess alla daga þegar aðstæður leyfa frá vori til hausts, en veður hafi áhrif á fánanotkun, sérstaklega á vetrum. Ég hafði sagt að flaggað væri í þjóðgarðinum um helgar og við sérstök tækifæri. Þetta er greinilega ekki rétt og er beðist afsökunar á þessum ummælum. Ég var síðast á ferð á Þingvöllum í miðri viku í vindi og rigningu og varð ekki var við fána. Hef orðið þess var í öðrum þjóðgarði í ágætu veðri að fána hefur vantað á stöng. Ég hef nokkrum sinnum ekið um borgina á fánadegi og séð að fána vantar við eða á opinberar byggingar. Þetta hefur skapað heildarímynd sem í umræddri grein varð óvart að fullyrðingu. Það er leitt og ber að varast.

Stend þó við annað í greininni, t.d. skort á viðhaldi stíga og gæslu í þjóðgarðinum á Þingvöllum, en það er annað mál og var ekki mótmælt af þjóðgarðsverðinum Ólafi. Óska honum og hans fólki velfarnaðar.

SIGURÐUR JÓNSSON,

áhugamaður um aukna notkun þjóðfánans.

Frá Sigurði Jónssyni