Málmrisi Skipið er komið hingað frá Bandaríkjunum á leið suður til Evrópu. Olía streymir nú frá Bandaríkjunum.
Málmrisi Skipið er komið hingað frá Bandaríkjunum á leið suður til Evrópu. Olía streymir nú frá Bandaríkjunum. — Morgunblaðið/Þórður
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Sjá mátti feiknastórt olíuflutningaskip liggja við landfestar í Reykjavíkurhöfn í gær.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Sjá mátti feiknastórt olíuflutningaskip liggja við landfestar í Reykjavíkurhöfn í gær. Skipið heitir Maxwell Bay og samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum er það rúm þrjátíu þúsund brúttótonn, 177 metra langt og 32 metra breitt.

Að sögn Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna, er skipið óvenjustórt.

„Þetta skip er með þeim tignarlegri sem hingað hafa komið, og nálgast í raun hámark þeirrar lengdar á skipum sem við getum tekið á móti. Þau rista djúpt þessi skip,“ segir Gísli.

Stefán Karl Segatta, sérfræðingur í eldsneytisinnkaupum hjá N1, segir skipið vera á leið til Evrópu frá Bandaríkjunum. „Í raun er skipið einungis að koma við hérna, aðeins hluti eldsneytisins fer í land og ég tel líklegast að afgangurinn fari til Rotterdam,“ segir Stefán og bætir við: „Sennilega hefur fengist hagstæð frakt á skipinu því það er ekki einu sinni fulllestað, en um þessar mundir er streymi af olíu og gasi frá Bandaríkjunum.“

Spurður hvort innflutningur eldsneytis sé að aukast, segir hann svo ekki vera.

„Markaðurinn fyrir venjulegt eldsneyti er ekkert að stækka og í raun er þróunin í hina áttina, líkt og í öðrum löndum, þó hæg sé. Sá markaður sem er þó að stækka hér á landi er markaðurinn fyrir þotueldsneyti. Flugumferðin er að aukast og eftirspurnin eykst ár frá ári.“

Hann segir að misjafnt sé eftir árum hversu mörg olíuflutningaskip komi til landsins. „Einu sinni var þetta mjög stöðugt, þegar hingað kom eitt skip á mánuði. Nú eru þetta líklega í kringum 30 komur á ári hverju.“