Eins og bíómynd Diane Nelson skoðar myndir af föður sínum ásamt Amöndu, dóttur sinni.
Eins og bíómynd Diane Nelson skoðar myndir af föður sínum ásamt Amöndu, dóttur sinni. — AFP
Barnard Castle. AFP. | Kvikmyndin Björgun óbreytts Ryans eftir Steven Spielberg fjallar um það hvernig hermanni er bjargað af víglínunni í síðari heimsstyrjöld eftir að þrír bræður hans hafa fallið.

Barnard Castle. AFP. | Kvikmyndin Björgun óbreytts Ryans eftir Steven Spielberg fjallar um það hvernig hermanni er bjargað af víglínunni í síðari heimsstyrjöld eftir að þrír bræður hans hafa fallið. Kvikmyndin fellur í skuggann af sögu óbreytts Smiths, sem kvaddur var heim með konunglegri bón úr skotgröfum fyrri heimsstyrjaldar eftir fall fimm bræðra hans.

Á minnisvarða í sveitaþorpinu Barnard Castle á Norður-Englandi standa nöfn fimm bræðra með eftirnafnið Smith: Robert, George Henry, Frederick, John William og Alfred. Dauði þeirra á tveimur árum í hörðum bardögum á vesturvígstöðvunum var mikill fjölskylduharmleikur. Björgun sjötta og yngsta bróðurins, Wilfreds, gæti hins vegar hæglega verið tekin úr stórmynd.

„Þegar ég sá myndina hugsaði ég með mér: þetta er eins og það sem kom fyrir afa minn,“ sagði Amanda Nelson, dótturdóttir Wilfreds. „Það hefði átt að kalla hana Björgun óbreytts Smiths vegna þeirrar staðreyndar að hann var sendur heim úr stríðinu vegna þess að hann hafði misst fimm bræður sína.“

Þegar Wilfred var sendur á vígstöðvarnar 1917, þá 19 ára, höfðu tveir bræður hans þegar látið lífið. Síðar sama ár féllu tveir til viðbótar og sá fimmti 1918.

Nokkur hundruð menn frá Barnard Castle börðust í fyrri heimsstyrjöldinni. 125 féllu. Harmur Margaret Smith, móður drengjanna, var mestur og þegar bærinn reisti þeim sem féllu minnisvarða árið 1923 lagði hún fyrsta blómsveiginn að honum með Wilfred sér við hlið.

„Langamma mín var víst vön að segja: „Ekki eignast stráka því að þeir verða aðeins fallbyssufóður þegar þeir vaxa úr grasi“,“ sagði Amanda.

Prestsfrúin í bænum skrifaði Maríu drottningu, konu Georgs konungs V. þegar fimm synir Margaret Smith höfðu fallið og fór þess á leit að Wilfred yrði kvaddur heim. Hún var látin vita að bréfið hefði verið sent til hlutaðeigandi yfirvalda. Skömmu síðar kom Wilfred heim. Hann bjó alla ævi í Barnard Castle og starfaði sem sótari og múrari.

„Pabbi talaði aldrei um stríðið,“ sagði Diane Nelson, dóttir Wilfreds, og bætti við: „Hann var góður faðir.“

„Ef afi hefði ekki verið sendur heim værum við ekki hér,“ sagði Amanda.