[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar fjallað er um tungutak, beinist athyglin oftast að orðum eða orðasamböndum í rituðu máli en sjaldnar að talmáli. Á þessu tvennu er oft býsna mikill munur, orðin lenda saman í eina bendu og oft renna heilu atkvæðin út í sandinn.

Þegar fjallað er um tungutak, beinist athyglin oftast að orðum eða orðasamböndum í rituðu máli en sjaldnar að talmáli. Á þessu tvennu er oft býsna mikill munur, orðin lenda saman í eina bendu og oft renna heilu atkvæðin út í sandinn. Þetta á ekki síst við ungt fólk sem liggur lífið á og gengur misvel að koma hugsun sinni til skila. En tungutak unga fólksins hefur ýmislegt fram yfir ungdóminn minn sem nú er kominn á efri ár. Það hefur tamið sér miklu meiri kurteisi en tíðkaðist á sokkabandsárum okkar.

Þegar maður rekst í ógáti á ungling í verslun eða á götu er maður iðulega beðinn afsökunar, jafnvel þótt ekki liggi alltaf ljóst fyrir hver árekstrinum olli. Þegar eldri borgari hittir unglingahópa á förnum vegi er honum iðulega heilsað með hlýlegum ávarpsorðum, t.d. komdu sæll og góðan daginn, þótt orðin renni nú stundum saman. Og litlir krakkar sem bisa við hjólin sín eða sparka bolta í áttina til manns eru oft eitt sólskinsbros þegar leiðir liggja saman en ekki feimin og heimóttarleg eins og áður enda flest forfrömuð úr okkar ágætu leikskólum.

Ekki man ég til þess að til siðs væri að ávarpa ókunnuga þegar ég var lítil stelpa eða unglingur. Þótt skömm sé frá að segja minnist ég þess að hafa hent gaman af gömlu fólki, að vísu græskulaust, en í því fólst hvorki virðing né hlýja enda var voru aldraðir kannski ekkert sérlega aðlaðandi á þeim árum. Þegar ég nota orðið aðlaðandi á ég ekki við að þeir hafi verið illa til reika, þótt það hafi stundum hent, heldur var það plagsiður margra að amast við krökkum, finna að við þá og ausa yfir þau skömmum. Þessi samskiptamáti barna og aldraðra hefur líklega stafað af því að við bjuggum í hörðum heimi og tungutakið var eftir því.

Þótt nýlegar tölur sýni að smánarlega stór hópur barna búi við sárafátækt, verður maður sjaldan var við óknytti, hrekki og skemmdarstarfsemi. Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég komst að raun um fyrir fáum árum að ungt fólk þekkti ekki orðið götustrákur en sú tegund lék lausum hala í Reykjavík á uppvaxtarárum mínum og var oftast bendluð við fátækari hverfi borgarinnar. Kannski eru hrekkjusvínin líka úr sögunni og langt er síðan ég frétti að unglingar hafi veist að öldruðu fólki en slíkt var ekki fáheyrt fyrir nokkrum árum eða áratugum.

Í stað þess að býsnast yfir lélegum námsárangri íslenskra unglinga ættu menn að gefa gaum frábærum árangri skólanna okkar í uppeldi ungu kynslóðarinnar. Ekki fer milli mála að þar læra börnin svo margt fleira en að leysa flóknar stærðfræðijöfnur, til dæmis að ganga snyrtilega um umhverfi sitt, tjá sig eðlilega og sýna fullorðnum virðingu. Fyrir vikið verður samskiptamátinn eðlilegri og minna ber á kynslóðabili en á æskuárum mínum.

Guðrún Egilson gudrun@verslo.is