Skáksnillingur Ungur maður sem verður í sviðsljósinu í Tromsö – Magnús Carlsen með fjölskyldu sinni á Reykjavík rapid mótinu 2004.
Skáksnillingur Ungur maður sem verður í sviðsljósinu í Tromsö – Magnús Carlsen með fjölskyldu sinni á Reykjavík rapid mótinu 2004. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólympíuskákmótið í Tromsö í Noregi var sett í gær en fyrsta umferð hefst svo í dag kl. 15 að staðartíma. Aldrei áður hefur öflugt skákmót verið haldið svo norðarlega en Tromsö stendur norðan við heimskautsbaug.

Ólympíuskákmótið í Tromsö í Noregi var sett í gær en fyrsta umferð hefst svo í dag kl. 15 að staðartíma. Aldrei áður hefur öflugt skákmót verið haldið svo norðarlega en Tromsö stendur norðan við heimskautsbaug. Þátttökuþjóðirnar í opna flokknum eru 178 talsins en í kvennaflokknum eru þær 136 talsins.

Íslendingar tóku fyrst þátt í Ólympíuskákmótinu í Hamborg árið árið og í ár eru 75 ár síðan Íslendingar unnu Copa Argentina, b-riðilinn á Ólympíumótinu í Buenos Aires. Jón Guðmundsson vann ellefu skákir í röð, þar af allar skákir sínar í úrslitakeppninni, tíu talsins.

Úrslit allra Ólympíumótanna og skákir má finna á frábærum vef olimpbase.com. Á vefnum kemur í ljós að einungis 26 þjóðir tóku þátt í mótinu í Argentínu en Englendingar drógu lið sitt úr mótinu í miðjum klíðum þegar heimsstyrjöldin síðari braust út 1. september 1939. Liðsmenn þýsk-austurríska liðsins sem vann keppnina urðu allir eftir í Argentínu.

Fyrir nokkru var kerfi Ólympíumótanna breytt þannig að nú skiptir vinningatalan minna máli, en í þessu ellefu umferða kapphlaupi skipta úrslit einstakra viðureigna höfuðmáli, 2 stig eru gefin fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli. Skiptar skoðanir er um ágæti þessa fyrirkomulags. Vinningarnir gilda að einhverju leyti verði þjóðir jafnar að stigum en afar lítill munur er oft á stigum efstu þjóða sem sést vel á úrslitum opna flokksins á síðasta Ólympíumóti þar sem Armenar fengu 19 stig eins og Rússar en afar flókið kerfi setti Armena í 1. sæti. Bandaríkjamenn lentu í 5. sæti með 17 stig og fleiri vinninga en Kína sem varð í 4. sæti. Ísland hlaut 13 stig og fékk fleiri vinninga en flestar þjóðirnar í 34.-51. sæti. Á fjórum síðustu Ólympíumótum hafa Armenar unnið ólympíugull þrisvar. Þeir tefla fram einum besta skákmanni heims á 1. borði, Levon Aronjan, en sú er ekki eina ástæðan fyrir velgengni þeirra heldur fyrst og fremst frábær liðsandi. Skákmaður sem fáir þekkja, Gabriel Sargissjan, heldur sveitinni oft á floti með miklum baráttukrafti.

Tilkynnt hefur verið um skipan liða á Ólympíumótinu í Tromsö en Vladimir Kramnik er á 1. borði fyrir Rússa sem eiga sterkustu sveit mótsins hvað stig varðar, Moissenko teflir á 1. borði fyrir Úkraínu en þar er Ivantsjúk á 3. borði og Ponomariov á 2. borði, Frakkar tefla fram Vachier-Lagrave á 1. borði, Nakamura er á 1. borði Bandaríkjamanna, í ungverska liðinu er Zoltan Almasi á 1. borði en Leko og Judit Polgar á þriðja og fjórða borði.

Í aðdraganda þessa móts hafa þeir Hannes Hlífar Stefánsson og Hjörvar Steinn Grétarsson lokið þátttöku á alþjóðlegum mótum. Hannes tefldi í efsta flokki skákhátíðarinnar í Pardubice í Tékklandi, hlaut 6 ½ vinning af 9 mögulegum og varð í 5.-15. sæti. Stóru tíðindin frá Pardubice í því móti voru frammistaða bræðranna Björns Hólm og Bárðar Arnar Birkissona en sá fyrrnefndi gerði sér lítið fyrir og vann B-flokkinn, hlaut 8 vinninga af níu mögulegum og Bárður kom í humátt á eftir, hlaut 7 ½ vinning og varð í 2.- 4. sæti.

Hjörvar Steinn Grétarsson var á svipuðu róli og Hannes á alþjóðlegu móti í Andorra. Hann hlaut 7 vinninga af níu mögulegum og varð í 2.-6. sæti en sigurvegari var Julia Granda frá Perú sem mun tefla á næsta Reykjavíkurskákmóti.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is