„Svona hefur okkar umhverfi verið frá árinu 1997 og það virðist ekki ætla að breytast.

„Svona hefur okkar umhverfi verið frá árinu 1997 og það virðist ekki ætla að breytast. Sem betur fer höfum við þó aldrei lent í því að einhverjir þurfi að segja sig frá landsliðsverkefnum vegna kostnaðar,“ sagði Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, við Morgunblaðið. Sambandið sendir U18-landslið karla til leiks í lokakeppni EM í Gdansk í Póllandi um miðjan mánuðinn og nemur kostnaður við hvern keppanda um 360 þúsund krónum sem þeir þurfa sjálfir að gera sitt besta til að ná niður með ýmsum hætti, svo sem með veitingasölu á leikjum A-landsliðsins og með því að leita styrkja hjá fyrirtækjum.

Engir styrkir berast frá Handknattleikssambandi Evrópu eða Alþjóðahandknattleikssambandinu vegna slíkra móta og segir Einar að heildarkostnaður við að fara á mótið nemi um 10 milljónum króna. Það sé sem sagt dýrt að ná árangri í íþróttinni.

„Þetta er bara það umhverfi sem við lifum við. Atvinnumennirnir okkar og A-landsliðsmenn í dag hafa allir gengið í gegnum sama pakka,“ sagði Einar sem vill að stjórnvöld skapi meira hvetjandi umhverfi.

Enginn misst sæti sitt

„Með árangri verður til vandamál. Eftir því sem árangurinn verður betri hjá okkur eykst kostnaðurinn við reksturinn. Það breytist ekkert hjá ríkinu varðandi þetta. Afrekssjóður kemur ekkert frekar að þessu. Við höfum til dæmis verið með tvö unglingalandslið eitt sumarið, annað fór til Túnis og hitt til Egyptalands, og annað náði silfri á HM unglinga en það breytti engu,“ sagði Einar.

Hann segir að það komi fyrir að leikmenn þurfi sjálfir að punga út fyrir hluta af kostnaði vegna landsliðsferðar, þó sú upphæð sé aldrei há.

„Þetta fer svona eftir því hvernig mönnum tekst til að safna. Það hjálpast allir að; HSÍ, félögin þeirra, íþróttabandalögin og fleiri. Leikmenn missa ekki sæti í landsliðinu vegna svona mála, en það þurfa allir að leggjast á eitt til að svo sé,“ sagði Einar. sindris@mbl.is