Ég flyt þrjá fyrirlestra á ráðstefnu norrænna stjórnmálafræðinga í Gautaborg 12.-15. ágúst. Einn fyrirlesturinn er um hvort íslenska velferðarríkið sé í eðli sínu engilsaxneskt eða norrænt.

Ég flyt þrjá fyrirlestra á ráðstefnu norrænna stjórnmálafræðinga í Gautaborg 12.-15. ágúst. Einn fyrirlesturinn er um hvort íslenska velferðarríkið sé í eðli sínu engilsaxneskt eða norrænt. Ég er að vísu sammála þeim Konráð Gíslasyni og Jónasi Hallgrímssyni um, að orðið „velferð“ er dönskulegt. Orðið „farsæld“ er íslenskulegra. En líklega verður úr þessu litlu um það þokað. Niðurstaðan í fyrirlestrinum er, að íslenska velferðarríkið sé hvorki engilsaxneskt né norrænt, heldur séríslenskt. Skattar eru hærri og bætur rausnarlegri en í engilsaxneskum löndum, til dæmis Bretlandi og Bandaríkjunum. Skattar eru hins vegar lægri en á öðrum Norðurlöndum, jafnframt því sem bætur takmarkast vegna tekjutengingar aðallega við þá, sem þurfa á þeim að halda. Til dæmis eru barnabætur óháðar tekjum í Svíþjóð ólíkt Íslandi. Þar brugðu jafnaðarmenn á það ráð upp úr miðri 20. öld að veita öllum bótarétt til þess að auka stuðning við velferðarríkið. Allir greiða til velferðarríkisins, og allir þiggja af því, þótt féð rýrni vitanlega talsvert í meðförum ríkisins: Hrói höttur heimtar sitt. Allir halda, að þeir séu að græða, þótt flestir séu að tapa.

Annar fyrirlesturinn er um Icesave-deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga 2008-2013, og minnist ég í því sambandi á hinar frægu samræður Aþeninga við Meleyinga, íbúa eyjunnar Melos, árið 416 f. Kr. í Pelopsskagastríðinu, en þær færði gríski sagnritarinn Þúkídídes í letur (eða samdi jafnvel). Kröfðust Aþeningar þess, að Meleyingar lytu þeim. „Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við,“ sögðu Aþeningar. Niðurstaðan í fyrirlestrinum er, að við Íslendingar séum eins og á miðöldum vinafá og vanmegna, þótt við eigum að bera höfuðið hátt. Við skulum vona, að Guð sé ekki hliðhollur fjölmennustu hersveitunum, heldur bestu skyttunum, eins og Voltaire orðaði það. Þriðji fyrirlesturinn er um það, hvers vegna Ísland var skilið eftir úti á köldum klaka í miðri fjármálakreppunni 2008. Það mál er ég að rannsaka, eins og frægt er orðið. Þar er enn sem komið er meira um spurningar en svör.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is