— Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Ólafur H. Johnson, skólastjóri og eigandi Menntaskólans Hraðbrautar, segir að ekki verði af rekstri Hraðbrautar í vetur, eins og til stóð. Á heimasíðu skólans kemur fram að skólasetning verði í skólanum fimmtudaginn 14.
Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ólafur H. Johnson, skólastjóri og eigandi Menntaskólans Hraðbrautar, segir að ekki verði af rekstri Hraðbrautar í vetur, eins og til stóð. Á heimasíðu skólans kemur fram að skólasetning verði í skólanum fimmtudaginn 14. ágúst, þ.e. á morgun, en Ólafur staðfesti í samtali við Morgunblaðið í gær að ekkert skólahald yrði í Hraðbraut í vetur.

„Skólinn mun ekki starfa í vetur. Ástæðan er sú, að við vorum komin með sæmilegan hóp til þess að byrja með, einn bekk. En upp á síðkastið hefur kvarnast svo mikið úr hópnum, sem hugðist hefja nám hjá okkur, að við urðum að hætta við. Það var einfaldlega ekki rekstrargrundvöllur lengur,“ sagði Ólafur.

Ólafur sagði að skólagjöldin væru greinilega ástæða þess að nemendur hefðu hætt við að setjast í Hraðbraut. Þau hefðu verið 890 þúsund krónur fyrir veturinn, sem hefði greinilega vaxið fólki í augum, þannig að ýmist hefðu nemendur afboðað sig, eða ekki greitt skólagjöldin.

Þegar bæklingur Hraðbrautar frá síðasta starfsári skólans er skoðaður kemur á daginn að ásett skólagjöld þá voru 225 þúsund krónur fyrir veturinn. Ólafur var spurður hvort honum þætti ekki skiljanlegt að fólki yxi í augum að reiða fram 1,8 milljónir króna í skólagjöld á framhaldsskólastigi, miðað við það að nemendur lykju námi á tveimur árum.

„Jú, mér finnst það fullkomlega skiljanlegt. Þetta eru vitanlega mjög miklir peningar, en ástæðan fyrir hækkuninni var auðvitað bara sú, að skólinn nýtur ekki fjárstuðnings ríkisins. Hraðbraut fékk ekki þjónustusamning eins og leitað var eftir, og því er eiginlega sjálfhætt, fyrst ríkið fæst ekki til þess að styðja þennan rekstur með einhverjum hætti,“ sagði Ólafur.

Ólafur bendir á að þótt 1,8 milljónir króna sé auðvitað mikill peningur fyrir framhaldsskólanám, þá kosti ódýrasta stúdentsprófið í framhaldsskólum landsins á fjórðu milljón króna. „Hjá okkur er þetta mun ódýrara en ríkið gerir sjálft, fyrir utan það að okkar nemendur hafa náð tveimur árum á vinnumarkaðnum umfram aðra. Munurinn er bara sá að hjá okkur, hefðu skólagjöldin komið úr vasa nemenda og foreldra þeirra, en hjá öðrum framhaldsskólum er það ríkið sem borgar kostnaðinn,“ sagði Ólafur. Ólafur taldi ósennilegt að hann myndi gera aðra tilraun til þess að koma Hraðbraut í gang á nýjan leik.

Starfaði í níu ár
» Hraðbraut, með tveggja ára nám til stúdentsprófs, tók til starfa haustið 2003.
» Katrín Jakobsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, rifti þjónustusamningi ríkisins við skólann árið 2012.
» Hraðbraut hefur ekki starfað undanfarin tvö ár, eða frá haustinu 2012.
» Þjónustusamningur fékkst ekki við ríkið og því var sjálfhætt.