Guðný Jónsdóttir Buch var fædd á Einarsstöðum í Reykjahreppi 27. júlí 1934. Hún lést á gjörgæsludeild á sjúkrahúsinu á Akureyri 20. ágúst 2014. Guðný var elst 10 barna hjónana Jóns Þórs Friðrikssonar Buch, bónda á Einarsstöðum í Reykjahreppi, f. 15.11. 1909, d. 5.2. 1997, og Guðbjargar Pálsdóttur, frá Skógum í Reykjahreppi, f. 5.11. 1911, d. 23.10. 1989. Systkini Guðnýjar 1) Friðrik Júlíus, f. 1.11. 1935, kvæntur Kristínu G. Sigurðardóttur og eiga þau synina Hilmar Hauk og Jón Sigurð. 2) Páll Helgi, f. 15.10. 1938, kvæntur Guðrúnu Benediktsdóttur. Þeirra sonur er Kristján Heimir. 3) Drengur, f. 17.2. 1938, dó óskírður í mars sama ár. 4) Hólmfríður, f. 7.1. 1940, gift Stefáni Baldvinssyni. Þeirra börn eru: Guðjón Örn, Baldvin Trausti og Hrafnhildur Guðbjörg. 5) Björn Ófeigur, f. 22.4. 1941, kvæntur Alice Gestsdóttur. 6) Hörður, f. 21.1. 1944, d. 18.2. 1947. 7) Kristbjörg, f. 12.9. 1946. 8) Sigurveig, f. 15.10. 1947, hennar sonur er Jens Nikulás Buch. 9) Ingólfur Árni, f. 28.9. 1950, dóttir hans er Thelma Kristín. Guðný eignaðist soninn Jón Þór, f. 8.2. 1974, með Óla Tynes Jónssyni, f. 23.12. 1944, d. 27.10. 2011. Sambýliskona Jóns Þórs er Elín Björg Harðardóttir, f. 2.10. 1977, og þeirra börn eru Tryggvi Garðar, f. 13.4. 2003, og Arna Sif, f. 21.5. 2009. Guðný fæddist á Einarsstöðum í Reykjahverfi og ólst þar upp við öll almenn sveitastörf. Að þeirra tíma venju fór hún ung að vinna fyrir sér og tók sér fyrir hendur hin ýmsu störf víða um land, m.a. starfaði hún á Hótel Vík í Reykjavík. Sveitin átti þó hug hennar allan og snéri hún aftur til heimahaganna og varð bóndi á Einarsstöðum út sína starfsævi. Guðný tók jafnframt virkan þátt í félagsmálum og var mikill unnandi harmonikkunnar og gömlu dansanna. Útför Guðnýjar Jónsdóttur Buch fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 30. ágúst 2014, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það haustar og húmar að. Litir sumarsins fölna og gróðurinn býr sig til vetrardvalar. Um þessar mundir eru dægrin fegurst í Reykjahverfi. Dimmblár fjallgarður í norðvestri, með Bakranga að höfuðdjásni, krýndan skýjabólstrum, framan við hnígandi sól miðrar nætur. Skjálfandinn spegilsléttur litast eldrauður í skini hverfandi sólar. Hvammsheiðin fyllist dimmum skuggum og Kinnarfjöllin setjast á hafflötinn, er Reykjahverfið hverfur í rökkrinu. Þetta var útsýnið hennar móður minnar er naut þess að fylgjast með náttúrunni hverfast að lit og yfirbragði með árstíðunum. En nú hefur dregið fyrir sólu og rökkrið hefur aldrei verið jafn dimmt, því elskuleg móðir mín, náttúrubarnið og stórbóndinn Guðný Buch á Einarsstöðum, hefur lagt sinn síðasta kapal og stigið sinn síðasta vals við dynjandi harmonikkuleik.
Mér er orðavant. Hvað get ég fært fram til að lýsa því tómarúmi er myndast hefur við andlát þitt. Ég á þér allt að þakka. Þú varst bjargið mitt alltaf til staðar, traust og óhagganlegt. Bjargið er hjúpað góðum minningum um konu sem var föst fyrir, hamhleypa til allra verka og tók hlutunum eins og þeir komu fyrir hverju sinni. Hún mamma bar ekki hjartað á peysunni sinni heldur á réttum stað, og nutu allir henni sem kynntust þar góðs af. Þú varst sú stoð sem stóð með ótrúlegum viljastyrk, þrjósku og fastheldni um þá umgjörð sem lífið gaf og lífið tók og það voru forréttindi að fá að komast að innsta hjartslætti þessarar stórkostlegu konu er bar allt það sem að höndum bar með æðruleysi og íhugun. Mamma átti eyra sem heyrði allt sem þankann þyngdi og hjarta sem gaf án spurninga um endurgjald. Það er því þyngra en tárum taki að standa á þeim tímamótum lífs og dauða að sjá bjargið hverfa bak við ský ódauðleikans.
Síðustu daga hafa myndbrot úr fortíðinni hellst yfir mig líkt og öldur í draumahafi minninganna. Þær takast á sorgin og gleðin. Móðir mín var sveitakona fram í fingurgóma, sama hvert hún fór geymdi hún ávallt áfangastað í sjálfs síns brjósti. Áfangastaðurinn var Einarsstaðir, sem var hennar sælureitur. Heimurinn hjá móður minni var í raun smærri en hjá samferðamönnum sínum, því í hennar huga var heimurinn smærri í sniðum. Hann var Þingeyjarsýsla hann þurfti ekki að vera stærri. Allir þeir er komu á Einarsstaði nutu gestrisni hennar og naut hún þess að hlúa að samferðamönnunum, bjóða þeim uppá pönnukökur með rjóma og rabarbarasultu sem að sjálfsögðu þurfti að skola niður með heitu súkkulaði. Það voru ekki bara samferðamenn þínir er nutu góðvildar þinnar því dýrin á Einarsstöðum kynntust einnig þínu einstaka hjartalagi. Þú elskaðir dýrin og þau þig á móti og sóttust eftir nærveru þinni enda kalla minningarbrotin fram kostulegar uppákomur, líkt og þegar að heimalingarnir og geitunum fannst ekkert sjálfsagðara en að hlaupa inn í bæinn á Einarsstöðum og stökkva upp í rúmið þitt þegar þú gekkst til náða. Þau vildu einfaldlega bara vera nálægt þér.
Í sumar fylltir þú 80 árin og áttum við saman yndislegan dag þar sem vinir og ættingjar komu saman og heiðruðu þig á þessum merku tímamótum. Bros þitt fyllti salinn og þú naust þess að hitta allt þetta góða fólk sem kom þar saman. Þessi minningarkorn eru ómetanleg á stundu sem þessari þar sem sársaukinn nístir inn að beini.
Ég var örugglega ekki auðveldasta barnið við að eiga en samt sem áður átti móðir mín erfitt með það að skamma mig, því móðir mín ákvað það strax að vera uppalandi en ekki gagnrýnandi. Eftir skammastrikið ræddi hún við mig og spurði mig ,,Fannst þér þetta sniðugt,, og ég svaraði á móti ,,já þá svaraði hún til baka ,,Ekki skammast þín fyrir eitthvað sem hefur fengið þig til að brosa því ekkert gleður móðurhjartað meira en að sjá barnið sitt brosa. Á svona stundum áttar maður sig á því að skilyrðislaus móðurástin er besti og fegursti hluti veraldar sem þó er ekki hægt að sjá eða snerta, heldur finnum við fyrir henni í hjarta okkar.
Það verður tómlegt að koma heim í ,,Ömmu Guðnýjarsveit að ári. Litlu ömmuenglarnir þínir Tryggvi Garðar og Arna Sif elska fátt meira en að koma í sveitina þína og nutu svo sannarlega góðs af velvild þinnig. Það er huggun harmi gegn að sjá þig lifa áfram í þeim og það er það sem heldur mér gangandi á þessum erfiðu tímum. Ég er svo þakklátur fyrir að börnin mín hafi fengið að kynnast bjarginu mínu og það er óendanlega falleg minning að hugsa til þess hve brosið færðist alltaf yfir þig þegar þú sást þau. Því ást ömmunar er ekki síður sterkari en móðurástin.
Þegar ég hugsa um þig elsku mamma mín finnst mér sem öll heimsins orð nægi ekki til að lýsa þér. Nóbelskáldið orðaði það einu sinni svo að hafi maður misst það sem hann elskar heitast þarf ekki að yrkja, hreimurinn í rödd manns segir allan skáldskap lífsins. Mér finnst orðið hetja komast einna næst því. Hetja notum við þegar lýsa þeim sem enginn öðrum er líkur, einhverjum sem hryggist ekki yfir því sem hún á ekki heldur gleðst yfir því sem hún átti, einhverjum sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd og faðmar þig bara svo þér líði betur og segir fólki að snúa andlitinu að sólinni svo það sjái ekki skuggann. Hetja lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. Hetja á við þá sem eru dáðir og dýrkaðir og hverra skarð aldrei verður fyllt. Þú ert og verður alltaf hetjan mín.
Og loks, þegar móðirin lögð er í mold,
Þá lýtur þú höfði og tár falla á fold.
Þú veist hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.
Það var íslenzka konan, sem ól þig og gaf þér sitt líf.
(Ómar Ragnarsson)
Þinn þakkláti sonur









Jón Þór.