Á minningartónleikunum um Gretti lék og söng frændfólkið sem hér sést. Frá vinstri; Einar F. Björnsson, Sigurður H. Oddsson og Ingibjörg Friðriksdóttir.
Á minningartónleikunum um Gretti lék og söng frændfólkið sem hér sést. Frá vinstri; Einar F. Björnsson, Sigurður H. Oddsson og Ingibjörg Friðriksdóttir. — Ljósmynd/Arinbjörn Sigurgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grettir Björnsson og tónlist hans var í öndvegi á tónleiknum sem haldnir voru nyrðra.

Á dögunum voru haldnir á Hvammstanga minningartónleikar um Gretti Björnsson harmonikuleikara og systkini hans, sem kennd eru við Bjarg í Miðfirði. Það var frændfólk Grettis sem stóð að þessari samkomu, en það er af fjölmennri ætt í Húnaþingi vestra.

Systkinin frá Bjargi voru börn Margrétar Jónínu Karlsdóttur. Hún var fædd 1893 og dó í ágúst 1991. Ung missti Margrét eiginmann sinn, Axel Valdemar Vilhelmsson, og eftir það ól hún börn sín fjögur, Önnu, Karl, Pál og Sigurgeir, að mestu upp með stórfjölskyldu sinni á Bjargi, þar sem hún átti sterkar rætur. Í Miðfirðinum eignaðist Margrét soninn Gretti Björnsson, sem ungur gat sér gott orð sem snjall harmonikkuleikari og var þjóðþekktur sem slíkur. Síðar giftist Margrét Arinbirni Árnasyni og eignuðust þau soninn Árna, einnig kunnan hljómlistarmann.

Gædd mikilum hæfileikum

Grettir fæddist 1931 og ólst að hluta upp á Bjargi, meðal annars hjá Páli, móðurbróður sínum. Hann stofnaði heimili í Reykjavík með konu sinni, Ernu Geirsdóttur. Þau eignuðust fjögur börn og bjuggu í um áratug í Vancouver í Kanada. Fjölskyldan kom aftur til Íslands og stundaði Grettir húsamálun, en tónlistin var þó alltaf rauði þráðurinn í lífi hans og starfi. Grettir lést árið 2005.

Öll börn Margrétar, sem voru sex alls, voru gædd miklum tónlistarhæfileikum. Allir synirnir léku á harmonikkur og sumir á fleiri hljóðfæri. „Söngur og tónlist var þessum systkinum og reyndar allri ættinni eðlislægur, svo sem var alla tíð á Bjargsheimilinu,“ segir Karl Sigurgeirsson á Hvammstanga, fréttaritari Morgunblaðsins þar. Hann var meðal þeirra sem að tónleikunum stóðu, en frumkvæðið átti Elínborg systir hans.

Fjallarefur og Austfjarðaþoka

Dagskrá tónleikanna á Hvammstanga var fjölbreytt. Þar komu meðal annars fram ýmsir af Bjargsættinni og fólk sem henni tengist. Geir Jón Grettisson, sonur Grettis Björnssonar, sýndi svörtu og hvítu harmonikkurna sem faðir hans átti og lék nokkur lög. Þá voru leikin lög sem Grettir er þekktur fyrir svo sem Austfjarðaþokan, Þórshafnarskottís, Fjallarefurinn og Á kvöldvökunni. Margir samstarfsmenn Grettis komu og heiðruðu minningu hans með tónlist, meðal annarra Bragi Hlíðberg og Reynir Jónasson.