Stuðmenn í gervi lykilpersóna sem koma fyrir á plötunni Tívolí, á ljósmynd sem tekin var um svipað leyti og platan kom út árið 1976.
Stuðmenn í gervi lykilpersóna sem koma fyrir á plötunni Tívolí, á ljósmynd sem tekin var um svipað leyti og platan kom út árið 1976. — Ljósmynd/Stefán Halldórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bassaleikari Stuðmanna segir hljómsveitina enn álitlegri í dag en árið 1976 þegar platan Tívolí kom á markað. Hljómsveitin flytur öll lög plötunnar á tvennum tónleikum í Hörpu í kvöld. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is

Í kvöld flytja Stuðmenn á tvennum tónleikum í Hörpu tónlistina af Tívolí , einni vinsælustu hljómplötu sem út hefur komið hér á landi. Tívolí var önnur plata Stuðmanna, var hljóðrituð í Lundúnum, og kom á markað árið 1976. Á henni eru mörg lög sem löngu eru orðin sígild, til að mynda „Hveitibjörn“, „Frímann flugkappi“, „Bíólagið“, „Á skotbökkum“ og „Hr. Reykjavík“. Þema plötunnar var gamli Tívolígarðurinn í Vatnsmýrinni sem starfræktur var á árunum 1946 til 1962 en hann var á plötunni gerður að spegilmynd samfélagsins, þar sem skotbakkar urðu til dæmis tákn hervæðingar og Frímann flugkappi tákn varnarliðsins, Fjallkonan var fjöllynd en vígbúin og Draugasalurinn var tákn Alþingishússins.

Tómas Magnús Tómasson, bassaleikari Stuðmanna síðan útgáfusaga þessarar sívinsælu hljómsveitar hófst árið 1975, segir meðlimi sveitarinnar ekki hafa slegið slöku við á æfingum fyrir tónleikana. Að þeim loknum blæs hljómsveitin síðan til dansleiks í húsinu og færir sig þá úr Eldborgarsalnum yfir í Silfurberg.

„Við vorum með tónleika í Hörpu fyrir tveimur árum og rifjuðum þá upp Með allt á hreinu -kvikmyndina. Það gekk svo ljómandi vel að okkur þótti við hæfi að fara aðeins aftur á bak og taka að þessu sinni fyrir Tívolí , aðra stóru plötu Stuðmanna sem kom út árið 1976. Ég geri ráð fyrir að á næstu stóru tónleikum tökum við fyrir Sumar á Sýrlandi . Við fikrum okkur hægt og rólega aftur á bak,“ segir hann.

– Tívolí er goðsagnakennd skífa, mikið eftirlæti margra. Nokkur lög af plötunni hafa ætíð verið á efnisskrá Stuðmanna en hvernig finnst þér verkið lifa í heild?

„Það hefur verið skemmtileg upplifun að rifja tónlistina upp,“ segir Tómas. „Sjálfur hef ég ekki átt þessa plötu í tugi ára. Það var gaman að setjast niður og hlusta á þetta. Ég hlusta lítið á plötur sem ég hef spilað á, en það var gaman fyrir mig, og allan hópinn held ég, að nálgast þetta að nýju.

Lögin samin í bílnum

Við erum búin að velta okkur nokkuð upp úr þessum lögum. Á sínum tíma var platan unnin mjög hratt, og hljómsveitin var ekki endanlega formuð. Við notuðum breska stúdíóleikara, trommuleikara og fleiri, á þessari plötu. Það voru engar æfingar, við hentum okkur inn í stúdíó og reyndum að klára lögin eins hratt og við gátum. Það er allt öðruvísi að setjast niður í dag þegar við erum með fastan trommuleikara og heila hljómsveit. Ég myndi segja að í meðförum okkar núna væri hljómsveitin enn álitlegri.“

Á sviðinu í kvöld verða þeir Egill Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon, Valgeir Guðjónsson og Tómas, og þá koma auk þessa gamla kjarna Stuðmanna fram með þeim Ragnhildur Gísladóttir söngkona og Guðmundur Pétursson gítarleikari, sem hefur verið fastráðinn í sveitinni síðustu árin, rétt eins og Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari. „Margt sem við gerum á þessum tónleikum verður eyrnakonfekt fyrir gesti. Að sjálfsögðu höldum við trúnaðarsambandi við upphaflegu útsetningarnar, við ætlum ekkert að breyta Tívolí í aðra plötu,“ segir Tómas.

– Þið eruð engu að síður þroskaðri hljóðfæraleikarar í dag, rödd söngvaranna hefur breyst og nýja fólkið hefur sín áhrif.

„Jú, og kannski er mesti munurinn sá að á bak við þessa tónleika liggja tæplega þrjátíu æfingar en ekki bara hoppað beint upp á svið og reynt að spila þetta eftir minni.“

Þegar Tívolí var hljóðrituð í Lundúnum voru þeir Tómas og Jakob búsettir þar en hinir meðlimirnir, Egill, Valgeir og Sigurður Bjóla, höfðu unnið að laga- og textasmíðum og komu með afraksturinn til Bretlands.

„Þeir tóku ferjuna Smyril til Skotlands og komu keyrandi til London. Mér skilst að nokkur lög hafi orðið til á leiðinni. Eitthvað var tilbúið heima á íslandi, en tvö, þrjú lög með textum voru víst samin í bílnum. Kassagítar var með í för.

Þeir komu til að taka upp með okkur, við rétt hittumst, svo mættu einhverjir trommuleikarar sem höfðu aldrei heyrt neitt. Hvað mestur tími fór í að koma þeim í skilning um hvað ætti að gera,“ segir Tómas og hlær.

– Hvernig mótaðist tívolí-konseptið sem platan og textarnir byggjast á?

„Ég er ekki höfundur laga á plötunni en geri ráð fyrir að þeir hafi verið búnir að hgsa þetta konsept nokkuð áður; þetta var ákveðin þjóðfélagsrýni, vísað í það sem var að gerast á Íslandi. Það var ákveðið að þetta yrði konseptplata svipað og Sumar á Sýrlandi , en það er alvarlegri og dekkri tónn á þessari plötu. Hin var hrein gleðiplata.“

– Þú birtist á myndum í líki fjallkonunnar?

Tómas hlær. „Það var tilviljun, held ég. Það var reynt að búa til karaktera úr okkur öllum en þetta átti ágætlega við því ég söng lagið „Herra Reykjavík“ á plötunni. Menn eru að velta sér upp úr því í dag að þetta hafi verið fyrsta íslenska „gay lagið“! Við það var gert myndband sem Sjónvarpið lét því miður stroka út, en þar er ég í fjallkonubúningnum að gæla við Valgeir Guðjónsson sem situr á sundskýlu í hárþurrku.“

Tómas er ófáanlegur til að greina frá því sem fram fer í Eldborg í kvöld en segir að ýmislegt muni birtast sem komi fólki á óvart. Hann syngur þó ekki „Herra Reykjavík“ að þessu sinni, heldur Ragnhildur.

„Á þessum tíma söng ég lagið með uppdiktaðri kvenmannsrödd. Við gerðum nokkuð af því, við Jakob, að herma eftir Ingibjörgu Þorbergs. Hann fékk að syngja lagið „Þó ég dóli / í frönsku hjóli“ en mér var úthlutað „Herra Reykjavík“.“

– Eftir tvenna tónleika í Eldborg í kvöld teljið þið í ball í Silfurbergi. Er það nauðsynlegt eftir tónleika, að halda Stuðmannaball?

„Við eigum svo langan lagalista að við ætlum að taka tvö góð sett í lokin, allt öðruvísi prógramm í sama anda og við höfum verið að spila gegnum árin á dansleikjum.“

– Getið þið alltaf komið saman eftir langt hlé, talið í og byrjað að spila?

„Já já. Þetta er rútíneraður hópur.“

– Og ódrepandi?

„Vonandi. Ég held við séum ekkert að fara að hrökkva upp af. Dagurinn tekur á en við förum léttilega með þetta. Það er góður andi í hópnum, mikið hlegið – og spilað.“