Hlauparar hafa ástæðu til að gleðjast. Ný rannsókn sýnir að þeir lifa lengur en þeir sem ekki hlaupa og eru í minni hættu á að fá hjartasjúkdóma.
Hlauparar hafa ástæðu til að gleðjast. Ný rannsókn sýnir að þeir lifa lengur en þeir sem ekki hlaupa og eru í minni hættu á að fá hjartasjúkdóma. — Morgunblaðið/Eggert
Hlaup hjálpa til við að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma, jafnvel þótt aðeins sé hlaupið í nokkrar mínútur á dag, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem birt var í tímaritinu Journal of the American College of Cardiology nýverið.
Hlaup hjálpa til við að koma í veg fyrir hjartasjúkdóma, jafnvel þótt aðeins sé hlaupið í nokkrar mínútur á dag, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem birt var í tímaritinu Journal of the American College of Cardiology nýverið. Rannsakendur skoðuðu 55 þúsund einstaklinga á aldrinum 18 til 100 ára og fylgdust með heilsufari þeirra yfir 15 ára tímabil. Skoðað var hversu lengi fólk lifði, hverjar dánarorsakir voru og hvort viðkomandi stundaði hlaup eða ekki. Dánartíðni úr hjartasjúkdómum var 45% lægri hjá hópnum sem stundaði einhvers konar hlaup en hjá þeim sem aldrei hlupu. Þá sýndu niðurstöður að hlauparar lifðu að meðaltali þremur árum lengur en þeir sem ekki stunduðu hlaup, jafnvel þótt tekið væri tillit til aldurs, kyns, reykinga, þyngdar og annarra þátta sem gætu haft áhrif. Þannig sýndu niðurstöður að manneskja í ofþyngd sem hljóp reglulega var ólíklegri til að fá hjartasjúkdóm en manneskja í kjörþyngd sem aldrei reimaði á sig hlaupaskó.