Hópurinn sem stendur að RIFF. Frá vinstri: Svava Lóa Stefánsdóttir, Hrönn Marinósdóttir, Maks Pilasiewicz, Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Martiina Putnik, Julika Friemel, Skúli Helgi Sigurgíslason, Anna Margrét Björnsson, Valur Gunnarsson, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, Ingibjörg Halldórsdóttir, Gunnar Tómas Kristófersson, Valur Grettisson, Börkur Gunnarsson, Vilborg Halldórsdóttir og Jóhann Alfreð Kristinsson.
Hópurinn sem stendur að RIFF. Frá vinstri: Svava Lóa Stefánsdóttir, Hrönn Marinósdóttir, Maks Pilasiewicz, Ingibjörg Gréta Gísladóttir, Martiina Putnik, Julika Friemel, Skúli Helgi Sigurgíslason, Anna Margrét Björnsson, Valur Gunnarsson, Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, Ingibjörg Halldórsdóttir, Gunnar Tómas Kristófersson, Valur Grettisson, Börkur Gunnarsson, Vilborg Halldórsdóttir og Jóhann Alfreð Kristinsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, bauð hópnum sem stendur að kvikmyndahátíðinni heim og allir lögðu eitthvað til í glæsilegt matarboð. Júlía Margrét Alexandersdóttir julia@mbl.is
Starfsmenn Reykjavík International Film Festival, RIFF, snæddu saman hjá Hrönn Marinósdóttur, stjórnanda RIFF, á heimili hennar í vikunni en Hrönn og eiginmaður hennar, Þröstur Helgason, búa í Vesturbæ Reykjavíkur. Mikill erill hefur verið í herbúðum RIFF að undanförnu enda tæpur mánuður í hátíðina. RIFF er alþjóðleg kvikmyndahátíð og starfsfólk hátíðarinnar er að sama skapi mjög alþjóðlegt, en þar starfar fólk frá Póllandi, Íslandi, Eistlandi, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi. Af því tilefni var ákveðið að nokkrir gestir boðsins kæmu annaðhvort með rétt frá sínu heimalandi eða þá uppáhaldsmatinn sem væri þá með eilítið alþjóðlegu ívafi.

„Kvöldið var yndislegt. Stemningin var mjög afslöppuð og notalegt að njóta matar og drykkjar í góðum félagsskap og það var mikið hlegið,“ segir Hrönn og bætir við að hópurinn hafi haft gott af því að setjast niður og ná vel saman fyrir vinnutörnina sem framundan er.

Maturinn var með mjög fjölbreyttu sniði og veitti nýja innsýn í heimalönd þeirra sem vinna að RIFF og greinilega margir listakokkar á ferð í teyminu. Sérstaka kátínu vöktu sviðakjammarnir og blóðmör og Valur Gunnarsson útbjó eftirrétt með því að blanda saman skyri, þeyttum rjóma og vanilluís og strá lakkrískurli ofan á. Uppskriftir að aðeins flóknari réttum en þessum má líta hér á blaðsíðunum.

„Við hópurinn náum varla að borða hádegismat þessa dagana þar sem allt er á haus við undirbúning kvikmyndahátíðarinnar. Hún hefst núna 25. september en utan kvikmyndasýninga og fræðsludagskrár verðum við einnig með ýmislegt óvænt eins og kvikmyndatónleika og pottabíó í Kópavogi og Reykjavík. Þá erum við að taka við fjölda framleiðenda, fræðimanna og blaðamanna sem tengjast kvikmyndaheiminum eins og áður hefur verið.“

Tabbouleh Önnu Margrétar

Anna Margrét Björnsson, kynningarfulltrúi Riff, eyddi sumrinu í Berlín með fjölskyldu sinni en þar er Mið-Austurlandamatur allsráðandi. Þessi uppskrift er að uppruna frá Líbanon.

25 g búlgur eða kúskús

4-5 vel þroskaðir tómatar, fínt skornir

1 gúrka, skorin í litla bita

1 stórt búnt steinselja

1 lítið búnt fersk myntulauf

1 lítill rauðlaukur, fínt skorinn

2 hvítlauksrif, fínt skorin

3 sítrónur, safinn úr þeim

3 msk. ólífuolía

Ras el Hanout krydd, má sleppa

sjávarsalt og svartur pipar eftir smekk

Látið búlgurnar liggja í sjóðandi vatni og fylgið þar leiðbeiningunum á pakkanum.

Búlgur eða tabbouleh látið liggja í sjóðandi vatni (fylgið leiðbeiningum). Gott er að krydda búlgurnar örlítið með Ras el Hanout kryddi sem fæst til dæmis í Nóatúni. Klippið steinseljuna fínt, rífið myntublöðin og blandið saman við niðurskorna grænmetið. Blandið búlgunum saman við sem og sítrónusafanum, ólífuolíunni og kryddið með salti og pipar. Stráið fínskornum, ferskum hvítlauk yfir.

Rauðrófu- og síldarsalat Martiinu Putnik

Martiina Putnik, gestastjóri RIFF, bauð upp á rauðrófu- og síldarsalat frá heimalandi sínu, Eistlandi, sem nefnist Rosolje.

500 g rauðrófur, soðnar

300 g kartöflur, soðnar

200 g gulrætur, soðnar

2 græn epli

2 stk. súrar gúrkur

200 g maríneruð síld að eigin vali

3 harðsoðin egg

5 dl sýrður rjómi

½ tsk. sterkt sinnep

1 tsk. salt

Skerið soðnar rauðrófur, kartöflur og gulrætur niður í mátulega stóra munnbita. Kjarnhreinsið eplin, afhýðið og skerið þau, súru gúrkurnar og eggin einnig í mátulega bita. Blandið saman sýrðum rjóma, sterku sinnepi og salti. Blandið öllu, ásamt síldinni, saman við þá blöndu.

Kjötbollur Vals Grettissonar

Kjötbollurnar eru gerðar eftir uppskrift sem Valur hefur þróað og fyrirmyndin er bæði Ítalía og æskuslóðir Vals; Hafnarfjörður.

500-600 g hakk

6 brauðsneiðar, grófar eða fínar

½ dl mjólk

1 egg

6 hvítlauksgeirar, fínt skornir

½ búnt steinselja

parmesanostur eftir smekk

salt og pipar eftir smekk

ólífuolía til steikingar

Sósan

6 msk. rifsberjahlaup

1 flaska Chili Heinz-tómatssósa

Skerið skorpuna af brauðinu. Rífið þá brauðið niður og setjið út í mjólkinu. Hellið hakkinu saman við og blandið öllu saman. Setjið fínskorinn hvítlaukinn saman við og hrærið. Rífið steinseljuna og bætið henni við eftir smekk sem og parmesanostinum. Brjótið eggið og hrærið varlega saman við. Mótið tiltölulega litlar bollur og steikið við meðalhita á pönnu.

Á meðan bollurnar steikjast skal blanda saman rifsberjahlaupi og allri Chili-tómatsósunni. Hellið sósunni út á pönnuna með bollunum þegar þær eru fulleldaðar og leyfið að malla í nokkrar mínútur. Gott er að bera bollurnar fram með salati og hvítlauksbrauði og þá má einnig sjóða spaghettí og hafa með.

Tapasréttur Ingibjargar Grétu

Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framleiðandi bauð upp á spænskan tapasrétt sem kallast Ensalada Russa

1 kg kartöflur, soðnar

250 ml sýrður rjómi

350 ml majónes

1 stór laukur

2 dósir túnfiskur

1 dós ORA blandað grænmeti

1 bolli svartar eða grænar ólífur

salt og pipar eftir smekk

egg og nokkrar ólífur til viðbótar til að skreyta með

Skerið kartöflurnar í bita, sneiðið laukinn og hellið vatninu af túnfisknum og blandið saman í skál ásamt blandaða grænmetinu. Blandið sýrðum rjóma og majónesi saman í skál og kryddið eftir smekk. Setjið kartöflublönduna saman við majónesblönduna. Fallegt er að leggja niðurskorin egg og ólífur ofan á salatblönduna áður en borið er fram.

Kartöfluklattar Maks Pilasiewicz

Maks Pilasiewicz, starfsmaður dagskrárdeildar, lagði til pólska kartöfluklatta í matarboðið eða svokallaða Placki.

2 kg kartöflur, soðnar

3 meðalstórir laukar, fínt skornir

hveiti eftir þörfum

2 egg

örlítil olía til steikingar

Maukið soðnar kartöflur í skál og bætið fínt skornum lauknum saman við. Brjótið 2 egg út í blönduna og sáldrið hveiti eins og þarf til að deigið sé eftir ykkar smekk hvað þykkt varðar. Hitið olíu á pönnu og steikið við meðalhita nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til klattarnir eru fallega gylltir.