Brjánslækur
Brjánslækur — Morgunblaðið/Kristinn
Fyrir aldarfjórðungi var ekki tekið að horfa til Kína í þessu samhengi.

Fyrir aldarfjórðungi var ekki tekið að horfa til Kína í þessu samhengi. Stóra ófriðarhættan hafði verið bundin við Sovétríkin í Kalda stríðinu og eftir fall þess þótti mörgum víst að friðarskeið í heimi væri framundan, í það minnsta „um vora daga“, eins og það hét úr munni Neville Chamberlains forðum.

Mikilvægum fundi Atlantshafsbandalagsins er lokið í Wales. Af þessum fundi má draga margar ályktanir. Hin fyrsta er sú að ljóst sé orðið, að það var rétt ákvörðun halda formlegu varnarsamstarfi Nato áfram eftir að hinn formlegi andstæðingur þess, Varsjárbandalagið, hafði gufað upp og Varsjá sjálf hafði orðið ein af höfuðborgum Nato-landa.

Forsagan

Síðasti aðalritari Kommúnistaflokks Sovétríkjanna og síðasti forseti þeirra, Mikhail Gorbaschev, hafði ekki mörg spil á hendinni í síðustu samningalotu við Nato/Bandaríkin undir forystu George Bush eldra. En Bush taldi þó bæði rétt og skynsamlegt að nýta sér ekki veika stöðu andstæðingsins út í ystu æsar. Versalasamningarnir og fleiri dæmi veraldarsögunnar hræddu. En einnig var talið að væri of hart gengið fram kynni Gorbaschev að missa vald á stöðunni og harðlínumenn ná yfirhöndinni eystra. Í þessari stöðu var því lofað, að herlið Nato yrði ekki staðsett varanlega í þeim nýfrjálsu ríkjum sem næst eru landamærum Rússlands, svo sem í Eystrasaltslöndunum. Sumir halda því fram að Pútín hafi með framgöngu sinni að undanförnu sjálfur kippt fótunum undan þessu loforði ríkja Nato. Raunar gerðust í framhaldinu atburðir í hinu fallandi risaveldi sem George H.W. Bush eða aðrir vestrænir leiðtogar höfðu lítil áhrif á. Klíka gamalla fyrirmenna í efstu röð í Kreml gerði hallarbyltingu, setti forseta sinn í stofufangelsi og skriðdrekar klíkunnar brunuðu inn í hjarta höfuðborgarinnar Moskvu. En gagnbyltingarómyndin lognaðist út af og voru ástæður þess margar. Hún var illa undirbúin og fumkennd. Byltingarforingjarnir voru flestir vaklandi og hræddir drykkjuboltar. Sovétríkin voru gjaldþrota. En úrslitum réði, að nýja Rússland hafði óvænt eignast hugrakkan og litríkan forystumann, sem gjörbreytti stöðunni með framgöngu sinni. Það var Boris Yeltsín. Hann var sjálfur ekki laus við að eiga vingott við vodkaflöskuna, en aðrir eiginleikar hans voru þó mikilvægari á þessari ögurstundu Rússlands og alþjóðastjórnmála.

Heimsveldi gufar upp

En hin gagnslausa gagnbylting gerði út af við Gorbaschev, þótt Yeltsín léti leysa hann úr stofufangelsinu. Þessi síðasti arftaki þeirra Stalíns og Leníns hafði verið auðmýktur með þeim hætti að hann átti sér ekki viðreisnar von. Frelsi hans og staða var upp á náð Borisar Yeltsín komin.

Á fundi Kommúnistaflokksins, sem sýndur var í beinni útsendingu, rann þessi veruleiki upp fyrir Sovétleiðtoganum og öllum heiminum á sama andartaki. Yeltsín lagði þar niður Kommúnistaflokkinn og Sovétríkin með einu pennastriki. Þetta var dramatískt augnablik. Atburður sem enginn þúsunda virtra sovétfræðinga við enn virtari háskólastofnanir hafði séð fyrir. Enda hefði hver og einn þeirra verið talinn galinn hefði hann þóst sjá þetta fyrir og sagt frá því.

Framhaldið er þekkt. Heiminum kom á óvart, hve sovéska kerfið hafði leikið illa þetta víðfeðmasta ríki veraldar sem hlaðið er náttúrulegum gæðum. Vestræn ríki, sem lengi höfðu óttast valdamenn í Kreml, önduðu léttara.

Efnahagsleg geta Rússlands var nú talin mun minni en einstakra ESB ríkja. Spánn var nefndur sem dæmi. Rússland þótti vanþróað land, innri gerð þess öll væri í molum. Þótt herinn væri mannmargur var hann illa búinn og fé skorti til að endurnýja hann og jafnvel til að sinna lágmarksviðhaldi. Hugur og sjálfstrausts hersins var í molum og launagreiðslur til þeirra stopular. Nú þótti mörgum tækifæri til að gefa Rússum langt nef. Eftir fall Sovétríkjanna væri aðeins eitt stórveldi eftir í veröldinni. Sem betur fer væri það lýðræðisríki og því væri það ekki líklegt til að misnota þessa einstöku stöðu sína, eins og alræðisríki myndi örugglega gera. Fyrir aldarfjórðungi var ekki tekið að horfa til Kína í þessu samhengi. Stóra ófriðarhættan hafði verið bundin við Sovétríkin í Kalda stríðinu og eftir fall þess þótti mörgum víst að friðarskeið í heimi væri framundan, í það minnsta „um vora daga“, eins og það hét úr munni Neville Chamberlains forðum.

Ekkert samt eftir

En svo brast 11. september á, árið 2001. Fámennur hópur öfgamanna á vegum Osama bin Ladens náði að veita Bandaríkjunum stærra sár á heimaslóð en nokkru herveldi hafði tekist áður og raunar aldrei gert alvarlega tilraun til. (Pearl Harbour er önnur saga.) Það var reiðarslag. Heimsmynd Bandaríkjamanna breyttist á svipstundu. Það var á þessum tíma sem varnarstöðinni í Keflavík var lokað. Kalda stríðið var fyrir löngu úr sögunni. Engin vá stafaði frá hinu fallna stórveldi, og Kína var í órafjarlægð og Norðurpóllinn eins og óvinnandi ómönnuð varnarstöð gegn því. Og 11. september 2001, sem nú var ekki aðeins dagsetning, heldur sjálfstætt hugtak, kallaði á nýjar áherslur og óhjákvæmilegt var að horfa til nýrrar áttar.

Stríðsaðgerðum í Afganistan og Írak, þar sem ómótstæðilegu afli skyldi beitt, var ætlað að rífa upp með rótum hættuna, sem kristallaðist í 11. september. Engin önnur aðgerð dygði.

Þekkt er hugtakið: „Lækningin tókst, en sjúklingurinn dó.“ Það má yfirfæra á Afganistan og Írak. Ríkin tvö, sem slík, stóðust ekki Bandaríkjunum snúning. Þau veittu litla mótspyrnu og féllu á fáeinum vikum.

Saddam Hussein hörfaði ofan í holu í sínum gamla heimabæ. Loks var sagt til hans þar og 20 milljóna dollara verðlaun hirt og Saddam svo hífður úr holunni og loks hengdur eftir réttarhöld, sem frá fyrsta degi voru miðuð við þann lokapunkt.

Langir menn, en leynast vel

Helsti valdamaður Afganistans, Mullah Omar, hinn eineygði, lagði á flótta, fyrst í leigubíl og svo á skellinöðru og hefur ekki náðst síðan.

Osama bin Laden var leitað af meiri ákafa en nokkrum manni öðrum, fyrr og síðar, og fannst eftir áratug, þar sem hann bjó í þægindum í eins konar Arnarnesi í Pakistan. Það land sem þykist vera helsti bandamaður Bandaríkjamanna í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum og fær fúlgur fyrir.

Mullah Omar er sagður vera allur á lengdina, eins og bin Laden, tveggja metra maður, en hefur þó aldrei verið mjög sýnilegur, jafnvel ekki á meðan hann var hinn raunverulegi hæstráðandi í Afganistan.

Fyrir 13 árum var eftirfarandi haft eftir Mullah Omar: „Ég stend um þessar mundir frammi fyrir tveimur fyrirheitum. Annað þeirra er frá Allah, en hitt frá (George W.) Bush. Í fyrirheiti Allah felst að föðurland mitt sé víðfeðmt, en í því frá Bush að ekki sé til sá staður á jarðríki þar sem ég fái falist fyrir honum. Við skulum sjá hvort fyrirheitið reynist betur.“

Enn sem komið er virðist Allah hafa haft betur en Bush og er því haldið fram að leyniþjónusta Pakistans eigi sinn þátt í því.

Bandaríkin hurfu frá Írak 2011 og þar hafa öfgamenn, sem sagðir eru grimmari en lærisveinar bin Ladens, náð undir sig landsvæðum á stærð við Stóra-Bretland, með Skotlandi enn inniföldu. Og nú styttist í að Mullah Omar geti veifað aftur á gamla leigubílinn til að ferja sig til valda í Afganistan svo hann geti komið landinu aftur í þær myrku miðaldir sem þjóðin þar bjó við. Þá er hætt við að ýmsir muni gjalda dýru verði fyrir samfélagið við trúleysingjana.

Konur í því landi hafa mesta ástæðu til að óttast og það kann að breytast í bölvun fyrir þær, að hafa fengið að gægjast inn í nútímann með góðum fyrirheitum. Sú framtíðarsýn reyndist ekki annað en örskots ljósglenna í endalausu myrkri.

Þá kom röðin að Úkraínu

Og við þessi tímamót töldu leiðtogar hins sundurleita Evrópusambands rétt að gefa Úkraínu undir fótinn. Úkraínu var sjálfri vorkunn. Meirihluti þjóðarinnar horfir örugglega í vesturátt. En sú þjóð vissi hins vegar ekki að Evrópusambandið er lítið annað en haugur af tilskipunum. Það þrífst á því, að auðmjúk lönd kyngi athugasemdarlaust öllum slíkum tilskipunum. En Rússland Pútíns gerir ekkert með það. Honum þykir lítið til ESB koma. Í því felst vandi Úkraínu núna. Fyrsta verk nýs forseta landsins var að senda vanbúinn her sinn í austurátt, á móti „aðskilnaðarsinnum, sem halla sér að Rússum“ til að berja niður mótspyrnu þeirra. Pútín ætlar sér að stöðva þá herferð. Hann hefur að auki ekki pólitíska stöðu til annars. Gamli sovétleiðtoginn Gorbaschev, sem oft hefur gagnrýnt Pútín, sagðist í gær (5. september) styðja stefnu forsetans og bætti við að innlimun Krímskaga hefði aðeins verið sjálfsögð leiðrétting á mistökum Krútsjeffs.

Vopnahléð og fundur í Wales

Nú virðist vopnahlé hafa verið samið í Úkraínu. Það er eitt og sér fagnaðarefni. En óneitanlega virðist það samkomulag undirstrika bætta stöðu aðskilnaðarsinna (Pútíns). Stjórnarherinn hefur hörfað síðustu daga og því sótti forseti Úkraínu vopnahlé fastar en mótaðilinn. Náist vopnahlé, verður frestað að herða efnahagsþvinganir gegn Rússum og mörg ESB-ríki taka því fegins hendi. Refsiaðgerðir og viðbrögð Rússa við þeim eru mörgum ESB-ríkjum þungbær.

Fundurinn í Wales var eftirtektarverður vegna þess að þaðan komu bitastæðar ákvarðanir. Einhugur virtist ríkja. Samþykkt var að koma þegar upp viðbragðssveitum og staðsetja þær í fyrrum leppríkjum Kremlar, svo sem í Póllandi. Það mun taka tíma að setja á fót vel þjálfað herlið með búnað og burði til að bregðast við fjandsamlegum aðgerðum á fáeinum sólarhringum. Slíkt lið verður ekki tiltækt strax.

En þá hrannast upp spurningar

Þessi ákvörðun fundarins kallar á margvíslegar spurningar. Gæti t.d. uppnám í hinum fjölmenna rússneska minnihlutahópi í Lettlandi og viðbrögð yfirvalda við því, leitt til þess að Rússar sendu mannskap til að gæta hagsmuna þess hóps. Og bæri þá að senda 4.000 hermenn Nato í ofboði á móti Rússum? Yrði það virkilega gert? Ætti slíkt lið einhverja möguleika gagnvart 50.000 rússneskum hermönnum við landamærin, eins og er við landamæri Úkraínu? Hefur tilvera slíks viðbragðliðs meiri fælingarmátt heldur en yfirvofandi tafarlaus vísun í 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að Rússland hefði með sínum aðgerðum gert árás á Atlantshafsbandalagið og láti það ekki tafarlaust af henni sé Rússland komið í stríð við öll ríki Nato? Gæti það ekki verið freisting fyrir Rússa að láta reyna á það með sí stækkandi smáögrunum, hvort slíkt lið yrði nokkurn tíma sent í seilingarfjarlægð við rússneska herinn? Og ef það væri ekki gert, hvað stæði þá eftir af trúverðugleika Nato? Myndi bandalagið lifa slíkt af? Þessar og fleiri spurningar hljóta að vakna.

En rétt eins og Pútín getur ekki leyft sér, að láta brjóta rússneskumælandi hluta Úkraínu á bak aftur, gátu Obama forseti og bandamenn hans, ekki komið tómhentir frá leiðtogafundi Nato.

Þessi mikla skák er vandtefld. Báðum megin við borðið er því teflt af varúð. Þeir sem stjórna taflmönnunum varast að seilast of langt. Staðan er óneitanlega jafnteflisleg. Og flestir þekkja þessa grundvallarreglu í skák:

„Jafntefli er jafntefli, nema að maður reyni að vinna það, þá er það tapað.“