„Mér finnst mikilvægt að formaður SÍM sé starfandi listamaður,“ segir Jóna Hlíf.
„Mér finnst mikilvægt að formaður SÍM sé starfandi listamaður,“ segir Jóna Hlíf.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar sýninguna „Einangrun/Isolation“ í Kunstschlager. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Ég vona að gestir á sýningunni fái tilfinningu fyrir einangrun,“ segir Jóna Hlíf Halldórsdóttir um sýninguna „Einangrun/Isolation“ sem hún opnaði í Kunstschlager við Rauðarárstíg 1 í dag, laugardag kl. 17.

Jóna Hlíf hefur verið virk í sýningarhaldi á undanförnum árum. Hún hefur bæði aðstoðað við sýningar í tengslum við höggmyndagarðinn og starf Myndhöggvarafélagsins, auk þess sem hún hefur sjálf sýnt verk á samsýningum og einkasýningum. Þetta er fyrsta einkasýning hennar frá árinu 2012 en Jóna Hlíf er einnig nýkjörinn formaður SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Hún segist á þessari sýningu vera að vinna áfram með fyrirbæri sem hún hefur tekist á við á fyrri sýningum, svo sem sterka liti, textaverk, prent og skurð. „Þetta er að mörgu leyti eðlilegt framhald af síðustu einkasýningu sem ég hélt í Galleríi Þoku, þar sem ég blandaði saman litum, texta, forsíðum eða öðru efni úr bókum og tímaritum, pappakössum og öðru tilfallandi. Burðurinn á sýningunni eru glæný verk og nýjar tilraunir sem mér finnst spennandi,“ segir hún.

Hvaða verk eru þetta?

„Í Kristnesi í Eyjafirði fann ég stafla af kössum með bókum í og það kom í ljós að þeir eru af bókasafni berklaspítalans sem þar var starfræktur,“ segir hún. „Mér þótti það áhugavert og var byrjuð að hugsa um þessa sýningu hér. Ég hef mikið unnið með bækur og texta, í samvinnu við Hjálmar Stefán Brynjólfsson, manninn minn, og við fengum lánaðar bækur úr þessu safni sem okkur þóttu sérstaklega áhugaverðar. Í því samhengi fór ég að hugsa um hvað það þýddi að vera einangraður, annars vegar búandi á þessari eyju í dag, með alla þessa tölvutækni sem getur tengt okkur við umheiminn, og hinsvegar hvernig það hafi verið að vera berklasjúklingur á þessum tíma þegar fólk mátti ekki fara úr húsi og aðeins eitt bókasafn í boði. Upplýsingar voru takmarkaðar. Ég var að vinna með þetta; einangrun þá og nú, en svo er þetta líka tilraunaverkefni þar sem ég er að vinna með tilfinningar.“

Hvernig gengur Jónu Hlíf að samræma það að starfa sem myndlistarmaður og vera formaður hagsmunasamtaka myndlistarmanna?

„Mér finnst mikilvægt að formaður SÍM sé starfandi listamaður. Þá hefur maður puttana á púlsinsum, því sem er í gangi, sköpunin er hluti af vinnuferlinu. Enda er formannsstarfið ekki hundrað prósent vinna. Ég er með margar sýningar í farvatninu og læt það ekki hafa áhrif á störf mín fyrir SÍM.“