Sjónvarpsvísun „Mín upplifun var að þetta væri leikhús með sterkri sjónvarpsvísun sem heppnaðist nokkuð vel,“ segir m.a. í rýni um sýninguna Ævintýri í Latabæ sem Þjóðleikhúsið frumsýndi um helgina.
Sjónvarpsvísun „Mín upplifun var að þetta væri leikhús með sterkri sjónvarpsvísun sem heppnaðist nokkuð vel,“ segir m.a. í rýni um sýninguna Ævintýri í Latabæ sem Þjóðleikhúsið frumsýndi um helgina. — Ljósmynd/Eddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ævintýri í Latabæ eftir Magnús Scheving, Ólaf S.K. Þorvaldz og Mána Svavarsson.

Ævintýri í Latabæ eftir Magnús Scheving, Ólaf S.K. Þorvaldz og Mána Svavarsson. Leikarar: Arnmundur Ernst Backman, Dýri Kristjánsson, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Hallgrímur Ólafsson, Hannes Óli Ágústsson, Jónmundur Grétarsson, Melkorka Davíðsdóttir Pitt, Oddur Júlíusson, Rán Ragnarsdóttir, Stefán Karl Stefánsson, Svandís Dóra Einarsdóttir og Þórir Sæmundsson. Tónlist: Máni Svavarsson. Hljóðmynd: Máni Svavarsson og Nicolas Liebing. Leikmynd: Emil Pétursson, Verkstæðið ehf. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Dansarar: Ástrós Guðjónsdóttir, Brynjar Dagur Albertsson, Ellen Margrét Bæhrenz, Hilmar Steinn Gunnarsson, Jasmín Dúfa Pitt, Jóna Kristín Birgisdóttir, Karl Friðrik Hjaltason, Katrín Eyjólfsdóttir, Róbert Kristmannsson og Þórey Birgisdóttir. Danshöfundur: Stella Rósenkranz. Leikstjórn: Magnús Scheving og Rúnar Freyr Gíslason. Frumsýning á stóra sviði Þjóðleikhússins 14. september 2014.

Latibær er magnað fyrirbrigði. Þetta hugarfóstur Magnúsar Scheving hefur vaxið úr bókum í að vera leikið barnaefni sem sýnt er í sjónvarpi um víða veröld við miklar vinsældir. Ekki er annað hægt en að taka ofan fyrir slíkum árangri jafnvel þó að eðlið sé svo skítlegt að áróður fyrir hollustufæði og hreyfingu eigi það til að þreyta mann. Því verður heldur ekki andmælt að Latibær með sínum vel afmörkuðu og tiltölulega einföldu persónum miðlar jákvæðum boðskap sem hefur reynst eiga betur og betur við eftir því sem árin hafa liðið.

Saga Ævintýris í Latabæ snýst um það að íbúar bæjarins lenda í því að Glanni glæpur, sem hefur náð að margfalda sig, nær að yfirtaka bæinn og setja á hreyfibann. Honum tekst einnig að gera íþróttaálfinn óvirkan þannig að allt útlit er fyrir að hreyfingu og hollustu verði útrýmt. Solla stirða leiðir andspyrnu bæjarbúa og við fáum að fylgjast með átökum þeirra við fláráða glæpamenn, tilfinningalausa hreyfilöggu með vélhund og marga handlangara. Leikurinn berst stundum út í sal og áhorfendur eru óspart virkjaðir með frábærum árangri. Þeir yngri voru alveg ófeimnir við að kalla leiðbeiningar bæði til Sollu stirðu, íþróttaálfsins og... já líka til Glanna glæps. Samtíminn og Ísland eru svo aðeins dregin inn í söguna með selfie, mótmælum með kröfuspjöldum og vísun í hrun.

Maður hefur tilhneigingu til að hrífast frekar af vondu gaurunum en þeim góðu sem geta því miður verið nokkuð litlausir í gæsku sinni. Þrátt fyrir að Glanni glæpur sé svarnasti andstæðingur þess að hreyfa sig og borða hollan mat er hann alveg stórskemmtilegur. Glanni er fyndinn, hann nær mjög góðu sambandi við áhorfendur og er stórvel túlkaður af Stefáni Karli Stefánssyni. Nenni níski, sem verður nú varla heldur lýst sem góðmenni þó að hann sýni fagurt eðli í lokin, kemur næstur á eftir Glanna. Hallgrímur Ólafsson leikur hann og sýnir fínan húmor. Solla stirða er frískleg og góð. Melkorka Davíðsdótir Pitt skilar henni með prýði og syngur og dansar bráðvel. Magnús Scheving er hættur að vera íþróttaálfur og Dýri Kristjánsson tekinn við. Heljarstökk álfsins og hopp eru þarna öll. Honum tekst einnig að virkja krakkana í salnum. Dýri hefur samt að mínu mati ekki sambærilega útgeislun og Stefán Karl sem Glanni glæpur. Ég hélt því fram við níu ára leikhúsfélaga minn að Magnús hefði nú sennilega leyst hlutverkið betur en hún aftók það og sagði að Dýri væri fínn. Aðrir leikarar voru góðir og ekki síst „skemmikraftarnir“ þrír sem leiknir voru af Arnmundi Ernst Backman, Oddi Júlíussyni og Þóri Sæmundssyni.

Mörg dansatriði eru í sýningunni. Latabæjardansarnir eru fremur einfaldir og börnin þekkja þá. Dansinn í fyrsta atriðinu þegar Solla stirða fer í dansskólann er í öðrum stíl en hrikalega flottur enda kunnu krakkarnir í salnum vel að meta hann. Mörg fleiri dansatriði voru mjög skemmtileg og vel útfærð af dönsurum sýningarinnar.

Tónlistin er með þéttum og einföldum púls sem er auðvelt að hoppa og klappa í takt við og hvort tveggja var gert í salnum. Textarnir eru skýrir og skilmerkilegir.

Í sýningunni er mikið unnið með myndbönd. Hinn ungi ráðgjafi minn hvíslaði einu sinni að mér: „Mér líður bara eins og ég sé á bíómynd.“ Mín upplifun var að þetta væri leikhús með sterkri sjónvarpsvísun sem heppnaðist nokkuð vel. Latabæjarbúningarnir eru bjartir og fallegir og ríma vel við húsakost og leikmynd sem er í einhverjum einföldum Hans-og-Grétu-stíl. Glanni og félagar eru í dimmari fjólubláum og bláum litum sem eru í illmannlegu samhengi við bjarta liti bæjarbúa. Hreyfilöggan er hins vegar höfð í kölsvörtum fötum sem voru þannig sniðin að mér fannst þau eiga betur heima í Star Wars-mynd en Latabæjarleikriti.

Ráðgjafi minn velti talsvert fyrir sér hvað ég myndi gefa margar stjörnur. Sjálf sagðist hún myndu setja á þetta fjórar og var búin að hækka upp í fjórar og hálfa þegar við vorum komin langleiðina til Hafnarfjarðar eftir sýninguna. Hún sagði líka að hún teldi að verkið fjallaði um vináttuna og það að vera góður sem ég get alveg tekið undir. Og ef manni lærist að hreyfa sig, borða hollan mat og setja vináttuna ofar peningum er maður nú bara kominn vel áleiðis í því að eignast heilbrigt og hamingjuríkt líf.

Sigurður G. Valgeirsson