Þorvaldur Gylfason prófessor andmælti því sjónarmiði í Fréttablaðinu 25. júní 2009, að Íslendingar ættu að fara dómstólaleiðina í Icesave-málinu.

Þorvaldur Gylfason prófessor andmælti því sjónarmiði í Fréttablaðinu 25. júní 2009, að Íslendingar ættu að fara dómstólaleiðina í Icesave-málinu. Hann skrifaði síðan: „Hugsum okkur, að úr því fengist skorið fyrir rétti, að Íslendingum bæri ekki lagaskylda til að greiða IceSave-ábyrgðirnar. Myndu Bretar þá með fulltingi annarra Evrópuþjóða falla frá kröfum sínum á hendur Íslendingum? Svarið er nei, ekki endilega. Krafa Breta væri þá siðferðileg frekar en lagaleg.“ Þorvaldur rakti síðan margvíslegan orðróm um tengsl íslenskra banka við rússneskar mafíur og hélt áfram: „Stjórnvöld sögðust fram að hruni mundu styðja við bankana, ef á þyrfti að halda. Viðskiptavinir Landsbankans á Bretlandi voru því í góðri trú. Þess vegna kunna Bretar og aðrir að líta svo á, að Íslendingum beri siðferðileg skylda til að axla ábyrgð á Landsbankanum hvað sem lögunum líður.“

Ekki voru liðin fjögur ár, þegar Þorvaldur var á Beinni línu DV 21. mars 2013. Lesandi spurði og mundi bersýnilega eftir gömlu greininni: „Telur þú enn að Íslendingar hafi farið siðlausa leið í Icesave-málinu með því að greiða ekki tilbúna skuld Breta og Hollendinga? Eru fleiri skuldir sem siðferði þitt vill borga fyrir hönd þjóðarinnar?“ Þorvaldur svaraði: „Ég kannast ekki við neitt siðleysistal í sambandi við Icesave-málið. Málið snerist um ólíkt áhættumat. Sumir töldu líkt og ríkisstjórnin og vænn hluti stjórnarandstöðunnar á þingi öruggara að ganga að samningum, aðrir ekki. Eðlilegt var, að kjósendur afgreiddu málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málið fékk á endanum farsælar lyktir fyrir Íslendinga, þegar dómur féll Íslendingum í vil. Sumum kom dómurinn á óvart, öðrum ekki. Flókin dómsmál eru oft þess eðlis, að ágreiningur um þau er eðlilegur.“

Sjálfsagt er að ræða ábyrgðarkennd og siðferðisvitund bankamanna, og er síst vanþörf á. En ætti ekki að bæta fræðimönnunum við?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H.

Gissurarson

hannesgi@hi.is