Grímur Thomsen, sem starfað hafði í dönsku utanríkisþjónustunni, skrifaði eitt sinn: „Ísland er bæði í landfræðilegum og sögulegum skilningi Janus, sem snýr annarri ásjónu sinni að hinni gömlu og menntuðu Evrópu, hinni að Ameríku, ungri og...

Grímur Thomsen, sem starfað hafði í dönsku utanríkisþjónustunni, skrifaði eitt sinn: „Ísland er bæði í landfræðilegum og sögulegum skilningi Janus, sem snýr annarri ásjónu sinni að hinni gömlu og menntuðu Evrópu, hinni að Ameríku, ungri og saklausri.“ Annað skáld, Hannes Pétursson, orti: „Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar og auðnir hnattarins taka við.“ Bæði telja skáldin bersýnilega, að Ísland sé hvorki í Evrópu né utan hennar, heldur á mörkum hennar.

En hvaða Evrópu? Þýski járnkanslarinn Otto von Bismarck páraði á bréf frá rússneskum ráðherra: „Tal um Evrópu rangt: landfræðilegt hugtak.“ En þessu er öfugt farið. Evrópa er ekki landfræðilegt hugtak, því að ekkert það skilur að Evrópu og Asíu, sem máli skiptir: Úralfjöll mynda engin eðlileg mörk. Evrópa er menningarlegt hugtak, sem smám saman myndaðist eftir fall hins rómverska Miðjarðarhafsveldis. Úrslitum réðu tvær orrustur við herskáa innrásarheri múslima, þegar franski herforinginn Karl Martel (en Martel merkir Hamar) stökkti þeim á brott við Tours í Suður-Frakklandi í október 732 og þegar pólski konungurinn Jóhann Sobieski kom Austurríkismönnum til aðstoðar í umsátrinu um Vínarborg í september 1683, en saman hröktu herir kristinna manna tyrkneska umsátursliðið aftur suður á bóginn.

Í stórvirki sínu á átjándu öld um hnignun og falli Rómaveldis ber breski sagnritarinn Edward Gibbon það saman við Evrópu samtímans. Í Rómaveldi urðu allir að lúta keisaranum, og sá, sem féll í ónáð, komst hvergi undan. En í Evrópu samtímans voru víða undankomuleiðir vegna fjölbreytninnar, griðastaðir. Franskir húgenottar gátu flúið til Danmerkur og spænskir gyðingar til Grikklands. Smám saman spratt líka upp sú hugmynd á svæði, sem teygir sig frá Norður-Ítalíu um Sviss til Niðurlanda og Englands og einkenndist af veiku ríkisvaldi og öflugri borgarastétt, að dreifa skyldi valdinu og setja því hömlur. Þessi hugmynd um takmarkað ríkisvald var síðan gróðursett í Vesturheimi og bar ríkulegan ávöxt.

Enn er spurt: Hvað er Evrópa? Er hún menning fjölbreytninnar, sem er í senn kristileg og umburðarlynd? Þeirra sem hrundu áhlaupum múslima 732 og 1683? Eða hefur fjölbreytnin þokað fyrir einhæfingu skriffinnanna í Brüssel?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is