10. október 2014 | Minningargreinar | 1415 orð | 1 mynd

Ágústína Jónsdóttir

Ágústína Jónsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 11. október 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. september 2014.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Stefánsson,f. 28.9. 1909, d. 19.3. 1991, og Elísabet Kristjánsdóttir, f. 1.12. 1919, d. 23.1. 2004.

Eiginmaður Ágústínu er Jóhann Ásgeirsson netagerðarmeistari og kennari við Tækniskólann. Dóttir Ágústínu er Elísabet Stefánsdóttir stjórnmálafræðingur, f. 12.10. 1975, maki Björn Logi Þórarinsson taugalæknir, f. 16.2. 1972. Börn þeirra eru Berglind Björt, Brynhildur Katla og Ágúst Orri. Fóstursonur Ágústínu er Jón Einar Jóhannsson. Eldri bræður hennar eru Gunnar Stefán Jónsson og Hermann Kristján Jónsson, báðir búsettir í Vestmannaeyjum.

Ágústína ólst upp í Vestmannaeyjum og lauk þar námi frá Barnaskóla Vestmannaeyja og síðar Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja. Að námi loknu hóf hún störf á skrifstofu Vestmannaeyjabæjar og síðan starfaði hún í mörg ár hjá Íslandsbanka (áður Útvegsbanka), fyrst í Vestmannaeyjum og síðan í Reykjavík. Um tíma starfaði hún með Leikfélagi Vestmannaeyja.

Útför Ágústínu fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 10. október 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma.

Það er sárt að sitja hér og skrifa til þín mína hinstu kveðju nokkrum dögum fyrir 65 ára afmælið þitt. Þrátt fyrir veikindi þín átti ég í einlægni ekki von á öðru en að við myndum fagna þeim degi saman, að degi síðar myndum við fagna mínum afmælisdegi og að í desember myndum við halda saman jól. Ég vissi að þeim tíma sem okkur var úthlutað saman væri senn að ljúka en ég var þó ekki undir það búin að hann liði svona hratt – að klippt yrði á hann með svo skömmum fyrirvara.

Ég er þakklát fyrir að þú fékkst að fara í friði. Ég trúi því að þú sért á góðum stað, að þér líði vel og að þú sért laus undan þeim byrðum sem lagðar voru á þig sl. ár þegar heilsan brást þér.

En mikið óskaplega sakna ég þín og mikið er nú sárt að kveðja þig því þú varst mér alla tíð svo miklu meira en bara móðir. Þú varst ein mín allra besta vinkona, trúnaðarvinur og ávallt á fremsta bekk í stuðningsliðinu. Þú varst börnum mínum einstaklega góð amma og það nístir inn að hjartarótum að þau skuli ekki fá að hafa þig lengur í lífi sínu. Ég vildi líka óska að þú hefðir fengið að njóta þeirra lengur því þau voru sólargeislarnir í lífi þínu.

Takk, elsku mamma mín, fyrir allt sem þú hefur gefið mér. Takk fyrir að hafa alltaf haft trú á mér og fyrir að hafa ávallt treyst mér fyrir því að velja mér mína braut í lífinu. Þú varst spör á gagnrýni en örlát á stuðning og hrós og ég vona að mér auðnist að fylgja því fordæmi í uppeldi barna minna.

Elsku mamma, ég sakna þín meira en orð fá lýst og vona að þú hafir ávallt vitað hversu mikið ég elska þig.

Guð geymi þig.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sófir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þín

Elísabet.

Ég var bæði feiminn og kvíðinn þegar ég hitti Ágústínu í fyrsta sinn í ágúst 2003 en þá var ég búinn að vera með einkadóttur hennar í tæpa þrjá mánuði. Sá kvíði hvarf um leið og ég hitti hana því Ágústína var einstaklega góð manneskja. Hún hafði góða nærveru, var kærleiksrík og jákvæð kona sem vildi allt fyrir fólkið sitt gera. Betri tengdamömmu er ekki hægt að hugsa sér.

Það varð hennar mesta gleði þegar hún eignaðist barnabörn. Mikið elskuðu litlu börnin okkar hana enda hafði hún svo mikið að gefa þeim af sjálfri sér.

Það var alltaf gott þegar hún kom til okkar, hún fyllti heimilið af jákvæðni, ró og góðri nærveru. Milli hennar og barnanna okkar var alveg sérstakt samband.

Það var því sárt þegar hún veiktist skyndilega af alvarlegu heilaslagi í ársbyrjun 2012. Það olli því að lífið varð aldrei eins, brostnir draumar þess sem var henni kærast í lífinu. En þrátt fyrir endurtekin áföll líkamlegra veikinda var hún alltaf jákvæð og dugleg og mikill gleðigjafi í lífi okkar. Í byrjun árs 2014 greindist svo krabbamein sem hún vissi að myndi sigra hana að lokum. Þrátt fyrir jákvæða svörun við lyfjameðferð var framundan sífellt erfiðari ferð fyrir hana sem enginn vill eða getur farið.

Það er sárt að þú sért farin og við höfum öll misst mikið. Þær verða margar stundirnar í framtíðinni sem við vitum að hefðu orðið betri ef þín hefði notið við. Allt sem við hefðum gert saman og þú með börnum okkar en verður aldrei.

Þinn tengdasonur,

Björn Logi Þórarinsson.

Ágústína Jónsdóttir, mágkona mín, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. september eftir löng og ströng veikindi. Gústa, eins og hún var alltaf kölluð, var góð og glaðvær manneskja. Nærvera hennar tryggði það að engum leiddist. Vinátta hennar var heil og sterk.

Ég kynntist henni fyrst þegar hún kom út í Akureyjar sumarið 2001, þegar þau Jói bróðir voru að kynnast. Þau fóru svo að búa á Bergþórugötunni.

Henni var strax mjög vel tekið af strákunum Jóni Einari og Birgi Þór og tók hún þeim strax eins og þeir væru hennar eigin synir. Birgir Þór flaug fljótlega úr kotinu til náms erlendis og síðan til Kanada, en Jón Einar var eftir og samband hans og Gústu var alltaf mjög gott. En það bættist einn í fjölskylduna þegar Lína kærasta Jóns Einars flutti til hans. Var henni tekið fagnandi á Bergþórugötunni ekki síst af Gústu.

Jói og Gústa giftu sig svo í Bjarnarhafnarkirkju 17. apríl 2004 og veisla var haldin í safnahúsinu hjá Hidda og Hrefnu.

Í Akureyjum undi Gústa sér vel og leið aldrei betur en þegar hún komst út í eyju með Jóa sínum, frá skarkala bæjarlífsins. Þar leið þeim líka eins og þau væru á eyðieyju. Gústa heillaðist af eyjalífinu, spenningnum þegar fór að vora og undirbúningur hófst fyrir Akureyjarferð. Oftast var farið í byrjun maí og stundum í lok apríl. Þar leið svo sumarið á grásleppuveiðum og í æðarvarpinu. Gústa var mjög liðtæk við hvort tveggja.

Í eyjunni kom Gústa sér einnig upp garði og ræktaði þar ýmsar mat- og kryddjurtir. Allt var því að mestu heimafengið, fiskur úr sjónum og meðlætið. Hún hugsaði alltaf vel um garðinn sinn hún Gústa.

Fastur liður hjá hjónunum á Bergþórugötunni var hittingur á Menningarnótt, Þorláksmessu og gamlárskvöld, þá var alltaf opið hús hjá Jóa og Gústu fyrir vini og vandamenn og dekkað borð, svið, rófustappa, flatkökur og hangikjöt, Það var talsverður undirbúningur fyrir þessi kvöld og mikið lagt í þau, enda var frábært að koma þangað inn úr kuldanum, fá hressingu og hitta ættingja og vini sem fjölmenntu þangað, enda stutt úr miðbænum þarna upp eftir.

Það var því oft glatt á hjalla á þessum kvöldum.

Allt eru þetta ljúfar og góðar minningar um frábæra manneskju, sem varð ein af fjölskyldunni.

Ég kveð þig með söknuði Gústa mín. Orð skáldsins geri ég að mínum:

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem.)

Þinn mágur,

Jón Páll Ásgeirsson.

Ágústína var alltaf kölluð Gústa af okkur vinnufélögunum og vinum. Nú hefur hún Gústa okkar kvatt þetta líf eftir erfiða baráttu við veikindi síðan í janúar 2012. Gústa var vinur vina sinna, trygglynd og góð persóna. Það var oft glatt á hjalla á Bergþórugötunni hjá Gústu og Jóa, þar voru allir jafnir og allir velkomnir, alltaf heitt á könnunni. Við heimsóttum Gústu okkar í Stykkishólmi í júlí sl., en þar var hún á sjúkrahúsi, sá dagur er ógleymanlegur, við fórum í verslunarleiðangur Gústa keypti sér gullskó, enda var það alveg í hennar anda, síðan fórum við á kaffihús og þar var nú mikið spjallað og hlegið. Þessa fallegu minningu munum við geyma.

Elsku Gústa okkar, hér kemur fallegt ljóð um eyjuna þína.

Yndislega eyjan mín,

ó, hve þú ert morgunfögur,

úðaslæðan óðum dvín,

eins og spegill hafið skín.

Yfir blessuð björgin þín

breiðir sólin geisla fögur.

Yndislega eyjan mín,

ó, hve þú ert morgunfögur.

(Sigurbjörn Sveinsson)

Við vottum fjölskyldu Gústu innilega samúð.

Takk fyrir samfylgdina, elsku besta vinkona, þín verður sárt saknað.

Þínar vinkonur Júlí og Dóra.

Júlíana og Dóra.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.