[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Brynja Björg Halldórsdóttir brynja@mbl.is Hvort sem Ísland fær aðild að fríverslunar- og fjárfestingarsamningi á milli ESB og Bandaríkjanna (TTIP) eða ekki, mun samningurinn, verði hann samþykktur, hafa áhrif á Íslandi.
Fréttaskýring

Brynja Björg Halldórsdóttir

brynja@mbl.is

Hvort sem Ísland fær aðild að fríverslunar- og fjárfestingarsamningi á milli ESB og Bandaríkjanna (TTIP) eða ekki, mun samningurinn, verði hann samþykktur, hafa áhrif á Íslandi. Þetta segir Tim Bennet, framkvæmdastjóri Trans-Atlantic Business Council (TABC), hagsmunasamtaka alþjóðafyrirtækja með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum og Evrópu. Tim hefur tekið virkan þátt í viðræðum um samninginn. Hann greindi frá gangi viðræðnanna og helstu atriðum samningsins á hádegisfundi Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins í vikunni.

Skynsamlegt að fá fleiri inn

Tim kvaðst ekki vita hvort önnur lönd fái aðgang að samningnum. Hann væri þó þeirrar skoðunar að ef markmið TTIP væri að bæta umgjörð alþjóðlegra viðskipta væri skynsamlegast að klára viðræður og fjölga svo samningsaðilum.

Hann telur að Mexikó, Tyrkland og Kanada yrðu fyrstu ríkin til að koma inn í samninginn. Þar á eftir kæmi röðin að EFTA-ríkjunum. „Þau verða þá að ákveða hvort þau vilja vera með eða ekki.“ Sér hann fyrir sér að þessi ríki komi inn í TTIP tiltölulega fljótlega.

Hvort sem Ísland undirgengst TTIP eða ekki, mun hann hafa áhrif á Ísland. „Helstu viðskiptalönd ykkar munu verða fyrir margvíslegum áhrifum, verði samningurinn samþykktur, og það kann að hafa áhrif á samkeppnishæfni ykkar.“

Að sögn Tims myndi TTIP leggja lögbundna skyldu á herðar samningsaðilum og kannski fleiri aðilum síðar um að hafa samráð um alla framtíðarþróun reglna. Þá verði þeir að taka tillit til áhrifa reglna á viðskipti yfir Atlantshafið. „Samningurinn er meira en bara fríverslunarsamningur. Megináherslurnar liggja í þróun nýrra reglna og aukinni samvinnu um regluverk. Ástæðan er sú að lagaumhverfi hefur sífellt meiri áhrif á viðskipti yfir Atlantshafið.“

Lítil og meðalstór félög græða

Hann telur TTIP geta lækkað kostnað við að koma evrópskum vörum á bandarískan markað og öfugt. „Ferlið að þróa lyf og fá það samþykkt í Bandaríkjunum getur kostað lyfjafyrirtæki um milljón dollara. Vilji fyrirtækið koma lyfinu á markað í ESB einnig, eykst kostnaðurinn um 200 þúsund dollara.“

Tim segir lítil og meðalstór fyrirtæki græða mest á TTIP en í Bandaríkjunum séu 28 milljónir slíkra fyrirtækja og 20 milljónir í ESB. „Flest þeirra hafa ekki efni á því að stunda alþjóðleg viðskipti vegna þungs regluverks. Ef TTIP gerir það að verkum að vara sem hefur verið prófuð og samþykkt einu sinni, verður einnig talin prófuð og samþykkt tvisvar, mun hann opna markaðinn.“

Tim telur niðurfellingu tolla á milli Bandaríkjanna og ESB mikið til bóta. „Tollar upp á aðeins nokkur prósent geta hindrað lítil fyrirtæki í að stunda alþjóðleg viðskipti.“

Tim segir þrjár ástæður fyrir því að ákveðið hafi verið að ráðast í gerð samningsins. Fyrst og fremst alþjóðleg fjármálakreppa, í öðru lagi samkeppni frá nýmarkaðslöndum á borð við Kína og í þriðja lagi von um að bæta samskipti efnahagsveldanna.

Mikilvægt að fá aðild

„Ég tel mikilvægt að Ísland fái, með eða án EFTA-ríkjanna, aðild að samningnum til þess að veita íslensku atvinnulífi aðgang að bandarískum mörkuðum,“ segir Sigríður Andersen, héraðsdómslögmaður og stjórnarmaður Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins.

Spurð um áhrif þess að Ísland fengi ekki aðild að TTIP, svarar Sigríður: „Þó svo að við fengjum ekki aðild að samningnum, myndi hann hafa mjög jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf að því leyti að ESB myndi viðurkenna ýmsa bandaríska staðla sem það gerir ekki í dag. Þá gæti Ísland óhikað flutt inn ýmsar vörur sem það hefur ekki getað flutt inn áður vegna skuldbindinga okkar samkvæmt EES.“

TTIP gæti þannig dregið úr neikvæðum áhrifum EES-samningsins. EES hafi lokað fyrir viss tækifæri Íslendinga til viðskipta vestanhafs og þannig dregið úr möguleikum íslensks atvinnulífs til þess að stækka til vesturs.

Hún segir frá því að Bandaríkjamenn hafi boðið EFTA-ríkjunum að taka þátt í samráðsfundum en það hafi ESB ekki gert. „Ég tel fullt tilefni fyrir EFTA-ríkin til að koma fram gagnvart ESB með formlegum hætti, til dæmis með vettvangi fyrir umræður og upplýsingar um viðræðurnar frá sjónarhóli ESB. Þannig gætu EFTA-ríkin komið að sínum sjónarmiðum.“

TTIP
» Bandaríkin og ESB semja nú um fríverslunar- og fjárfestingarsamning sín á milli. Búist er við að afstaða liggi fyrir 2016.
» Saman standa þau að 50% vergrar landsframleiðslu í heiminum og 30% allra viðskipta, auk þess sem þar búa 600 milljónir af efnuðustu neytendum heims.
» Sagt er að TTIP muni skapa 750 þúsund störf í Bandaríkjunum og 400 þúsund í ESB.