Ungur, íslenskur hagfræðingur, sem starfar í Bandaríkjunum, Gauti B. Eggertsson, birti á bloggi sínu 8. október 2009 hugleiðingar um bankahrunið.

Ungur, íslenskur hagfræðingur, sem starfar í Bandaríkjunum, Gauti B. Eggertsson, birti á bloggi sínu 8. október 2009 hugleiðingar um bankahrunið. Hann skrifaði: „Stærstu mistökin eru líklega fólgin í veðlánaviðskiptum Seðlabanka Íslands sem ollu gjaldþroti hans. Í þessum viðskiptum töpuðust um 300 milljarðar, sem jafnast á við um 1 milljón á hvert mannsbarn á Íslandi, eða um 5 milljónir á hverja þriggja barna fjölskyldu. Þessi mistök lenda beint á íslenskum skattgreiðendum.“ Kvað Gauti Seðlabankann hafa átt að taka veð í öllu innlánasafni — já, innlánasafni — viðskiptabankanna.

Gauti virtist ekki hafa skilið, að innlán í viðskiptabankana eru kröfur á þá, svo að í þeim verða ekki tekin veð. Síðar gaf Gauti þá skýringu, að þetta hefði verið innsláttarvilla hjá sér. Hann hefði haft í huga útlánasöfn bankanna. Svo einkennilega vill hins vegar til, þegar ég ætlaði að fletta þessari færslu upp á dögunum, að hún var horfin. En þótt Evrópusambandið hafi nýlega sett lög um, að Netið verði að gleyma ýmsum óþægilegum staðreyndum, eru merki um þessa færslu á nokkrum stöðum á Netinu. Netið gleymir engu.

Tal Gauta um gjaldþrot Seðlabankans er hins vegar áróðursbrella. Gjaldþrot verður, þegar aðili á ekki lengur fyrir skuldum. Hvenær átti Seðlabankinn ekki fyrir skuldum? Hið rétta í málinu er, að í ársbyrjun 2009 afhenti Seðlabankinn ríkissjóði 345 milljarða króna kröfur á viðskiptabankana. Ríkissjóður gaf á móti út 270 milljarða króna skuldabréf, en Seðlabankinn tók á sig 75 milljarða króna tap af eigin fé sínu. Þar eð þá var giskað á, að endurheimtur af kröfunum á viðskiptabankana yrðu um 90 milljarðar króna, var áætlað tap ríkissjóðs 175 milljarðar króna. Ári síðar samdist svo um, að ríkissjóður afhenti Seðlabankanum aftur kröfurnar á viðskiptabankana, og hafa þær ekki enn verið gerðar upp að fullu.

Vitanlega gegndi Seðlabankinn þeirri skyldu sinni fyrir bankahrun að veita viðskiptabönkunum fyrirgreiðslu um lausafé. Ástæðan til þess, að hann tapaði miklu af þessu fé var auðvitað bankahrunið sjálft. Ekkert slíkt hrun varð í öðrum löndum. Fyrir bankahrunið gat Seðlabankinn þó ekki annað en treyst tölum um eigið fé bankanna, sem staðfestar voru af endurskoðendum. Hefði hann sýnt einhver merki um annað, þá hefðu bankarnir samstundis fallið. Raunar sat Gauti B. Eggertsson á fundi með forsætisráðherra og fleiri áhrifamönnum 7. ágúst 2008 og sagði þá samkvæmt minnisblöðum um fundinn, sem birt voru í tengslum við Landsdómsmálið, að mjög mikils virði væri „að standa við bakið á bönkunum“. Þeirri færslu getur Gauti ekki einu sinni reynt að eyða.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is