Herdís Kristín Birgisdóttir fæddist á Húsavík 15. júlí 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Húsavík 16. október 2014. Hún var dóttir hjónanna Aðalbjargar Jónsdóttur og Birgis Steingrímssonar. Hún giftist Sigurði Hallmarssyni þann 15. september 1951. Börn þeirra eru Hallmar, kvæntur Sigríði Sigþórsdóttur, Katrín, gift Stefáni Guðmundssyni og Aðalbjörg, gift Ragnari Emilssyni. Barnabörn Herdísar eru níu talsins og barnabarnabörn fjögur. Herdís bjó lengst af á Húsavík, var virkur þátttakandi í félagslífi staðarins og áberandi í starfi Leikfélags Húsavíkur um áratugi. Síðustu ár bjó hún með manni sínum í íbúðum aldraðra, Vallholtsvegi 17.

Í móðurætt minni er ákveðinn andi eða hugmyndaheimur, sem barn skynja ég hann og nem af tali hinna fullorðnu þótt hann sé ekki færður beint í orð eða útskýrður. Arfur genginnar kynslóðar frá síðari hluta 19. aldar er sterkur, það er viljinn til hinna góðu verka og draumurinn um fagurt mannlíf. Í ættinni er áberandi forgöngumaður breyttra aldarhátta, Benedikt frá Auðnum og arfleifð hans finnur frjóan svörð í kynslóð ömmu minnar og afa. Birtingarmynd draumsins er ástundun á fagrar listir, söng, leik, íþróttir, að hefja andann yfir stritið, stæling huga og handar, að fást við það besta sem heimurinn á í listum og leik. Nú til dags er stundum hæðst að þessum anda aldamótakynslóðarinnar, hinum góða vilja og draumnum um hið fagra, en þessi andi verður ekki ofmetinn, hann lagði grunn að menningunni sem við búum að í dag.  Kaldhæðnin hefur hinsvegar engu skilað.
Svo sannarlega var ekki alltaf auðvelt að sjá drauminn rætast, heimsstyrjöld, farsóttir og berklar setja sitt mark á þessa kynslóð, líka móðurfjölskyldu mína þar sem berklar höggva á báðar hendur. En svo kemur betri tíð, stund milli stríða, árin á þriðja áratugnum eru gjöful og góð og bjartsýnin vaknar. Ömmu og afa fæðast á þessum tíma þrjú börn, eitt til viðbótar síðar og Herdís, sem er móðursystir mín, er annað barn þeirra, fæðist sumarið 1926. Hún verður augasteinn ömmu sinnar og nöfnu, Herdísar Benediktsdóttur. Þær eiga saman trúnað og Dísa sem er næm og áhrifagjörn drekkur í sig sagnaarf og ljóð við fótskör ömmu sinnar. Dísa í mínum huga var beinn og glæsilegur fulltrúi þessa hugmyndaheims sem vaknaði með ættfólki mínu á 19.öld og þegar ég frétti lát hennar, fannst mér eins og ákveðin skil hefðu átt sér stað.
Í Dísu koma listrænir hæfileikar og gott námsupplag fram, hana langar í menntaskóla en það tíðkaðist ekki.  En hún fylgir frænku sinni Guðrúnu Brunborg til Noregs í ár og vinnur annað ár í Danmörku og fer í leiklistarskóla til Lárusar Pálssonar í einn vetur. Hún á sér draum og kynslóð hennar á sér draum og hann er sá að láta loks drauma kynslóðanna á undan rætast í sér.
Dísa var hógvær, laus við alla tilgerð, minnug og ræðin og fangaði athygli með sterkri nærveru. Hún var viðkvæm og næm og heilsaði manni alltaf af slíkum hlýleika að mér fannst ég ekki hafa unnið fyrir honum. En hún var líka sterk og heilsteypt, einstaklega vel gerð manneskja og þessir eðliskostir ásamt fallegri söngrödd gerðu hana að hæfileikaríkri leikkonu, hún lék fjölmörg hlutverk á leiksviði með Leikfélagi Húsavíkur, Ásu í Pétri Gaut, Dísu í Galdra-Lofti, bara svo einhver séu nefnd, oft á móti manni sínum, Sigurði Hallmarssyni. Og þessum eðliskostum og listfengi skilaði hún til barna sinna og afkomenda, sem sum hafa lagt stund á leik og söng með framúrskarandi árangri. Skapgerð hennar var ekki byltingarkonunnar, hún braut ekki hefðir og var eins og tíðkaðist húsmóðir með stórt heimili en hafði listina í hjáverkum. En víst hefði það orðið öðruvísi í dag. Sterk réttlætiskennd, einurð og seigla skilaði henni hinsvegar ævinlega burðarhlutverki hvar sem hún fór.
Og í mínum æskuheimi var Dísa í einu af stóru hlutverkunum, mamma og pabbi og Dísa og Diddi voru aldavinir og áttu samveru heilu sumrin og einu sinni heilan vetur. Á þá vináttu virtist aldrei bera skugga og stundum var ótrúlega glatt á hjalla, ískrandi kátína þar sem farið var á kostum í sögusögn og leik. Á heimili Dísu á Álfhól á Húsavík var opið hús fyrir gesti og gangandi og enginn lykill til að húsinu. Lengi var hægt að sækja þennan heim heim, hann reis á ný í hverri heimsókn til þeirra hjóna þegar fjölskyldur og afkomendur komu saman, fullur af sögum, fjöri og kynt undir á harmonikku. En svo vinnur tíminn sitt verk, heimurinn stendur um sinn þó kvarnist úr, línurnar mást, ástvinum fækkar, við segjum af þeim sögur og bætum þeim við í huganum og samverunni, en svo koma tímamót, heimurinn hverfur nema í minningunni, það verða aðrir tímar.
Það er til mynd af Dísu og móður minni frá því að þær eru ungar. Dísa er undurfríð með sérstakt gleðiblik í augunum. Þar gat líka jafnskjótt birst annað blik sem ég kunni ekki nafnið á sem barn, en lærðist síðar að var angurværð, en það var kennd sem hún viðurkenndi að læddist auðveldlega að henni. Á síðari árum þegar systurnar hittust þrjár og fóru saman í berjamó eða ferðalög var gleðin ævinlega með þeim, þær rifjuðu upp gamla tíma og ættingja og vini, atburði og  tilstand og þá gat það auðveldlega gerst að Dísu vöknaði um augu, því það er þannig að bestu minningunum fylgir oft sárasta eftirsjáin. Og okkar nú að kenna á angurværðinni, Dísu fylgja góðar minningar, hún átti gott og langt líf fullt af gleði og góðum verkum, afrekum á sviði listar og lífs. Hafi hún þökk fyrir samfylgdina, hlýjuna og sín góðu verk.

Hermann Þórðarson