30. október 2014 | Viðskiptablað | 176 orð | 1 mynd

Strengur gæti skilað 337 milljarða hagnaði á 40 árum

Ábatinn af sæstreng ræðst af því hvernig semst um orkuverð.
Ábatinn af sæstreng ræðst af því hvernig semst um orkuverð. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hagfræðideild Landsbankans telur að sæstrengur á milli Íslands og Bretlands geti skilað hagnaði á bilinu milli 137 og 337 milljarða króna, á 40 árum.
Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands gæti orðið mjög hagkvæm framkvæmd, takist að semja við breska ríkið um fast verð á raforkunni til langs tíma, að því er fram kemur í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Bjóðist Landsvirkjun staðlaður, verðtryggður samningur um fast verð til framleiðenda endurnýjanlegrar raforku á Bretlandi, svo sem breska ríkið hefur áður boðið öðrum framleiðendum, getur hagnaður af slíkum samningi verið á bilinu 137 til 337 milljarðar króna, samkvæmt útreikningum hagfræðideildarinnar.

Breska ríkið greiðir almennt 100 pund á megavattstund fyrir vatnsafl, 145 pund fyrir jarðvarma, 95 fyrir vindorku sem virkjuð er á landi en 155 pund fyrir vindorku á hafi.

Sé gert ráð fyrir 8 ára fjárfestingartíma og að þeim tíma liðnum tæki við 15 ára samningur við Breta á verðinu 80 pund á megavattsstund og að næstu 25 árin þar á eftir héldi markaðsverð sér í 77 pundum, væri núvirði 40 ára samnings 137 milljarðar króna. Þá er miðað við 8% ávöxtunarkröfu á heildarfjármagn í innlendum fjárfestingum. Náist að semja um verðið 121 pund á megavattstund yrði núvirðið 337 milljarðar króna. brynja@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.