Með heiminn í höndum sér Fátt truflaði einbeitingu þessara stúlkna sem gerðu hinar ýmsu tilraunir.
Með heiminn í höndum sér Fátt truflaði einbeitingu þessara stúlkna sem gerðu hinar ýmsu tilraunir. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Vísindaleikur er verkefni sem hefur verið notað í leikskólanum Björtuhlíð í tíu ár.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Vísindaleikur er verkefni sem hefur verið notað í leikskólanum Björtuhlíð í tíu ár. Verkefnið er samvinnuverkefni á milli leikskólans og þeirra Hauks Arasonar dósents og Kristínar Norðdahl, lektors menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

„Við vorum ekkert sérstaklega spenntar í fyrstu, kunnum ekkert í eðlisfræði og hugsuðum því hvernig við ættum eiginlega að fara að því að kenna börnum hana. Við ákváðum þó að slá til og sjáum ekki eftir því eina mínútu og höfum lært mjög mikið af þessu sjálfar,“ segja þær Anna María og Karítas Pétursdóttir, leikskólakennarar í Björtuhlíð. Þær og Berglind Sigurðardóttir leikskólakennari hafa haft veg og vanda af Vísindaleiknum ásamt starfsfólki leikskólans. Verkefnið hefur verið kynnt víða.

Sérútbúinn kassi í verkefnið

Sérútbúinn kassi fylgir með Vísindaleiknum sem miðar að því að auka þekkingu barnsins á tilteknu efni eins og til dæmis seglum. Í gegnum leikinn læra börnin eðlisfræðihugtök eins og aðdráttarkraftur o.fl. Í kössunum er alls kyns verðlaust dót sem hægt er að nýta í verkefnið.

Skýrar leiðbeiningar fylgja hverjum kassa. Arndís Bjarnadóttir leikskólastjóri og Kristín Gunnarsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri í Björtuhlíð, benda á að einfaldar og skýrar leiðbeiningar og einstaklega mikill áhugi starfsfólks á verkefninu sé helsta ástæðan fyrir því að Vísindaleikurinn hefur gengið jafn vel og raun ber vitni.

Öll börn í leikskólanum taka þátt í verkefninu og er þeim skipt niður í hópa eftir aldri, 5-9 í hverjum þeirra. Unnið er með efnið markvisst í gegnum allt skólastarfið, t.d. með því að gera tilraunir með ljós og skugga innandyra með vasaljós að vopni og að skoða lengd skugganna sem myndast í leikskólagarðinum.

Segullinn við jörðina

Elstu börnin læra stjörnufræði, m.a. um stjörnumerkin og pláneturnar. Þau eru farin að tengja saman þá þekkingu sem þau hafa viðað að sér í gegnum vísindaleikina. „Það er segull sem heldur okkur fast við jörðina, bara öðruvísi segull,“ sagði eitt barn þegar unnið var verkefni með hnöttinn. Foreldrar eru mjög virkir að ýta undir áhuga barna sinna og hafa í því sambandi oftar en ekki sýnt þeim og sagt frá fréttum um stjörnufræði sem birtast í fjölmiðlum.

Vísindaleikur í stöðugri þróun

Verkefnið Vísindaleikur miðar að því að kveikja áhuga barna á vísindum. Samstarfsverkefnið milli leikskólans og menntavísindasviðs Háskóla Íslands hefur undið upp á sig og er í stöðugri þróun. Mikið samstarf er milli þessara tveggja menntastofnana.

Í verkefninu er unnið með námsathafnir sem frá sjónarhóli barnsins eru leikur en fela í sér tilraunir og athuganir á sviði náttúrufræða og raunvísinda.

Í leikjunum er unnið með hraða, ljós, skugga, speglun, ljós og liti og ljós í gegnum efni. Þá hafa verið þróaðir vísindaleikir um segul og rafmagn og fyrir tveimur árum bættust við leikir um stjörnufræði í samstarfi við Sverri Guðmundsson stjörnufræðing.