21. nóvember 2014 | Minningargreinar | 2923 orð | 1 mynd

Reynir Gísli Karlsson

Reynir Gísli Karlsson fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1934. Hann lést á Landakotsspítala 12. nóvember 2014.

Foreldrar hans voru Ásta Þorkelsdóttir húsmóðir, f. 27.12. 1908, d. 7. nóvember 1996, og Karl G. Gíslason verkstjóri, f. 15.11. 1909, d. 16. 8. 1963. Reynir ólst upp hjá Ástu móður sinni og Hilberti Jóni Björnssyni fósturföður sínum. Systkini sammæðra eru Þorbjörg Hilbertsdóttir, f. 13.4. 1939, og Sævar Hilbertsson, f. 27.5. 1946.

Reynir kvæntist 25.5. 1960 Svanfríði Maríu Guðjónsdóttur grunnskólakennara, f. 30.12. 1940. Foreldrar hennar voru María Rebekka Sigfúsdóttir húsmóðir, f. 21.8. 1922, d. 18.4. 1986, og Guðjón Halldórsson skipstjóri, fæddur 18.8. 1917, d. 2.10. 1991. Börn Reynis og Svanfríðar: 1) Ásta María, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, f. 23.2. 1962. Hennar maki var Pétur Á. Rafnsson, f. 13.5. 1962, þau skildu. Börn þeirra eru Reynir Gísli, f. 23.11. 1991, d. 21.10. 1992, Svanfríður Birna, f. 21.4. 1993, og Kolfinna, f. 5.3. 1996, d. 16.10. 2000. 2) Guðjón, forstjóri Hamleys í London, fæddur 13.11. 1963. Maki hans er Lilja Birna Arnórsdóttir, f. 24.3. 1967. Börn þeirra eru Helena, f. 2.6. 1992, Arnór Örn, f. 6.9. 1994, og Kristján Karl, f. 14.4. 2002.

Reynir lauk stúdentsprófi frá MR 1954, kennaraprófi frá KÍ 1955 og cand. phil.-prófi frá HÍ 1955. Íþróttakennaraprófi lauk hann frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1956 og íþróttakennara- og knattspyrnuþjálfaraprófi frá Íþróttaháskólanum í Köln árið 1960. Reynir kenndi við Austurbæjarskóla 1956-1957 og síðan Vogaskóla 1960-1964 ásamt stundakennslu við Álftamýrarskóla, Kennaraskóla Íslands og Íþróttakennaraskóla Íslands. Starfaði sem framkvæmdastjóri æskulýðsráðs Reykjavíkur 1964-1971 og sem æskulýðsfulltrúi í menntamálaráðuneytinu 1971-1981. Árið 1981 var hann ráðinn í stöðu íþróttafulltrúa og deildarstjóra í íþrótta- og æskulýðsdeild menntamálaráðuneytisins sem hann gegndi til ársins 2003. Á árabilinu 1954-197 þjálfaði hann meistaraflokka Fram, ÍBA, ÍBK og Breiðabliks og landsliðið í knattspyrnu karla. Hann sat í stjórn Knattspyrnufélagsins Fram 1952- 1953 og 1962-1963. Formaður UMF Breiðabliks í Kópavogi 1976-1978. Var í stjórn Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands og sat sem fulltrúi þess í Evrópska knattspyrnuþjálfarafélaginu UEF. Hann tók virkan þátt í félags- og íþróttastarfi og var stjórnarmaður í félögum, átti sæti í stjórnum og nefndum héraðssambanda, sérsambanda og heildarsamtaka ÍSÍ og UMFÍ. Hann sat í framkvæmdastjórn íþróttanefndar Evrópuráðsins og starfaði lengi á þeim vettvangi. Í skólanefnd Íþróttakennaraskóla Íslands. Í stjórn Íþróttamiðstöðvar Íslands og Íslenskra getrauna. Reynir hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu íþróttahreyfingarinnar, m.a. var hann gerður heiðursfélagi ÍSÍ.

Útför Reynis fer fram í dag, 21. nóvember 2014, í Digraneskirkju og hefst hún kl. 15.

Reynir Gísli Karlsson, bróðir minn, er látinn. Við vorum sammæðra og ólumst upp saman. Minningabrot um hann hafa hrannast upp í huga mínum undanfarið og langar mig nú að festa örfá á blað.

Reynir var að komast á táningsaldur þegar ég fæddist. Bernskuminningar mínar um hann eru allar mjög ljúfar. Óvitinn ég gerði honum samt ýmsar skráveifur. Ég rak leikfangabifreið í höfuð hans svo að hann vankaðist og ég bakaði drullukökur úr einhverjum dýrindis guðaveigum sem hann og Ólafur Haraldur Óskarsson, frændi okkar, voru að pukrast með en mér var strax fyrirgefið eins og alltaf.

Reynir var alltaf tilbúinn til að styðja mig þegar á bjátaði. Þegar hann var í námi sínu í Köln árið 1959 ferðaðist hann til Kaupmannahafnar til að vera mér til halds og trausts á meðan ég var þar í læknisrannsókn. Sjálfsagt hefur þetta eitthvað tafið hann í námi en hann taldi ferðalagið ekki eftir sér.

Sem yngri bróðir leit ég alltaf upp til Reynis og hafði hann sem fyrirmynd t.d. þegar ég ákvað skólagöngu mína. Reynir gekk í Menntaskólann í Reykjavík og ég mátti ekki vera minni maður. Á meðan ég var þar við nám miðlaði hann mér oft af reynslu sinni og hvatti mig til dáða.

Þegar Reynir var nýkominn frá námi í Þýskalandi sá ég hann á götu þar sem hann leiddi Svanfríði Maríu, verðandi eiginkonu sína. Það fór ekki á milli mála að þar gekk mjög hamingjusamur maður. Mér eru líka ógleymanlegar þær stundir þegar hann tilkynnti mér fæðingu dóttur sinnar og síðar sonar því að þá geislaði hann af hamingju.

Reynir var mjög félagslyndur og átti auðvelt með að blanda geði við fólk. Ég kann ekki að nefna öll þau félög, ráð og nefndir sem hann var viðriðinn en minnist bara á fjölskylduklúbbinn Vegmóð þar sem hann var alltaf hrókur alls fagnaðar.

Væntumþykja Reynis til eiginkonu og fjölskyldu var augljós. Hann leitaðist við að skapa gott heimili og brýna fyrir þeim góð lífsgildi. Missir þeirra er mikill og ég bið því góðan Guð að styrkja þau öll í sorginni.

Sævar Hilbertsson.

Elsku afi minn. Nú er kominn tími til að kveðja þig þó að það sé sárt. Þú varst einn yndislegasti maður sem ég hef kynnst og ég er mjög þakklát fyrir tímana sem við áttum saman. Mér finnst ég vera svo heppin að hafa átt svona góðan afa eins og þig. Þú varst vinmargur og vildir öllum vel.

Ég bið að heilsa Kolfinnu og Reyni Gísla, nafna þínum, og einn daginn verðum við öll saman aftur.

Ég elska þig og sakna þín, afi minn.

Þú varst ljós á villuvegi,

viti á minni leið,

þú varst skin á dökkum degi,

dagleið þín var greið.

Þú barst tryggð í traustri hendi,

tárin straukst af kinn.

Þér ég mínar þakkir sendi,

þú varst afi minn.

(Hákon Aðalsteinsson)

Svanfríður Birna

Pétursdóttir.

Þegar kær frændi og vinur kveður þennan heim hrannast upp ljúfar minningar og þakklæti fyrir að hafa fengið að vera samferða honum frá bernsku og öll fullorðinsárin til dauðadags.

Fyrsta minningin er þegar Reynir bjó hjá okkur í nokkra daga með móður sinni „Ástu frænku“, föðursystur minni, sem var ætíð mér svo kær. Hún var í íbúðar- og atvinnuleit, nýkomin úr vist utan af landi. Reynir var á fyrsta ári, fallegur og síbrosandi og ég lá á hnjánum við rúmið hans og dáðist að honum. Bróðir minn, sem var ári eldri en Reynir, varð hálfleiður þegar ég sýndi þessum frænda okkar svona mikla athygli. Þeir áttu þó eftir að verða óaðskiljanlegir vinir alla tíð.

Næsta minningin er þegar þau áttu heima á Laugaveginum. Ásta vann fyrir þeim með því að hnýta net fyrir útgerð hér í bæ. Hún tók verkefnið heim svo hún gæti haft drenginn sinn hjá sér enda mikill kærleikur milli þeirra alla tíð. Hún treysti mér fyrir gullmola sínum og ég fékk að gæta hans úti við húsið svo hann skytist ekki út á Laugaveginn, þá miklu umferðargötu.

Sumrin tvö sem við vorum saman í Viðey eru mér hjartfólgin. Þar var alltaf sólskin í minningunni. Ásta dvaldi þar með Reyni þegar hún gat leyft sér að taka smáfrí. Þau vöktu athygli því að bæði voru þau svo falleg og í fallegustu strandfötunum. Þau hafði Ásta saumað í tilefni verunnar á eynni. Þarna lékum við okkur í fjörunni og busluðum í sjónum alla daga. Í Viðey kynntist Ásta eiginmanni sínum, Hilberti, sem reyndist Reyni hinn besti faðir. Mikill samgangur var milli heimila okkar og á nær hverjum degi hittumst við. Einhver minnisstæðustu gamlárskvöldin áttum við með Reyni og fjölskyldu þegar þau komu til okkar í súkkulaði og smákökur þegar áramótin sjálf nálguðust. Karlarnir fóru að kveikja á blysum, stjörnuljósum og bombunum sem Hilli kom með. Á unglingsárunum fylgdumst við hvert með öðru í smáfjarlægð enda fórum við hvert í sína áttina en ætíð voru þeir saman bróðir minn og hann.

Vegmóður, gönguklúbburinn sem við systkinabörnin stofnuðum 1968, tengdi okkur aftur sterkum böndum. Við hittumst vikulega yfir veturinn og gengum um næsta umhverfi borgarinnar. Við vöktum mikla athygli enda með merktar húfur á höfði. Þá var ekki komið í tísku að hópar tækju sig saman til göngu.

Reynir og Svana byggðu sér sumarbústað í Þingvallasveit í næsta landi við bústað sem pabbi byggði. Þar áttum við margar glaðar og góðar stundir með fjölskyldu hans.

Margs er að minnast, kæri frændi minn, og er mikill söknuður í brjósti mínu. Ég minnist þín í þeirri vissu um að þú þjáist ekki meir og sért hjá ástvinum og vinum þínum, sem taka á móti þér með opinn faðm. Ég færi Svönu, Ástu, Guðjóni og fjölskyldum, ásamt systkinum Reynis, Obbu og Sævari, innilegar samúðarkveðjur mínar.

Signý Óskarsdóttir.

„Lítillátur, ljúfur og kátur“ úr ranni sr. Hallgríms Péturssonar er viðeigandi lýsing á Reyni frænda. Það er líka viðeigandi að nota orð sérans, því báðir erum við afkomendur hans; Reynir þó aðeins nær honum en ég.

Afburðagóð kímnigáfa var sérstakur eiginleiki Reynis. Aldrei hitti ég hann öðruvísi en með hið minnsta annað munnvikið í brosvipru. Það var alveg sérstakt að heyra hann segja af fyndnum atburðum. Þá hóf hann frásögnina rólega en mjög fljótlega fór dillandi hlátur að gera vart við sig, sem smám saman náði yfirhöndinni og hann hló sig í gegnum endinn. Það var svo smitandi að það var ekki hægt annað en að byrja að hlæja áður en hann kláraði frásögnina. Yfirleitt þurfti hann svo að þerra gleðitár af hvarmi.

Reynir var ávallt góður við okkur litlu frændur og frænkur og nálgaðist okkur sem jafningja í samræðum. Hann var alltaf til í að hlæja að misskemmtilegum bröndurum okkar og taka þátt í glensi og fjöri. Vegmóðsþorrablótið í Húnabúð um miðjan áttunda áratuginn er ógleymanlegt og þar lék Reynir að sjálfsögðu stórt hlutverk ásamt æskuvini sínum, Bóa móðurbróður. Samspil þeirra vina þegar þeir voru komnir í farflugshæð var ávísun á harðsperrur á þindarsvæðinu. Jafnvel eftir að veikindi tóku mikinn toll af frænda og hann rak í vörðurnar í samtölum, þá brást hann við með brosi og hlátri.

Það hefur alltaf verið gott að sækja þau hjónin heim og margir hafa hittingarnir orðið austur í bústað, undirbúnir jafnt sem óvæntir. Það er sjónarsviptir að Reyni og hans verður sárt saknað. Ég færi fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Karl Óskar Þráinsson.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Við fráfall Reynis Karlssonar sér Fram á bak góðum og traustum félaga. Reynir, sem ólst upp á Njálsgötunni, við Frakkastíg, hóf ungur að leika knattspyrnu og handknattleik með Fram og lék fjölmörg ár með meistaraflokki í knattspyrnu. Reynir lék þrjá landsleiki – fyrst gegn Finnum í Helsinki 1956 og síðan HM-leiki gegn Belgum og Frökkum á Laugardalsvellinum 1957.

Reynir, sem lék á línunni í handknattleik, varð Íslandsmeistari utanhúss með meistaraflokki 1954. Hann var virkur félagsmaður innan leikvallar sem utan. Var þjálfari Fram í knattspyrnu 1957, 1959, 1960 og 1961. Þjálfaði einnig ÍBA, Keflavík og Breiðablik, auk þess að vera landsliðsþjálfari 1967.

Reynir lauk þriggja ára námi frá Íþróttaháskólanum í Köln 1960. Samhliða því lauk hann námi í knattspyrnuþjálfaraskóla tengdum skólanum í Köln, einn af örfáum Norðurlandabúum sem það hafa gert.

Reynir fór á fjölmargar þjálfararáðstefnur víðs vegar um Evrópu í gegnum tíðina – til að víkka sjóndeildarhringinn. Þá fór hann í tíu daga ferð til enska liðsins West Ham í byrjun árs 1967 til að kynna sér æfingar og uppbyggingu liðsins undir stjórn Rons Greenwoods knattspyrnustjóra. Þar kynntist hann þremur heimsmeisturum; Bobby Moore, Geoff Hurst og Martin Peters. Reynir, sem ræddi oft um dvöl sína í London, sagðist hafa öðlast dýrmæta reynslu þar.

Reynir fylgdist ávallt með sínu gamla félagi og það var alltaf hægt að leita ráða hjá honum.

Knattspyrnufélagið Fram kveður heiðursmanninn Reyni Karlsson með hlýju. Eiginkonu hans Svanfríði Guðjónsdóttur og fjölskyldu eru sendar hugheilar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Fram,

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Góður félagi okkar, Reynir G. Karlsson, er fallinn frá. Í meira en þrjátíu ár starfaði hann sem íþróttafulltrúi ríkisins og síðar, þegar slíkar stöður voru lagðar niður, sem deildarstjóri í íþrótta- og æskulýðsdeild menntamálaráðuneytisins. Í starfinu tók hann virkan þátt í að móta framtíðarskipan íþróttamála. Á þessum árum tóku meðal annars gildi ný íþróttalög árið 1998 og Íþróttasamband Íslands og ólympíunefndin sameinuðust í Íþrótta- og ólympíusamband Íslands. Hluti af starfsskyldum Reynis var að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, bæði á norrænum vettvangi sem og á vegum Evrópuráðsins í Strassborg. Evrópuráðið er helsti vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar Evrópuríkja í ýmsum málaflokkum, meðal annars íþróttum.

Við sem störfuðum með Reyni um árabil kynntumst honum sem yndislegum samstarfsfélaga og reynslubolta. Hann var jákvæður og brosmildur og ávallt reiðubúinn að miðla af reynslu sinni og þekkingu. Fyrir okkur yngri kynslóðina sem var að feta sín fyrstu spor innan stjórnsýslunnar var mikils virði að njóta leiðsagnar hans.

Eftir að Reynir lét af störfum í ráðuneytinu árið 2002 hélt hann góðum tengslum við okkur og mætti árlega í jólakaffi skrifstofunnar og tók þátt í gleðinni þar. Þá hélt hann góðu sambandi við aðra sem hann hafði starfað með. Erlendir samstarfsmenn minnast hans með þakklæti og hlýhug. Um leið og Reyni er þökkuð samfylgdin færum við Ástu Maríu dóttur hans og samstarfskonu í ráðuneytinu og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Reynis G. Karlssonar. Megi hið eilífa ljós lýsa honum.

Fyrir hönd samstarfsfélaga á skrifstofu menningarmála,

Karitas H. Gunnarsdóttir

Mikil gróska var í starfi meistaraflokks Fylkis í knattspyrnu fyrir tæpum 30 árum. Á þeim tíma var hjá félaginu samstilltur en fremur fámennur hópur leikmanna. Á tiltölulega skömmum tíma stækkaði hópurinn og efldist, m.a. með tilkomu leikmanna úr öðrum félögum. Með nýjum leikmönnum fylgdu einnig nýir stuðningsmenn og einn þeirra var Reynir Karlsson. Okkur félagana grunaði, allra fyrst eftir að Gaui hóf að spila með Fylki, að Reynir væri nú fyrst og síðast að fylgjast með sínum dreng en við fundum fljótlega að enn meira bjó að baki þar sem vel var fylgst með öllu sem fram fór og sérstaklega hvort liðið væri að spila sem ein heild.

Reyni sem og Svanfríði, sem ávallt var skammt undan, fylgdu hvorki hávaði né læti heldur ákveðinn og afgerandi stuðningur við Fylki á þessum árum. Fyrir það þökkum við um leið og við sendum fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Anton, Brynjar, Gísli, Gústaf, Haraldur, Ingi, Jón Bjarni, Loftur, Orri, Ólafur, Pétur, Valur og Þorsteinn.

Knattspyrnusamband Íslands kveður með hlýhug góðan félaga sem á svo margan hátt setti svip sinn á íslenska knattspyrnu í áratugi. Reynir var leikmaður og þjálfari en síðar mikill stuðningsmaður knattspyrnunnar í orði og verki sem íþróttafulltrúi ríkisins.

Þáttur Reynis í uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu er stór. Reynir tók sæti í fyrstu tækninefnd KSÍ og sat þar í mörg ár ásamt Karli Guðmundssyni og Óla B. Jónssyni. Komu þeir á fót þjálfaramiðstöð í íþróttasal Austurbæjarskólans. Var það nýmæli hjá KSÍ. Þjálfunarmiðstöðin var afar vinsæl og einnig voru haldin þar ýmis þjálfaranámskeið. Reynir var afar virkur í tengslum við þjálfun og þeir Karl ferðuðust víða um land til að leggja á ráðin og þá sérstaklega um úthaldsþjálfun og uppbyggingu leikmanna fyrir keppnistímabil.

Reynir hóf ungur að leika knattspyrnu með Fram og lék fjölmörg ár með meistaraflokki. Hann lék þrjá landsleiki, fyrst gegn Finnum í Helsinki 1956 og þá tvo leiki á Laugardalsvellinum 1957, gegn Frökkum og Belgíumönnum í undankeppni HM 1958 í Svíþjóð. Reynir lauk prófi frá Íþróttaháskólanum í Köln 1960 eftir þriggja ára nám. Reynir þjálfaði meðal annars Fram í efstu deild 1957, 1959, 1960 og 1961, ÍBA 1962 og 1963, Keflavík 1966 og 1968. Þá þjálfaði hann Breiðablik um tíma í 2. deild. Einnig var hann landsliðsþjálfari 1967. Þess má geta til gamans að Reynir fékk atvinnutilboð frá Gana um að gerast landsliðsþjálfari þar er hann var að ljúka námi í Köln 1960. Reynir hafnaði því, þar sem hann var á heimleið, hann og unnusta hans, Svanfríður Guðjónsdóttir, höfðu ákveðið að gifta sig. Svanfríður varð síðar fyrst kvenna til að taka sæti í aðalstjórn KSÍ 1984 og var þá talið að hún væri fyrsta konan í heiminum til að taka sæti í stjórn knattspyrnusambands. Knattspyrnuhreyfingin sendir Svanfríði og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur um leið og hún kveður félaga sem lagði sitt af mörkum til að efla íslenska knattspyrnu.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.

Kveðja frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands

Í dag kveðjum við Reyni G. Karlsson, fyrrverandi íþróttafulltrúa ríksins, mikið ljúfmenni sem alla tíð vann ötullega að málum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi sem og æskulýðsstarfi almennt. Reynir starfaði lengi sem íþróttafulltrúi ríkisins en átti einnig farsælan feril í hinu frjálsa íþróttastarfi sem iðkandi, þjálfari, stjórnarmaður í félögum og nefndum hjá íþróttahéruðum, sérsamböndum og ÍSÍ.

Reynir sat einnig í fjölmörgum nefndum og stjórnum á alþjóðavettvangi. Meðal annars var hann í framkvæmdastjórn íþróttanefndar Evrópuráðsins um tíma og átti þar, svo dæmi sé nefnt, frumkvæði að því að koma á Evrópusáttmála um íþróttir innan Evrópuráðsins.

Reynir hlaut öll æðstu heiðursmerki ÍSÍ og var kjörinn heiðursfélagi ÍSÍ á Íþróttaþingi árið 2004 en sú viðurkenning er æðsta viðurkenning íþróttahreyfingarinnar. Reynir hafði einlægan áhuga á íþróttum og starfi íþróttahreyfingarinnar og var ötull að mæta til þeirra viðburða sem ÍSÍ boðaði hann til. Hann kom einnig reglulega í heimsókn í höfuðstöðvar ÍSÍ á meðan heilsan leyfði, til að halda tengslum.

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands þakkar Reyni hans framlag í þágu íþrótta á Íslandi og sendir fjölskyldu hans og aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.

Lárus L. Blöndal,

forseti ÍSÍ,

Líney Rut Halldórsdóttir,

framkvæmdastjóri ÍSÍ.

Kveðja frá Breiðabliki

Fallinn er frá Reynir Gísli Karlsson, fyrrverandi íþróttafulltrúi ríkisins. Reynir er mörgum Breiðabliksmanninum kunnur enda gríðarlega duglegur í starfsemi Breiðabliks. Hann var formaður aðalstjórnar Breiðabliks á árunum 1975-1977. Reynir og kona hans Svanfríður voru samhent í sínum áhuga og dugnaði við að gera veg knattspyrnudeildar Breiðabliks sem mestan og bestan. Ekki síst kvennaknattspyrnuna. Börn þeirra hjóna Ásta og Guðjón léku knattspyrnu með Breiðabliki. Reynir var reyndar Framari að upplagi og spilaði með þeim og einnig landsliðinu. Samferðamenn Reynis segja að hann hafi á stuttum tíma orðið jafnmikill Bliki og hann var Framari. Reynir þjálfaði meistaraflokk karla eitt tímabil og hann hefði örugglega viljað hafa þau fleiri en hafði ekki tök á því vegna annarra starfa. Reynir var duglegur að koma á völlinn síðustu ár og erfiðast þótti honum að horfa á Breiðablik og Fram spila því að hjarta hans sló með báðum liðum. Auðvelt var að sækja aðstoð og greiða til Reynis og hugsa menn til þess með hlýju og þakklæti. Reynir var gerður að heiðursblika árið 2011. Breiðablik sendir aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

Hannes Strange,

formaður Breiðabliks.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.