[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Reikningsskil“ sem þessi eru auðvitað mjög ólík hefðbundnum fjárhagslegum reikningsskilum.

Það ratar ekki oft í fréttir þegar Evrópusambandið sendir frá sér tilskipanir enda meira en daglegt brauð á þeim bæ. Þessar tilskipanir hafa misvíðtæk áhrif en þær tilskipanir er snerta innri markaðinn rata að lokum inn í íslenska löggjöf vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu.

Um miðjan nóvember birtist til dæmis tilskipun í stjórnartíðindum ESB (Official Journal) um ófjárhagsleg reikningsskil (non-financial reporting) sem samþykkt hafði verið í ráðherraráðinu í september. Tilskipunin felur í sér breytingu á annars vegar tilskipun 78/660/EBE um ársreikninga og hins vegar tilskipun 83/349/EBE um samstæðureikninga. Með þessari breytingu er fyrirtækjum yfir ákveðinni stærð gert að gera grein fyrir þáttum í starfseminni öðrum en fjárhagslegum.

„Reikningsskil“ sem þessi eru auðvitað mjög ólík hefðbundnum fjárhagslegum reikningsskilum og lúta allt öðrum lögmálum. Þau eru matskenndari og fyrirtækjum og stofnunum er nokkurn veginn í sjálfsvald sett hverju þau kjósa að greina frá. Vissulega eru þó til viðmið og er hægt að styðjast t.d. við þau viðmið sem sett eru í Global Compact-sáttmála Sameinuðu þjóðanna eða til dæmis aðferðafræði sem þróuð hefur verið á vettvangi Global Reporting Initiative (GRI). Jafnframt geta þau fyrirtæki sem eru vön að nota ISO-staðla í starfsemi sinni stuðst við þá leiðsögn er felst í ISO 26000 um samfélagsábyrgð, sem nýlega var þýddur á íslensku.

Markmiðið með þessu öllu er að auka gagnsæi í rekstri og að hagsmunaaðilar geri sér grein fyrir áhrifum af starfsemi fyrirtækja. Oft er talað um þrefaldan ávinning af því að skoða starfsemi fyrirtækja einnig út frá umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum víddum.

Skýrslugerð sem þessi er í sjálfu sér ekkert nýmæli. Flest stærstu fyrirtæki heims hafa um árabil gefið út svokallaðar samfélagsskýrslur (sustainability reports) þar sem gerð er grein fyrir þáttum á borð við umhverfisáhrif starfseminnar, margvísleg samfélagsleg og efnahagsleg áhrif og stöðu jafnréttismála. Nokkur íslensk fyrirtæki hafa gefið út slíkar skýrslur síðustu árin og yfirleitt stuðst annaðhvort við Global Compact eða GRI.

Áður hafa nokkur ríki tekið upp slíkar reglur sjálf og má þar nefna Danmörku, Svíþjóð og Frakkland. Ekki er um eiginlega kvöð að ræða heldur stuðst við viðmiðið „report or explain“, þ.e. þau fyrirtæki og stofnanir sem kjósa að birta ekki sérstakar skýrslur þurfa að greina frá því opinberlega hvers vegna þau kjósa að gera það ekki.

Raunar var kveðið á um í þingsályktun um græna hagkerfið, sem samþykkt var á Alþingi árið 2012, að allar stofnanir ráðuneyta og öll fyrirtæki í eigu ríkisins birti ársskýrslur í samræmi við leiðbeiningar Global Reporting Initiative.

Það er langt í frá óumdeilt að leggja þá kvöð á fyrirtæki og stofnanir að gefa út skýrslur sem þessar og sú tilskipun sem nú hefur tekið gildi er búin að velkjast um í Evrópukerfinu árum saman og hefur tekið margvíslegum breytingum á leiðinni.

Engu að síður ber allt að sama brunni. Alþjóðlega eru gerðar vaxandi kröfur um að fyrirtæki sýni ekki einungis fjárhagslega ábyrgð í rekstri sínum heldur ekki síður ábyrgð á þeim sviðum er lúta að umhverfi og samfélagi, það sem á Íslandi hefur verið nefnt samfélagsábyrgð fyrirtækja. Kröfur á hendur fyrirtækjum, ekki síst stærri og skráðum fyrirtækjum, fara vaxandi og stjórnendur – líka á Íslandi – verða að takast á við þá áskorun og jafnframt reyna að koma auga á þau tækifæri sem felast í því að innleiða heildstæða stefnu í samfélagsábyrgð. Mikilvægt er að horfa á skýrslugerðina sem ferli þar sem skýrslan sjálf er einungis ein af afurðunum. Stefnumótunin og markmiðasetningin í tengslum við vinnuna skipta mestu máli og þær mælingar sem vinnan leiðir af sér geta verið mikilvægt stjórntæki, t.d. í áhættustýringu.