Hlédís Sveinsdóttir segir verðlaunin hafa mikla þýðingu fyrir EON arkitekta og íslenska arkitekta almennt.
Hlédís Sveinsdóttir segir verðlaunin hafa mikla þýðingu fyrir EON arkitekta og íslenska arkitekta almennt. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EON arkitektar, stofa Hlédísar Sveinsdóttur, bar sigur úr býtum í tveimur flokkum þegar hið virta hönnunartímarit Interior Design úthlutaði verðlaunum fyrir framúrskarandi verk á árinu 2014 í New York á dögunum.

EON arkitektar, stofa Hlédísar Sveinsdóttur, bar sigur úr býtum í tveimur flokkum þegar hið virta hönnunartímarit Interior Design úthlutaði verðlaunum fyrir framúrskarandi verk á árinu 2014 í New York á dögunum. Annars vegar sigraði EON í flokki stærri einbýlishúsa, fyrir Hús formanna við Elliðavatn, sem er í eigu Kára Stefánssonar, og hins vegar í flokki safna/gallería fyrir Heklusetur. Síðarnefndu verðlaununum deildi EON með arkitektunum sem hönnuðu 9/11-safnið á Manhattan. Verðlaunin eru veitt fyrir fullbyggð verk en EON sá um hönnun bygginganna, að utan sem innan, ásamt lóða- og landslagshönnun. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Þ egar Hlédís Sveinsdóttir sá að stofa hennar, EON arkitektar, væri tilnefnd til verðlauna fyrir byggingaarkitektúr hönnunartímaritsins Interior Design í flokknum söfn/gallerí ásamt 9/11 National Memorial-safninu á Ground Zero á Manhattan, minnisvarða um árásina hræðilegu 11. september 2001, gerði hún sér ekki miklar vonir um að fara með sigur af hólmi. 9/11 hlyti að vinna, bæði væri safnið stórfenglegt að allri gerð, auk þess sem það hefði gríðarlegt tilfinningalegt gildi fyrir bandarísku þjóðina. Það kom líka á daginn, 9/11 vann, og klappaði Hlédís arkitektunum lof í lófa ásamt tvö þúsund öðrum hátíðargestum í IAC-byggingu Franks Gehrys í New York fyrr í mánuðinum.

En sagan var ekki öll sögð. Eftir að hafa lokið lofsorði á 9/11 tilkynnti kynnir kvöldsins að safnið deildi fyrstu verðlaunum með öðru safni – Heklusetri uppi á Íslandi. Sköpunarverki EON. Hún átti varla orð. „Þetta er mikill heiður og við erum virkilega hrærð yfir því að hafa verið sett við hliðina á 9/11-safninu. Það var mjög skemmtilegt jafnvægi í þessu. Þetta risastóra safn á Manhattan við hliðina á þessu litla þjóðlega eldfjallasafni á Íslandi,“ segir Hlédís.

Unnu líka í flokki stórra einbýlishúsa

EON arkitektar létu ekki þar við sitja á hátíðinni, stofan bar einnig sigur úr býtum í flokki stórra einbýlishúsa. Fyrir Hús formanna (House of Shapes) í Fagraþingi 5 við Elliðavatn. Húsið er í eigu Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Þeim verðlaunum deildi EON ekki með öðrum.

Interior Design-verðlaunin njóta mikillar virðingar í hönnunargeiranum. Keppnin hefur verið haldin níu sinnum og eru valin verk úr þúsundum verkefna sem skoðuð eru. Að þessu sinni voru verkefnin yfir tvö þúsund. Á hverju ári eru tilnefnd eða valin fjögur til fimm verkefni í úrslit í ýmsum flokkum hönnunar og bygginga, innanhúss og utan.

Höfundar verðlaunaverkefna eru heiðraðir á verðlaunaafhendingu á Manhattan í byrjun desember á hverju ári. Verðlaunahafar eru í forgrunni á hátíðinni, verkefnin sérstaklega kynnt og fá heiðursumfjöllun í janúarhefti Interior Design og öðrum fjölmiðlum.

Fjölgar í Frægðarhöllinni

Samhliða ID-verðlaununum voru þrír arkitektar limaðir inn í Frægðarhöll arkitektúrsins, Hall of Fame. Til þess vegsauka var stofnað 1985 af Interior Design og hefur fjölgað árlega í hópnum síðan. Hall of Fame heiðrar þá arkitekta og hönnuði sem þykja framúrskarandi og hafa lagt sitt af mörkum til að efla hönnunar- og arkitektageirann. Margir þekktustu arkitektar og hönnuðir samtímans hafa verið heiðraðir, svo sem Antonio Citterio, Clodagh, Thierry W. Despont, Frank Gehry, Albert Hadley, Andree Putman, David Rockwell, Lauren Rottet, Philippe Starck og Robert A.M. Stern.

EON arkitektar sendu Hús formanna og Heklusetur inn í keppnina fyrr á þessu ári að undirlagi ljósmyndarans Arts Grays, sem kom hingað í sumar til að taka myndir af Húsi formanna og Heklusetri. „Hann hvatti okkur eindregið til að taka þátt í keppninni og það borgaði sig greinilega,“ segir Hlédís.

Hún segir verðlaunin mikla hvatningu og hafa ótvíræða þýðingu fyrir EON arkitekta. Ísland sé afskekkt land og langt frá hringiðu arkitektúrs og hönnunar í heiminum. Þess vegna sé kærkomið að kastljósið beinist að íslenskum arkitektúr með þessum hætti. Tvö þúsund manns sóttu viðburðina í tilefni verðlaunaveitingarinnar, athöfnina sjálfa og galamálsverð á Waldorf Astoria-hótelinu í framhaldinu, og allt fékk það fólk að kynnast verkum EON arkitekta. Hún segir fjölmarga hafa komið sérstaklega til þeirra í því skyni að óska þeim til hamingju og fræðast nánar um verkin en með henni ytra var Gunnar Árnason, framkvæmdastjóri EON.

Dyr hafa opnast

„Dyr hafa opnast. Það er alveg greinilegt. Við fundum að verkin okkar vöktu athygli á hátíðinni, auk þess sem við vorum kynnt fyrir fjölmörgu fólki í faginu,“ segir Hlédís. „Stofan okkar er orðin þekktara nafn en hún var og búið að sýna fjölmörgu málsmetandi fólki í faginu verkin okkar. Nú er það bara undir okkur komið að vinna úr þessu.“

Hlédís segir þreifingar um samstarf þegar hafnar, bæði við arkitekta í Evrópu og Bandaríkjunum. Of snemmt sé þó að segja til um hvað komi út úr því. „Við erum opin fyrir öllu.“

Hlédís lítur ekki síður á verðlaunin sem viðurkenningu fyrir Ísland en auk EON voru arkitektahjónin Erla Dögg Ingjaldsdóttir og Tryggvi Þorsteinsson, sem starfa í Los Angeles, tilnefnd og hlutu verðlaun í flokknum „græn hús“, fyrir sumarhús á Íslandi. „Það segir manni að íslenskir arkitektar eru að gera góða hluti sem fyllir mann auðvitað stolti.“

Nokkuð er síðan EON arkitektar settu ljósmyndir af Húsi formanna inn á heimasíðu stofunnar. Að sögn Hlédísar hafa viðbrögð verið töluverð, bæði jákvæð og neikvæð. „Það er greinilegt að margir hafa skoðun á þessu húsi, það hefur vakið umræðu og tilfinningar hjá fólki. Það er svo sem ekkert skrýtið þegar um svona óhefðbundið verk er að ræða.“

Spurð hvort hún taki neikvæðar athugasemdir nærri sér kveðst Hlédís hafa verið undir þær búin. „Það kallar oftar en ekki á viðbrögð þegar maður fer út fyrir rammann. Því verður maður að una. Ég fylgist auðvitað með umræðunni og reyni að læra af henni.“

Sér ekki eftir að hafa komið heim

Hlédís útskrifaðist með meistaragráðu í arkitektúr árið 1993 frá University of California (UCLA). Hún flutti heim og stofnaði EON arkitekta fyrir fimmtán árum eftir að hafa starfað í Bandaríkjunum, Rússlandi og Sviss. „Ég sé ekki eftir að hafa komið heim, útgangspunkturinn er og verður að starfa hér. Það breytir ekki því að ég hef mikinn áhuga á því að fara í alþjóðlegt samstarf í framtíðinni og hef stefnt að því lengi. Það er bara spurning hvar þau verkefni verða, þau gætu alveg eins orðið hér heima eins og erlendis.“

Hún segir mikilvægt fyrir arkitekta að víkka sjóndeildarhringinn og halda stöðugt áfram að ögra sér. „Ég er full af eldmóði! Það er svo margt spennandi í gangi í heiminum og tækninni í faginu hefur fleygt fram. Það sem var ómögulegt í gær er hægt í dag, ekki síst fyrir atbeina þrívíddartækninnar sem gerir okkur kleift að stúdera verkefni með mun nákvæmari hætti en áður. Arkitektúr er allt önnur grein en hún var fyrir tíu til fimmtán árum. Sérstaklega hvað varðar stærri óhefðbundnari verkefni.“

Einstök náttúra

Spurð hvað heilli hana mest við Ísland nefnir Hlédís fyrst náttúruna. Hún sé einstök. Það kemur glöggt fram í stefnuyfirlýsingu á heimasíðu stofunnar, eon.is:

„EON arkitektar hafa sterkar rætur til íslensks þjóðfélags. Tenging við sérkenni og sögu þjóðarinnar er okkur mikilvæg. Einnig leggjum við áherslu á tengingu byggingalistar og umhverfisþátta landsins. EON arkitektar standa fyrir sköpun góðra rýma og stefna að því að leggja sitt af mörkum til byggingalistar hér á landi. Markmið EON er að sameina nútíma arkitektúr, umhverfisþætti með vísun í stílbrögð og sögu, í eina heild sem hentar og virkar í íslensku veðurfari og náttúru og passar inn í hið hraða hátæknisamfélag sem við lifum í. Byggingar eiga að geta aðlagað sig breyttum kröfum framtíðarinnar, án þess að missa sérkenni sín.“

Þar að auki tilgreinir Hlédís nándina. Hún sé óvíða meira en á Íslandi. „Hvar annars staðar í heiminum er hægt að taka upp símann og hringja beint í ráðherra í ríkisstjórn, jafnvel sjálfan forsætisráðherrann? Ég talaði um þetta í New York um daginn en ég held að enginn hafi trúað mér,“ segir hún hlæjandi.

Bjart framundan hjá arkitektum

Fáar stéttir fengu eins þungt högg í hruninu og arkitektar, menn beinlínis hættu að byggja. Núna, rúmum sex árum síðar, segir Hlédís stöðuna mun betri. Stórar hótelbyggingar vegi þar þyngst, þær hafi verið góð innspýting í fagið. Þá sé aftur að komast skriður á íbúðarhúsnæði.

„Þetta gerðist mjög hratt. Einn daginn var verið að byggja úti um allt og næsta dag voru menn hættir að byggja. Fyrir vikið þurftu arkitektar að taka u-beygju og sjá tækifærin í breyttum aðstæðum. Þannig er okkur kennt að hugsa og þarna reyndi svo sannarlega á það. Þetta hafa verið erfiðir tímar en landið er sem betur fer byrjað að rísa á ný.“

Hún segir menn hafa lært sitthvað á hruninu. „Það er ekkert launungarmál að sumir fóru fram úr sér fyrir hrun sem skilaði sér í byggingum sem voru ef til vill ekki nægilega góðar. Núna eru byggingarnar almennt betri og menn betur meðvitaðir um það sem skiptir máli, svo sem vistvæna þáttinn og sjálfbærni. Því ber að fagna enda ekki hægt að bíða með það lengur. Ég sé ekki annað en bjart sé framundan hjá íslenskum arkitektum.“

Óður til framtíðar

Hús formanna (House of Shapes) er um það bil 700 fm einbýlishús við Elliðavatn í Kópavogi. Það er byggt fyrir Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og fjölskyldu hans. Að sögn Hlédísar á húsið að vera heimili og griðastaður en um leið vettvangur vinnu, fræðastarfs og þjóna vegna móttöku gesta. Þannig skiptist húsið í tvo byggingarhluta, annan hlutann hefur fjölskyldan alveg út af fyrir sig en hinn gegnir fjölþættara hlutverki, eins og að rúma veislur og móttökur. Byggingarhlutar eru aðskildir og tengjast með brú.

„Byggingin er óður til framtíðar, vísinda og uppgötvana. Form byggingarinnar eru óhefðbundin en samanstanda af grunnformunum, uppruna allra forma, allrar sköpunar, það er að segja hring, sem táknar andann, þríhyrning, sem táknar sálina og ferhyrning, sem táknar líkamann. Þetta kemur skýrt fram í grunnmynd og sniðmyndum. Samruni þessara forma er tákn sköpunarinnar,“ segir Hlédís.

Húsið er steinsteypt, bæði beinir veggir og bognir, lárétt og lóðrétt. Lóðréttir steyptir bogar eru sjónsteypa innan í húsinu, þar sem þáttur verkfræðinga og verktaka fær að njóta sín á völdum stöðum. Efnistök virka flókin en eru í raun einföld, að sögn Hlédísar. Gegnumgangandi inni jafnt sem úti er steypa, sýnileg og/eða pökkuð inn í títaníumskel til að verjast vatni og veðrum. Þá er notuð steypt flís inni og úti, á þeim hlutum sem skera sig úr aðalformum byggingarinnar. Flísin er unnin eftir hönnun graffitílistamanninum Banksi og í ákveðinni birtu koma verk hans fram, þá sérstaklega í baðherbergjum inni í húsinu.

Engin niðurföll eða rennur eru á húsinu, en rigningarvatn rennur eftir títaníumklæddum bogum og er beint niður, til dæmis á stofueiningunni, þar sem vatnið rennur í slæðu (fossi) milli glugga og niður í tjörn sem umlykur hringherbergi sem er hjartað í húsinu. Hlédís kveðst hafa verið mjög spennt að sjá hvernig þetta virkaði og í fyrstu rigningu brunaði hún með hjartslátt upp eftir. Og viti menn, allt virkaði eins og til var ætlast. Alltaf ánægjulegt þegar form og praktík fara saman.

Hús Formanna mun vera eina byggingin á Íslandi sem klædd er títaníum en leitað var til sama framleiðanda og útvegaði Guggenheim-safninu í Bilbao títaníumklæðninguna frægu.

Hlédís skilgreinir húsið sem skúlptúr sem leggst inn í landslagið sem aftur lagar sig að húsinu. „Það er utanaðkomandi hlutur sem settur er niður og aðskilur sig sjónrænt frá landslaginu. Hönnunin tekur á hinn bóginn mið af veðri og vindum, húsið myndar skjól fyrir veðuráttum, er lokað fyrir umferð og götu, en opnar sig í átt að vatninu og útsýninu,“ segir hún.

Hlédís segir verkefnið hafa tekið miklum breytingum á sköpunarferlinu, bæði innanhúss og utan. Öryggið hafi einkennt það í upphafi en síðan hafi verið farið út fyrir þægindarammann og brotist út úr hinu hefðbundna. Hönnunin var unnin í nánu samstarfi við verkkaupa sem Hlédís segir hafa verið einstakan. „Hann var hvergi banginn við að fara út fyrir hefðbundin mörk og færði okkur bæði trú og þor.“

Fléttuð inn í hraunbreiður

Heklusetur er 700 fm bygging sem var sérstaklega byggð til að hýsa safn um eldfjallið Heklu og tengda starfsemi; Heklusýninguna, ráðstefnusal og veitingahús.

Gamli bæjarhóllinn er hluti af arkitektúr hússins og náttúruleg efni svæðisins eru partur af byggingunni. Hraungrýti sem sótt er til Heklu er notað í byggingunni bæði úti og inni. Nálægðin við eldfjallið magnar upp þetta einstaka samspil náttúru og byggingarlistar.

Byggingin er óður til Heklu og hönnuð til að vera órjúfanlegur hluti af upplifun safnsins/sýningarinnar og inn í þá stórkostlegu náttúru sem umlykur eldfjallið að sögn Hlédísar. Byggingin er fléttuð inn í hraunbreiður og jarðlög, íslenskt hraun er notað sem klæðning, á steypta veggi byggingarinnar, aðferð sem sérstaklega var þróuð fyrir bygginguna. Þannig mætir gestum við komu að Heklusetrinu hár hraunveggur, þar sem dyr og gluggar eru skornir inn í klettinn og þar með notuð gömul þjóðsagnaminni um að gestir gangi í björg er þeir koma inn í húsið.

Byggingin er byggð með nútímatækni, þ.e. skelin er steinsteypt, en umslag byggingarinnar er klætt hrauni og grasi með vísan í íslenskar hefðir/byggingasögu og fellir bygginguna þannig inn í náttúruna.

Efniviður er hraun, torf/gras, þá eru hlutar byggingarinnar klæddir með Jatoba-harðvið (sem er eini efniviðurinn sem notaður er sem ekki er sóttur í íslenska náttúru) auk þess eru einstaka byggingarhlutar klæddir cortain-stáli. Aðalburðarvirki byggingarinnar, óreglulegum forsteyptum bitum, yfir veitingasal er haldið uppi með ómeðhöndluðum stórum aldagömlum trjádrumbi sem sóttur var til Hornstranda.

Þegar gengið er inn í sýningarhluta byggingarinnar er sem gengið sé undir yfirborð jarðar. Gengið er niður í safnið, líkt og gengið sé undir hraunið, inn í helli undir hraunbreiðum eldfjallsins. Byggingin fylgir gestum eftir sýningum safnsins og leiðir inn í innviði eldfjallsins: „Hliðið að miðju jarðar.“

Form byggingarinnar leiðir áhorfanda í gegnum safnið, sem segir sögu Heklu á margvíslegan hátt, langt aftur í aldir og skýrir eðli eldgosa. Áhorfendur upplifa eldgos á einstakan hátt en þar spilar nútímatölvutækni stóran þátt og myndar bæði hraunstrauma og kvikugíga. Miðpunktur sýningarinnar er Hekla sjálf sem birtist í öllu sínu veldi, í gegnum alla sýninguna.

Úr bæði sýningar- og veitingasal hússins er óviðjafnanlegt útsýni til Heklu.