[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Sala á rafbókum er svipuð og í fyrra, segir Stefán Hjörleifsson, eigandi eBóka sem selja rafbækur og hljóðbækur. Sala á rafbókum dróst hins vegar saman hjá Forlaginu sem er stærsta bókaútgáfan.

Baksvið

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Sala á rafbókum er svipuð og í fyrra, segir Stefán Hjörleifsson, eigandi eBóka sem selja rafbækur og hljóðbækur. Sala á rafbókum dróst hins vegar saman hjá Forlaginu sem er stærsta bókaútgáfan.

Bókartitlarnir sem gefnir voru út sem rafbækur árið 2014 voru færri en árið áður.

Salan á rafbókum hjá eBókum fyrir árið 2014 var í kringum fimm þúsund. Mesta salan fer fram í nóvember og desembermánuði.

Samkvæmt Bókatíðindum árið 2014, sem Félag íslenskra bókaútgefenda gefur út, voru 49 rafbækur skráðar. Árið 2013 voru þær 60 talsins og árið þar áður, 2012, voru þær 94. Útgefnum rafbókum hefur því fækkað en ekki fjölgað.

Auk þessara tæplega fimmtíu rafbókartitla sem komu í sölu hjá eBókum þá bættust 10 titlar við frá Bókafélaginu Uglu, sem voru allt erlendar bækur.

Rafbókasala Forlagsins dróst saman milli ára

„Sala á rafbókum dróst saman á síðasta ári en hún hefur aukist árlega fram til ársins 2014,“ segir Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.

Forlagið hóf útgáfu á rafbókum árið 2011, fyrir spjaldtölvur og lesbretti. Forlagið segir að framboðið á rafbókartitlum hafi verið nokkuð aukið milli ára og margar hverjar hafi komið út á sama tíma og sú prentaða. „Það er þó athyglisvert að svipuð þróun hefur átt sér stað víða erlendis. Þar hefur sala á rafbókum dregist saman. Það má velta fyrir sér hvort nýjabrumið af rafbókum sé að dofna. Það hefði mátt búast við því að rafbókasalan myndi aukast en hún hefur dregist saman strax á þriðja ári,“ segir Egill.

Egill bendir á að stórauka þurfi framboð á íslenskum rafbókum, sérstaklega á bókmenntaarfinum, en þær bókmenntir eru ekki endilega aðgengilegar á rafrænan hátt. „Hins vegar mega útgefendur kanna hvort ekki sé hægt að fara aðrar leiðir í útgáfumálum á bókmenntum sem myndi svipa til tónlistarveitunnar Spotify.“

Rauða serían sívinsæl

„Sala á rafbókunum hefur farið stigvaxandi. Á síðasta ári hefur salan vaxið um 100%,“ segir Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Ás-útgáfunnar, sem stundum er nefnd ástarsögudrottningin. Ás-útgáfan gefur út ástarsögur undir merkjum Rauðu seríunnar. Sex nýir titlar koma út í hverjum mánuði allan ársins hring.

Útgáfan hefur verið með rafbækur til sölu síðustu þrjú ár. Þær hafa mælst vel fyrir og kjósa margir lesendur rafbók, einkum þeir sem búa erlendis, að sögn Rósu. Söluaukninguna rekur Rósa til nýrrar heimasíðu sem er mjög aðgengileg.

Mest selst af rafbókinni í júlí og þá nælir fólk sér gjarnan í marga titla í einu. „Ég held að framtíðin sé rafbókin sem verður í sókn.“

Sala rafbóka minnkað

Sala bóka hefur færst í aukana samkvæmt nýjustu tölum frá breskum bókabúðum, sem gefa einnig til kynna að fólk kaupi nú meira af bókum á hinu hefðbundna formi, fremur en rafbækur. Þetta kemur fram í breska blaðinu Telegraph.

Sala á svonefndum lesbrettum hefur einnig minnkað samkvæmt þessum tölum. Talsmaður bresku bókabúðakeðjunnar Waterstones segir við dagblaðið Financial Times að eftirspurn eftir Kindle-lestölvunni, sem búðirnar selja einnig, sé með minnsta móti. Þar jókst sala prentaðra bóka um 5% í desember. Sam Husain, framkvæmdastjóri bókabúðakeðjunnar Foyles, segir sölu prentaðra bóka hafa aukist um 11% þessi jól miðað við þau síðustu.