Jón Pjetur Eyþórsson fæddist á Þingeyrum 27.1. 1895. Foreldrar hans voru Eyþór Benediktsson bóndi og Björg Jósefína Sigurðardóttir.

Jón Pjetur Eyþórsson fæddist á Þingeyrum 27.1. 1895. Foreldrar hans voru Eyþór Benediktsson bóndi og Björg Jósefína Sigurðardóttir. Þau fluttu að Hamri í Ásum er Jón var á öðru ári og þar fæddust yngri systkinin, Benedikt, Hólmfríður Guðrún, Jónína Jórunn, Margrét Sigríður og Björg Karitas, en hálfbróðir Jóns, tæpum áratug eldri, var Sigurður Nordal prófessor.

Eiginkona Jóns var Kristín Vigfúsdóttir frá Vatnsskarðshólum og eignuðust þau sex börn.

Jón lauk stúdentsprófum frá Menntaskólanum 1917, stundaði nám í verkfræði í Kaupmannahöfn og síðan í veðurfræði, fyrst í Kaupmannahöfn en síðan í Osló og lauk þaðan cand.mag.-prófi 1923. Hann starfaði auk þess í Bergen frá 1921 hjá Vilhelm Berknes sem varð heimsfrægur veðurfræðingur vegna rannsókna sinna fyrir langtíma veðurspár. Vilhelm varð prófessor í veðurfræði í Bergen, kom upp og skipulagði fjölda veðurathugunarstofa í Vestur-Noregi og þangað streymdu nemendur sem áttu eftir að komast í fremstu röð veðurfræðinga næstu áratugi.

Jón starfaði við veðurspár, staðsetningu og byggingu veðurathugunarstöðva á hæstu fjallatindum og kom að fyrstu útsendingum veðurspáa í norska útvarpið.

Jón flutti heim 1926 til að taka þátt í uppbyggingu veðurathugana, nýstofnaðrar Veðurstofu Íslands og síðan útvörpun á veðurspám þegar Ríkisútvarpið var stofnað 1930.

Jón var auk þess brautryðjandi í jöklarannsóknum hér á landi, fór í tvær frægar jöklarannsóknaferðir 1939 og 1951. Hann stofnaði Jöklarannsóknarfélag Íslands 1950 og var formaður þess til dauðadags. Félagið átti eftir að vinna afar þýðingarmikla grunnvinnu á sviði jöklarannsókna. Auk þess var Jón einn af brautryðjendum á sviði hafísrannsókna og loftslagabreytinga hér á landi. Hann sat í útvarpsráði 1932-46 og flutti oft erindi í þættinum Um daginn og veginn.

Jón lést 6.3. 1968.