24. mars 2015 | Aðsent efni | 674 orð | 2 myndir

Er samkeppnisstaða orku frá sæstreng til Bretlands að versna?

Eftir Elías Elíasson

Elías Elíasson
Elías Elíasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Elías Elíasson: "Nýlegt útboð Breta á styrkjum til hreinna orkuvera getur haft áhrif á samkeppnisstöðu íslenskrar raforku um sæstreng til Bretlands til hins verra."
Í lok febrúar birtu stjórnvöld í Bretlandi niðurstöður uppboðs á niðurgreiðslum sem þar hafði farið fram. Niðurstöðurnar segja nokkuð um það, á hvað leið stjórnvöld í Bretlandi og Evrópusambandinu eru í orkumálum, og hafa áhrif á samkeppnisstöðu íslenskrar raforku frá sæstreng til Bretlands. Þetta útboð stjórnvalda er nýmæli í Bretlandi og er ætlun þeirra, að niðurgreiðslum til orkuvinnslu án kolefnalosunar verði ráðstafað með þessum hætti í framtíðinni.

Uppboðið fór þannig fram, að fyrirtæki buðu fram orkuverð frá virkjunum sem þau áforma að taka í notkun á næstu árum, en stjórnvöld völdu síðan úr hagkvæmustu tilboðin. Fyrst voru tekin þau lægstu í hverjum flokki sem stjórnvöld höfðu skilgreint, síðan það næstlægsta og svo áfram þar til fyrirfram ákveðnum viðmiðunarmörkum var náð. Þessi mörk geta verið hámarksverð eða heildarupphæð í hverjum flokki. Meðfylgjandi tafla sýnir samantekt á teknum tilboðum.

Fyrirtækin sem fá sitt tilboð samþykkt þurfa síðan að gera 10 ára samning við stjórnvöld um mismunagreiðslur (Contract for Differences, CfD). Þannig er fyrirtækjunum tryggt orkuverð sem er allmiklu hærra en markaðsverð raforku, nú álitið 45 £/MWh á breska uppboðsmarkaðnum (Power Pool). Stjórnvöld greiða síðan samningshöfum muninn á tilboðsverði og skráðu markaðsverði. Fyrirtækin þurfa eftir sem áður að selja orku sína á markaðnum á hefðbundinn hátt og geta þar hagnast eða tapað eftir atvikum.

Hámarkið sem stjórnvöld hafa sett og sýnt er í töflunni segir nokkuð um það hvað þau telja að þurfi til að nægilegur hvati verði til áframhaldandi fjárfestinga í orkuverum sem ekki auka kolefni andrúmslofts. Við þetta verð töflunnar má bæta, að talið er að þau muni tilbúin að tryggja Hinkley Point C-kjarnorkuverinu orkuverðið 92,5 £/MWh. Kjarnorkan er því ódýrust af þeim orkuformum sem eitthvað getur munað um í framtíðinni og það verð því líkleg viðmiðun þegar að því kemur að semja um verð orku gegnum sæstreng frá Íslandi.

Eins og sjá má í töflunni eru hæstu boð sem tekið var verulega lægri en það hámark sem stjórnvöld höfðu ákveðið fyrirfram. Í kjölfarið munu stjórnvöld væntanlega endurmeta hámarkið og hugsanlega lækka fyrir næsta útboð. Orka frá sæstreng lendir þá hugsanlega í samkeppni við orku frá vindmyllum í landi, en ólíklegt er að Bretar sjái sér fært að niðurgreiða orku frá Íslandi meir en því hámarksverði nemur. Það er einnig spurning hvort Bretar sjái sér fært að halda þeim niðurgreiðslum áfram eftir að einhver auðlindarenta er farin að skila sér frá þeim virkjunum sem þjóna strengnum.

Kostnaðarverð orku frá Íslandi út af sæstreng er erfitt að áætla, þar sem litlar upplýsingar liggja fyrir í umræðunni. Af rafmagnsreikningnum má lesa, að Orka náttúrunnar selur á 5,3 kr/kWh og Landsnet flytur innanlands fyrir 1,4 kr/kWh. Samtals eru þetta 33 £/MWh. Skúli Jóhannsson (grein á veldi.is) áætlar flutningskostnað um sæstreng 52 £/MWh (80,5 $/MWh) með áhættukostnaði. Samtals gerir þetta 85 £/MWh.

Það lítur því út fyrir, að samkeppnisstaða raforku frá Íslandi hafi versnað í Bretlandi eftir þetta útboð og hagkvæmni slíks útflutnings sé í járnum. Þetta eru ekki góðar fréttir, sérstaklega ef það er haft í huga, að fjárfestar hafa ekki beinlínis verið að þrýsta á um að semja um lagningu sæstrengs héðan, þótt þeir hafi sýnt áhuga á að fylgjast með.

Það sem hér hefur verið talið bendir til, að það muni líða lengri tími en vonast var eftir þar til sæstrengurinn verður örugglega hagkvæmur.

Þá er það spurning, hvaða orkuver munu eiga kost á niðurgreiðslum samkvæmt reglugerðum Breta og Evrópusambandsins. Verða það einungis vindmyllur og nýjar smávirkjanir í vatni og jarðgufu, eða getum við einnig fengið niðurgreiðslur fyrir eldri orkuver og þar með umframorkuna sem verða kann í orkukerfinu þegar sæstrengurinn loksins kemst í gagnið? Svör við þessari spurningu liggja ekki á lausu.

Við allt þetta bætist, að umframorka í íslenska orkukerfinu er, af fréttum að dæma, uppurin eftir þá stóriðjusamninga sem verið er að gera.

Það er nauðsynlegt, svo fólk missi ekki trú á þetta mál meir en orðið er, að svör komi fram við framangreindum spurningum og Landsvirkjun sýni áætlanir um hve mikið þarf að virkja til að nægt afl og orka sé til fyrir sæstrenginn.

Höfundur er fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.