Spítali Frá aðalfundi landssamtakanna Spítalinn okkar.
Spítali Frá aðalfundi landssamtakanna Spítalinn okkar. — Ljósmynd/Magnús Heimisson
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Það er kominn mikill kraftur og hugur í samtökin.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Það er kominn mikill kraftur og hugur í samtökin. Við munum halda starfinu áfram og efla vitund fólks um mikilvægi þess að byggja fyrir meginstarfsemi spítalans, ekkert má hökta og framkvæmdir verða að halda áfram linnulaust,“ segir Anna Stefánsdóttir, formaður samtakanna Spítalinn okkar, sem hélt sinn fyrsta aðalfund sl. fimmtudag.

Anna segir ákveðna áfanga hafa náðst í því að byggja nýjan Landspítala og samtökin hafi átt ágætt samstarf við byggingarnefnd og velferðarráðuneytið. Hún segir að á samtökin sé hlustað og vonandi verði svo áfram.

„Við finnum jákvæða strauma og fáum alls staðar góðar móttökur við okkar málstað, hvar sem við komum. Menn sjá nauðsyn þess að byggja fyrir starfsemina,“ segir Anna en samtökin hafa á síðustu mánuðum haldið um 30 kynningarfundi víða um land og tvö málþing.

Stórir áfangar hafa náðst

Anna tekur fram að ekkert sé endanlega í höfn þó að framkvæmdir fari að byrja á lóð Landspítalans fyrir meðferðarkjarna og sjúkrahótel. Mikilvægt sé að sameina starfsemi spítalans á einn stað og skapa betri aðstæður fyrir bæði starfsmenn og sjúklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.

„Við höfum fengið jákvæð skilaboð í fjárlögum þessa árs þar sem ákveðið var að setja meira fé í þetta. Ráðuneytið er búið að fela byggingarnefnd spítalans að bjóða út fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna og hefja framkvæmdir á lóðinni fyrir sjúkrahótel. Þetta eru stórir áfangar,“ segir Anna ennfremur.

Á aðalfundinum greindi Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítalans, m.a. frá reynslu Norðmanna af byggingu nýrra sjúkrahúsa. Tekið var dæmi um Þrándheim og sagði Ingólfur þá framkvæmd í anda þess sem vilji væri til hér á landi, með góðu rými fyrir hvern sjúkling. Þá væri góð reynsla af því í Noregi að hafa starfsmenn með í ráðum við hönnun nýrra spítala, allt frá upphafi til lokastigs framkvæmda. Með þeim hætti gætu starfsmenn aðlagast betur nýrri aðstöðu. Að sögn Önnu hefur þessi leið verið farin hér á landi og Landspítalinn skipað starfsmenn í vinnuhópa vegna nýs spítala.

Spítalinn okkar
» Landssamtökin Spítalinn okkar voru stofnuð 9. apríl árið 2014. Stofnfélagar eru um 1.000, áhrifafólk um allt land.
» Markmið samtakanna er að stuðla að uppbyggingu nýs húsnæðis fyrir Landspítalann og afla til þess stuðnings meðal stjórnvalda og almennings.