Svartsengi Eldsneytisverksmiðjan CRI var tekin í notkun árið 2012 en hefur nú verið stækkuð til muna svo framleiðslugetan þrefaldast.
Svartsengi Eldsneytisverksmiðjan CRI var tekin í notkun árið 2012 en hefur nú verið stækkuð til muna svo framleiðslugetan þrefaldast. — Ljósmynd/Mannvit hf.
Ingileif Friðriksdóttir if@mbl.is Stærsti framleiðandi umhverfisvæns eldsneytis hér á landi, Carbon Recycling International (CRI), mun í dag fagna stækkun eldsneytisverksmiðju sinnar í Svartsengi við hátíðlega athöfn.

Ingileif Friðriksdóttir

if@mbl.is

Stærsti framleiðandi umhverfisvæns eldsneytis hér á landi, Carbon Recycling International (CRI), mun í dag fagna stækkun eldsneytisverksmiðju sinnar í Svartsengi við hátíðlega athöfn. Við stækkunina þrefaldast framleiðslugeta verksmiðjunnar og verða þar framleidd fjögur þúsund tonn af endurnýjanlegu metanóli á ári.

Athöfnin hefst klukkan 14 og munu Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Robert Cushman Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Wolfgang Benesch, yfirmaður rannsókna þýska orkufyrirtækisins STEAG, flytja þar ávörp auk fulltrúa CRI.

CRI var stofnað á Íslandi árið 2006 með það að markmiði að þróa lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti.

Fyrsta verksmiðjan í heiminum

CRI tók í notkun fyrsta áfanga eldsneytisverksmiðjunnar í Svartsengi árið 2012, en verksmiðja CRI er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Framkvæmdir við stækkun verksmiðjunnar hafa staðið yfir frá síðasta sumri og að þeim hafa unnið á framkvæmdatímanum tugir verktaka auk starfsmanna CRI, en hjá fyrirtækinu starfar á fjórða tug starfsmanna á Íslandi og erlendis.

Í verksmiðjunni er endurnýjanlegt metanól, sem er fljótandi eldsneyti, búið til úr rafmagni með samruna vetnis og koltvísýrings.

Áhrif lík sjöföldum rafbílaflota

Framleiðsla verksmiðjunnar hefur sömu áhrif á losun koltvísýrings og um 2.200 rafmagnsbílar. Þetta jafngildir sjöföldum flota rafbíla sem fyrir eru í landinu.

Fyrirtækið selur eldsneytið á innlendum og erlendum markaði, til íblöndunar eða sem hráefni til eldsneytisframleiðslu, undir vörumerkinu Vulcanol. Metanól er notað við framleiðslu á lífdísil og til beinnar íblöndunar í bensín eða framleiðslu á öðrum þáttum bensíns og dísil. Samkvæmt bresku gagnaveitunni Argus JJ&A voru á síðasta ári um 32 milljarðar lítra af metanóli notaðir sem eldsneyti, aðallega í Evrópu og Asíu.

Framleiðslutækni CRI hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim og ekki síst á meginlandi Evrópu.