16. maí 2015 | Staksteinar | 203 orð | 1 mynd

STAKSTEINAR

Sykki fleira en sæstrengurinn?

Sveinn Valfells
Sveinn Valfells
Líklega þyrfti tvær stórvirkjanir á borð við Kárahnjúka til að framleiða næga orku fyrir sæstreng til Bretlands. Náttúruspjöll eru óhjákvæmileg og áhættuþættir fjölmargir.
Líklega þyrfti tvær stórvirkjanir á borð við Kárahnjúka til að framleiða næga orku fyrir sæstreng til Bretlands. Náttúruspjöll eru óhjákvæmileg og áhættuþættir fjölmargir. Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli Sveins Valfells, eðlisfræðings og hagfræðings, á viðskiptavef mbl.is.

Þar segir einnig að mikil og ör þróun eigi sér nú stað í orkuframleiðslu, geymslu og dreifingu þannig að kostir Breta til að uppfylla orkuþörf gætu orðið margvíslegir.

Sveinn bendir á að orkuverð á Íslandi myndi hækka með sæstreng og fjármunir flytjast úr vasa innlendra kaupenda inn í stórfyrirtæki á borð við Landsvirkjun. Og hann spyr hvort víst sé að ávinningurinn myndi skila sér til eigendanna.

Hann nefnir í því sambandi fjárfestinn Warren Buffet sem vari oft við framkvæmdagleði stjórnenda, „þeirri áráttu að búa til verkefni með óvissa arðsemi án þess að skeyta um hagsmuni eigenda“.

Sveinn leggur áherslu á óvissuna og segir að um sæstreng sé aðeins hægt að fullyrða eitt, að hann muni „gjörbreyta atvinnulífi og ásjónu Íslands og hækka orkuverð hér á landi. En ábatinn er óviss og kannski minni en enginn.“

Hann bætir við: „Ef af verður er óþægilega líklegt að á hundrað ára afmæli Landsvirkjunar verði fyrirtækið og fólkið í landinu enn að rétta úr kútnum vegna sæstrengsævintýrisins.“

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.