31. maí 2015 | Sunnudagsblað | 2734 orð | 2 myndir

Erum að vinna með eilífðarvélar

„Það eru skemmtilegir tímar hjá Landsvirkjun og forréttindi fyrir okkur sem hér störfum að taka þátt í þeim verkefnum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
„Það eru skemmtilegir tímar hjá Landsvirkjun og forréttindi fyrir okkur sem hér störfum að taka þátt í þeim verkefnum,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsvirkjun fagnar hálfrar aldar afmæli sínu í sumar. Að dómi forstjórans, Harðar Arnarsonar, er afmælisbarnið vel á sig komið og hefur alla burði til að vaxa og dafna á komandi árum.
Landsvirkjun fagnar hálfrar aldar afmæli sínu í sumar. Að dómi forstjórans, Harðar Arnarsonar, er afmælisbarnið vel á sig komið og hefur alla burði til að vaxa og dafna á komandi árum. Hann segir það hafa forgang að stuðla að breiðri sátt um starfsemi fyrirtækisins enda geti það vel farið saman, vinnsla á endurnýjanlegri orku og náttúruvernd. Að sögn Harðar ætti ekki ráðist í lagningu sæstrengs til Bretlands hafi það í för með sér fjárhagslega áhættu fyrir íslensku þjóðina. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Útsýnið er óvíða betra í þessari borg en á skrifstofu forstjóra Landsvirkjunar á Háaleitisbrautinni. Á björtum degi má sjá allt frá Reykjanesi upp á Snæfellsnes, Esjuna og auðvitað höfuðborgina í öllum sínum ljóma. Hörður Arnarson hefur setið í stól forstjóra frá árinu 2009 og kann vel við sig þarna uppi á áttundu hæðinni enda ekki amalegt að geta annað veifið litum upp úr krefjandi verkefnum og horft í kringum sig í 360 gráður og út á sundin blá.

Tilefni heimsóknar minnar er fimmtíu ára afmæli Landsvirkjunar í sumar og við blasir að spyrja fyrst um stöðu fyrirtækisins á þessum tímamótum en það er sem kunnugt er í eigu íslensku þjóðarinnar.

„Það sem stendur upp úr er sá trausti grunnur sem lagður var að Landsvirkjun á sínum tíma,“ segir Hörður. „Bygging Búrfellsvirkjunar var umdeild og áhættusöm en um leið afar framsækin ákvörðun. Stigið var stórt skref í tækni uppi á reginfjöllum á Íslandi. Fleiri slíkar ákvarðanir hafa verið teknar í sögu Landsvirkjunar og allar hafa þessar virkjanir reynst vel. Þá er ekki horft framhjá því að allar hafa þær haft mikil umhverfisáhrif, þær eru þess eðlis, en vandað hefur verið til verka og reynt að draga úr umhverfisáhrifum með því að fella byggingar inn í landslag á hverjum stað fyrir sig. Rekstaröryggið hefur líka verið mjög gott, þessar virkjanir hafa verið reknar án alvarlegra bilana. Þegar allt er saman tekið hefur þetta verið farsæl uppbygging við aðstæður á raforkumörkuðum og efnahagsumhverfi heimsins sem voru ólíkar því sem við þekkjum í dag. Núna þykir sjálfsagt mál að reisa vatnsaflsvirkjanir en fyrir hálfri öld þótti sumum það tímaskekkja og sóun, þar sem kjarnorkan ætti að taka yfir. Það gerðist ekki.“

Farsælt viðskiptasamstarf

Hörður nefnir einnig farsælt viðskiptasamstarf við öflug alþjóðleg fyrirtæki. Fyrst Alusuisse, sem í dag nefnist Rio Tinto Alcan, en síðan Elkem, Norðurál, Alcoa og fleiri. „Þessi fyrirtæki gerðu okkur kleift að ráðast í allar þessar framkvæmdir og mörg þeirra hafa stækkað oft, álverið í Straumsvík hefur til dæmis farið gegnum sex stækkanir.“

– Á ársfundi Landsvirkjunar um daginn kom fram að fjárhagsstaðan væri sterk.

„Það er rétt. Fjárhagsstaðan er að batna. Það var vitað mál þegar farið var í stórframkvæmdirnar fyrir austan að það myndi taka tíma að greiða niður lánin en það hefur gengið í samræmi við væntingar að lækka skuldirnar. Jafnvel betur. Við höfum lækkað skuldir um rúma áttatíu milljarða á síðustu fimm árum, samhliða því að byggja nýjar virkjanir eins og Búðarháls. Um leið og skuldir lækka verða til meiri peningar í fyrirtækjum vegna minni vaxtagreiðslna og fjárhagslega hefur Landsvirkjun verið að þróast vel. Af þeim sökum verður fljótlega hægt að fara að greiða aukinn arð til eigenda fyrirtækisins, íslensku þjóðarinnar. Þessar greiðslur hafa numið um einum og hálfum milljarði króna á ári undanfarin fimm ár en eftir tvö til þrjú ár ættu þær að geta aukist og orðið á nokkrum árum tíu til tuttugu milljarðar króna á ári hverju.“

Lýtur markaðslögmálum

– Markaðsumhverfið er líka að breytast, ekki satt?

„Já, ekki síst á alþjóðavísu. Raforka er nú skilgreind sem vara sem lýtur markaðslögmálum, sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta er verðmæt vara sem samfélög geta alls ekki verið án og með raforkulögunum sem tóku gildi 2004 var innleitt markaðsumhverfi hér á landi sem drifið er áfram af framboði og eftirspurn. Það er mjög ánægjulegt að framboðið sé að aukast enda er raforkan ein af okkar verðmætustu auðlindum. Lengi vel var erfitt að fá fyrirtæki til að koma til Íslands enda var hægt að fá raforku víða ódýrt. Það hefur breyst og fyrir vikið hefur raforka fengið raunverulegt virði. Þess vegna hafa fleiri og fleiri iðngreinar áhuga á Íslandi, það finnum við vel í dag enda bjóðum við samkeppnishæft raforkuverð, stöðugt verð á samningstímanum. Nokkuð sem sjaldan er í boði á öðrum mörkuðum. Á móti kemur að við megum ekki gleyma því að raforka er takmörkuð auðlind og við verðum því að stíga varlega til jarðar. Þetta er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar.“

– Synd væri að segja að eining ríkti um virkjanamál á Íslandi. Það hefur sést best á Alþingi að undanförnu. Hvernig snertir umræðan ykkur, bæði pólitíkin og umræðan í samfélaginu?

„Það sem við höfum lagt áherslu á og skilgreinum sem hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem okkur er trúað fyrir á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Ein af grunnforsendum þess að það takist er að það ríki sátt um starfsemi fyrirtækisins og að það hafi góðan stuðning. Við leggjum okkur fram um þetta og skynjum og mælum raunar líka að stuðningur við fyrirtækið er sífellt að aukast. Hafandi sagt það höfum við fullan skilning á því að starfsemi sem hefur í för með sér umhverfisrask verður alltaf umdeild. Einmitt þess vegna leggjum við mikla vinnu í að kynnast auðlindinni og meta umhverfisáhrifin, jafnvel í áratugi, þannig að lágmarka megi neikvæðu áhrifin. Að því búnu leggjum við okkar tillögur fram og þá kemur til kasta stjórnvalda. Þetta er mjög vandað ferli og þess nýtur orkuiðnaðurinn. Eftir sem áður er mjög mikilvægt að okkur sé veitt aðhald, bæði af almenningi og frjálsum félagasamtökum, og að mínu mati þyrfti að nást ennþá betri sátt um málaflokkinn, ekki síst í pólitíkinni. Samt hygg ég að skoðanamunurinn sé minni en mætti ætla. Þetta er meira áherslumunur en skoðanamunur og umræðan þessa dagana virðist snúast meira um málsmeðferðina frekar en ekki efnislega um hvað eigi að virkja og hvað eigi að vernda. Efnislega umræðan er ekki mikið breytt, verið er að tala um sömu virkjanakosti og voru til umræðu hjá síðustu ríkisstjórn. Þetta er hins vegar mikið tilfinningamál og hefur verið valið sem átakamál. Að mínu viti er engin þörf fyrir að fara í skotgrafirnar og Landsvirkjun reynir að leggja sitt af mörkum með stöðugri upplýsingagjöf og varfærni í öllum okkar störfum.“

Vantar skýrari leikreglur

– Hvers vegna er þetta valið sem átakamál?

„Ég held að það sé sögulegt. Víða erlendis, eins og til dæmis í Noregi, er þetta ekki eins mikið hitamál. Þá er ég ekki að segja að virkjanakostir séu ekki gagnrýndir, þeir eiga að fá mikið aðhald og gagnrýni. Hér eru okkar stóru stjórnmálaflokkar hins vegar að rífast um leikreglurnar. Hvers vegna komum við okkur ekki saman um þær? Sumir vonuðu að Rammaáætlun væri þessar skýru leikreglur og hún er góð á margan hátt. Samt er ennþá margt óljóst í lögunum sem gerir það af verkum að hægt er að túlka þau á mismunandi hátt.“

– Oft er náttúruvernd og nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum stillt upp sem andstæðum. Þú ert væntanlega ósammála því?

„Já, í mínum huga eru þetta ekki andstæður. Þvert á móti getur þetta tvennt farið mjög vel saman ef viljinn er fyrir hendi. Sögulega hefur gengið vel að samræma þetta og ég hef fulla trú á því að svo verði áfram. Það er líka ákveðin tilhneiging að stilla ferðaþjónustu upp á móti orkuvinnslu. Það er heldur ekki rétt, að mínu mati. Sagan sýnir að samstarfið hefur gengið vel og að þessar greinar styðja mjög vel hvor við aðra. Ferðamenn sem hingað koma eru almennt mjög jákvæðir í garð orkuvinnslu á Íslandi og telja hana með því merkilegra sem þeir sjá hér, það er að 70% af orkunotkun þjóðarinnar sé endurnýjanleg orka. Í löndunum sem þeir koma frá verður það mesta verkefni næstu áratuga að ná tökum á orkuframleiðslunni. Það er jafnvel óyfirstíganlegt á sumum stöðum. Þess vegna er endurnýjanleg orka án efa aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.“

Mörgu þarf að svara

– Þið eruð að skoða vaxtartækifæri fyrir fyrirtækið, eitt af þeim er að leggja sæstreng yfir á önnur markaðssvæði. Er það forgangsmál hjá Landsvirkjun?

„Megináhersla okkar er að fá fjölbreyttan iðnað til Íslands og styðja við vöxt hans og viðgang. Í því vinnum við alla daga. Við höfum hins vegar bent á að ástæða sé til að skoða hvernig við getum bætt nýtingu auðlindarinnar enda er umframorka í kerfinu flest ár vegna þess að alltaf er miðað við lágmarksúrkomu. Einn af þessum möguleikum gæti verið lagning sæstrengs, sem er í reynd bara ein tegund viðskiptavinar, vegna aðstæðna á raforkumarkaði, sérstaklega í Bretlandi. Það sem hvetur okkur til að skoða sæstreng er að þjóðir með sambærilega stöðu og við hafa verið að stíga stór skref í þeim efnum, eins og Norðmenn, sem hafa áratugareynslu af svona framkvæmdum. Ég legg samt áherslu á að þetta er bara á skoðunarstigi og mörgu þarf að svara áður en lagt yrði út í framkvæmd af þessu tagi.“

– Yrði lengd strengsins ekki með því mesta sem þekkist?

„Jú, þetta yrðu trúlega rúmir þúsund kílómetrar. Það er hins vegar ekkert einsdæmi, Norðmenn eru til dæmis að fara af stað með sæstreng núna sem er 800 km og lengri strengir eru í skoðun annars staðar í heiminum.“

Orkuöryggi Breta ógnað

– Því hefur verið haldið fram að þessi framkvæmd geti aldrei orðið arðbær og mögulega þyrfti að koma til niðurgreiðsla frá Bretum.

„Þetta hefur bæði kosti og galla. Það er alveg ljóst. Það eru atriði sem huga þarf að, einkum raforkuverð til heimilanna, að tryggja iðnaði samkeppnishæft umhverfi og umhverfismál. Komi í ljós að framkvæmdin beri sig ekki verður að sjálfsögðu ekki farið út í hana. Að mínu mati hvetur aukin arðsemi Landsvirkjunar heldur ekki til frekari virkjana en þetta verkefni myndi kalla á það. Eftir því sem velmegun þjóðarinnar eykst verða verndunarsjónarmið sterkari. Þetta höfum við séð víða erlendis, viðmiðið hækkar.“

– Eru Bretar mjög áhugasamir?

„Breska orkukerfið er í ógöngum og orkuöryggi landsins fyrir vikið ógnað. Þess vegna hafa Bretar verið að styðja við verkefni af þessu tagi og gera samninga milli landa, um sæstrengi, kjarnorkuver, vindorkuver og fleira. Þetta eru ekki beinlínis styrkir heldur er markmiðið að eyða óvissu orkuframleiðandans og tryggja raforkuöryggi Bretlands. Þörf þeirra er mikil og þess vegna getur verið hagkvæmt að skipta við þá. En eins og ég segi, ýmsum spurningum er ósvarað og alveg ljóst að Íslendingar ættu ekki taka fjárhagslega áhættu í þessu verkefni, hún verður að vera annars staðar.“

– Víkjum þá að allt öðru. Þú hefur unnið markvisst að því að opna fyrirtækið frá því tókst við starfi forstjóra.

„Já, Landsvirkjun þarf stöðugt að vera með það í endurskoðun hvernig auka megi sáttina við samfélagið og fá samræður um það sem við erum að gera. Í þeim tilgangi höfum við t.d. haldið opna fundi tvisvar á ári, þar sem allir eru velkomnir, og hafa þeir verið feikilega vel sóttir. Hver einasti fundur er fjölmennari en sá næsti á undan. Við sendum þessa fundi út beint á netinu á Youtube-rás Landsvirkjunar og nær 1.200 manns horfðu á ársfundinn okkar um daginn, auk þess sem 800 manns voru á staðnum. Það er tæplega 2.000 manns sem er mjög gott. Þetta þýðir að stefna fyrirtækisins hefur verið mótuð fyrir opnum tjöldum og hún verið rædd á leiðinni. Við höfum líka birt meðalraforkuverð til iðnfyrirtækja en eftir því hafði verið kallað og séð til þess að allir hafi aðgang að skýrslum og rannsóknum með rafrænum útgáfum á vef. Við höfum líka lagt áherslu á að starfa meira með háskólum landsins og hvetja þá til að ræða orkumál. Þar sjáum við heilmikla framþróun. Það sem við getum ennþá bætt er samráð við hagsmunahópa, einkum á fyrstu stigum verkefna, og hlusta ennþá betur. Landsvirkjun á ekki bara að tala við fólk, heldur líka hlusta. Við höfum lagt mikla áherslu á að hlusta á hagsmunahópa og koma til móts við þeirra sjónarmið þegar það er mögulegt. Ég finn ekki annað en að þetta sé að skila sér.“

Skemmtilegir tímar

– Var þessu ábótavant þegar þú komst hér inn?

„Ekki endilega. Þetta er bara nútíminn og sú þróun sem hefur orðið hjá mörgum fyrirtækjum. Ég held að Landsvirkjun hafi staðið sig ágætlega í þessum efnum á hverjum tíma en núna er krafan einfaldlega orðin meiri. Því meiri upplýsingar sem eru aðgengilegar þeim mun betra. Það er ekki síður okkar hagur en almennings enda minnkar það líkurnar á því að fólk dragi rangar ályktanir.“

– Á stórafmælum er við hæfi að horfa til framtíðar. Hvernig sérðu Landsvirkjun þróast á næstu árum og misserum?

„Það eru skemmtilegir tímar hjá Landsvirkjun og forréttindi fyrir okkur sem hér störfum að taka þátt í þeim verkefnum. Það eru miklar breytingar að eiga sér stað í umhverfi orkumála í heiminum sem eru að smitast til Íslands. Ég sé ekki annað en Landsvirkjun muni þróast og eflast á komandi árum. Við munum sjá fjölbreytt iðnfyrirtæki koma til landsins og orkuþekkingin mun stöðugt aukast og leiða til enn meiri verðmætasköpunar. Það er svo skemmtilegt við Landsvirkjun, ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum, að verkefnin halda áfram að eilífu. Við getum alveg treyst á að það rignir á Íslandi og á meðan svo er má segja að við séum að vinna með eilífðarvélar. Gangi rekstur fyrirtækisins áfram vel og náist full sátt um starfsemina ætti framtíð Landsvirkjunar að verða björt.“

Útivist og vínsmökkun

Hörður Arnarson er 52 ára gamall, fæddur 24. nóvember 1962. Hann er með doktorspróf í rafmagnsverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn og starfaði um langt árabil hjá Marel, þar af í áratug sem forstjóri, frá 1999 til 2009. Eftir það gegndi Hörður starfi forstjóra Sjóvar í skamman tíma og leiddi endurskipulagningu félagsins. Hann tók við starfi forstjóra Landsvirkjunar í nóvember 2009.

Hörður segir forstjórastarfið hjá Marel og Landsvirkjun alls ekki eins ólíkt og ætla mætti. „Bæði eru þetta verkfræðifyrirtæki. Meðan ég var hjá Marel stóð mikil uppbygging yfir og stöðugar breytingar og ég kom alls ekki inn í ólíkt umhverfi hér, miklar breytingar stóðu fyrir dyrum, bæði vegna endurskoðunar laga og nýrra aðstæðna á markaði. Vinna af þessu tagi hentar mér vel, að skapa hluti og vinna að breytingum. Ég hugsa að aðrir séu betri í að halda í horfinu.“

Spurður hvernig stjórnandi hann sé brosir Hörður í kampinn. „Það er líklega betra að spyrja aðra að því. Ég get þó sagt að ég legg mikla áherslu á að hafa gott fólk í kringum mig og hefur tekist það. Ég vil vinna með fólki sem ég treysti enda gef ég mínu starfsfólki alla jafna mikið svigrúm og leyfi því að gera mistök. Að því gefnu að það læri af mistökum sínum. Stefnumótun skiptir miklu máli í rekstri og þar vil ég að fólk leggi sitt af mörkum. Fyrirtæki þarf að vita hvert það stefnir.“

Hörður er giftur Guðnýju Hallgrímsdóttur sagnfræðingi og eiga þau þrjú uppkomin börn, Huldu dýralækni, Örnu verkfræðinema og Kristján tölvunarfræðinema. Arna á svo dótturina Valdísi Silju.

Lék körfubolta áður fyrr

Utan veggja skrifstofunnar hverfist líf Harðar og þeirra hjóna beggja að miklu leyti um útivist. Hann var mikið í íþróttum áður fyrr, lék meðal annars körfubolta í meistaraflokki með bæði Fram og Ármanni en þurfti að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla. Núna eiga hjólreiðar, gönguferðir, hestar og skíði hug hans allan og hefur Hörður ferðast vítt og breitt, innanlands og utan. „Ég er mikill náttúruunnandi og hef alltaf verið,“ segir hann. „Ég fæ útrás fyrir keppnina í hjólreiðunum en ég hef tekið þátt í hópakeppnum. Síðan er ég nýbyrjaður að stunda fjallaskíði en það er skemmtileg blanda af gönguferðum og skíðum og um leið heilmikil áskorun .“

Hörður hefur alla tíð lagt mikla áherslu á að vera í góðu líkamlegu formi enda sé það nauðsynlegt til að geta sinnt krefjandi starfi. Á síðasta ári fóru þau Guðný í gönguferð í Nepal, um slóðirnar sem verst urðu úti í náttúruhamförunum á dögunum. „Það hefur verið hrikalegt að fylgjast með fréttum af þessu og fólkið á svæðinu á samúð okkar alla. Nepal er mjög vanþróað land og má illa við svona áföllum.“

Spurður um önnur áhugamál kemur í ljós að Hörður hefur stundað vínsmökkun frá námsárunum í Danmörku. „Það er mikill vínkúltúr í Danmörku og ég hef verið í klúbbi síðan sem kemur reglulega saman til að smakka vín frá hinum og þessum héruðum. Ég geri ekki upp á milli rauðvíns og hvítvíns en á köldum vetrarkvöldum hér heima togar rauðvínið vissulega meira í mann. Það er stór vinahópur sem er saman í þessu sem hefur þekkst í yfir 30 ár. Við gætum þess þó að blanda þessu tvennu ekki saman, hjólreiðunum og vínsmökkuninni.“

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.