11. júní 2015 | Innlendar fréttir | 300 orð | 2 myndir

Andstaða gegn sæstrengnum

• Ef þarf að virkja er mikil andstaða við sæstreng til Bretlands samkvæmt nýrri könnun • Talið að strengurinn geti skilað gjaldeyrisinnstreymi til þjóðarbúsins

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Um 67% þeirra sem tóku afstöðu í könnun sem Gallup gerði fyrir hópinn Auðlindir okkar – áhugamannafélag um ábyrga nýtingu auðlinda Íslands eru andvíg lagningu sæstrengs til að selja raforku til Bretlands.
Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Um 67% þeirra sem tóku afstöðu í könnun sem Gallup gerði fyrir hópinn Auðlindir okkar – áhugamannafélag um ábyrga nýtingu auðlinda Íslands eru andvíg lagningu sæstrengs til að selja raforku til Bretlands.

Hópurinn fjármagnaði könnunina sjálfur og segir Viðar Garðarsson, meðlimur í hópnum, að niðurstaðan sé afgerandi. „Landsvirkjun er búin að tromma hér taktfast til að koma þessu barni sínu á framfæri. Mér finnst niðurstöðurnar merkilegar og gleðilegar. Það virðist sem fólk sé að gera sér grein fyrir því að sæstrengur verður ekki að veruleika nema það verði virkjað í hið minnsta í tveimur Kárahnúkavirkjunum.“

Fyrstu hugmyndir um að tengja íslenska raforkukerfið með sæstreng við Skotland voru settar fram fyrir meira en 60 árum en ljóst hefur verið lengi að slíkt væri hægt en ekki arðbært. Nú er þó komið annað hljóð í strokkinn, en samkvæmt Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans frá því í fyrra þar sem fjallað var um strenginn telur deildin að strengurinn geti skilað góðri arðsemi og umtalsverðu gjaldeyrisinnstreymi til þjóðarbúsins.

Viðar segir að komið hafi í ljós að undanförnu að strengurinn sé ekki sjálfbær og ekki sé hægt að selja í gegnum hann orku með framlegð nema breska ríkið sé tilbúið að greiða flutninginn niður á hinum endanum. „Samkeppnisregluverk ESB og þær reglur sem breska ríkisstjórnin hefur sett í þessu máli kveða á um að einungis sé hægt að fá niðurgreidda nýja græna orku. Það verða sem sagt að vera ný virkjun og ný græn orka sem framleiðir orku fyrir sæstrenginn. Þetta vill þjóðin ekki, það er ljóst og kemur skýrt fram í könnunni,“ segir hann.

Könnunin var gerð 19. maí-2. júní og voru 1.420 þátttakendur, 18 ára og eldri. Alls svöruðu 829 eða 58,4%. Þegar þau sem svöruðu „hvorki né“ eru tekin með í myndina voru 42% andvíg, 36,9% hlynnt og 21,1% hvorki né.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.