Magnús Guðjónsson fæddist á Ísafirði 24. nóvember 1925. Hann lést á Landspítalanum 16. maí 2015.

Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson, f. 29.9. 1876, d. 11.10. 1937, og Hansína Magnúsdóttir, f. 1.4. 1895, d. 3.8. 1971.

Magnús var einn af 4 systkinum, en þau eru Ólafía, f. 21. 8. 1918, d. 31. 1. 2001, Jens, f. 21.7. 1920, d. 9.8. 2010, og Skúli Rúnar, f. 6. 10. 1932.

Árið 1950 kvæntist Magnús eiginkonu sinni Þuríði Ólafsdóttur, f. 22.6. 1929, d. 25.9. 2011. Þau hófu búskap á Ísafirði en bjuggu síðan að mestu í Laugarneshverfi í Reykjavík, fyrst við Laugarnesveg og síðan við Laugalæk, eða frá 1952 til 2008 er þau fluttu að Strikinu 4, Garðabæ. Þau eignuðust 3 börn: 1) Guðjón, f. 1950, kona hans Jóhanna Smith f. 1955, d. 1995, þeirra dætur eru Unnur, f. 1978, sambýlismaður Hjalti Páll Sigurðsson, og Hildur, f. 1982. 2) Ólafur, f. 1952, kvæntur Tamöru Suturinu, f. 1952. Börn Ólafs eru: Ásta Björk, f. 1972, maki Sigurður Lárusson, börn þeirra eru Guðrún Ingibjörg, f. 1994, og Elísa Rut, f. 2011. Magnús, f. 1975, maki Jette Corfitzen, börn þeirra William, f. 2005, og Anna, f. 2009. Bjarni, f. 1980. 3) Jóhann, f. 1956, sambýliskona Valgerður Andrésdóttir, f. 1962. Börn Jóhanns eru Helga Kristín, f. 1985, Harpa Hrund, f. 1988, og Jón Atli, f. 1991, maki Ása Unnur Þorvaldsdóttir.

Útför hans fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 12. júní 2015, kl. 13.

Það eru líklega allir sammála um það að hann Maggi afi var einstaklega ljúfur og góður maður, yfirleitt í góðu skapi og þótti gott að hugsa um fólkið sitt. Ávallt fengum við systkinin hlýjar móttökur þegar við komum í heimsókn og þegar við vorum yngri átti afi alltaf smarties-stauka eða perubrjóstsykur til að gauka að barnabörnunum, við mikla gleði bæði gefanda og þiggjenda. Þegar við gistum hjá ömmu og afa á Laugalæknum var ýmislegt brallað, við lærðum að spila og leggja kapal og svo var golfið sameiginlegt áhugamál feðganna. Alltaf var eitthvað farið út og mjög oft í gönguferð um Laugardalinn, en afi fór nær daglega í gönguferðir.

Afi reyndi ýmislegt um ævina en meðal annars var hann sjómaður sem fékk sér Stjána bláa tattú, silfursmiður, átti efnalaug og spilaði í hljómsveit en amma og afi héldu alltaf stór jólaboð þar sem afi hélt uppi stemningu með píanó- og harmonikkuleik, líkt og hann gerði víst á böllunum í gamla daga.

Afi var mjög stríðinn og húmorinn var aldrei langt undan, hvort sem það var til að létta á andrúmsloftinu þegar samræður um pólitík voru komnar út í horn eða þegar yngstu barnabörnin báðu um ís – þá var svarið oft: „Ha, viljiði ís...uuuu?“

Auk þess að vera með mikinn húmor og stórt hjarta viljum við meina að afi hafi haft mikinn lífsvilja en hann var heilsuveill vegna hjartans síðustu árin og okkur systkinum hefur nokkrum sinnum verið tilkynnt að hann væri nú hætt kominn. Afi hlýtur að hafa haft einstaklega sterkt hjarta því alltaf jafnaði hann sig og eitt sinn var hann víst kominn út í garð að moka skurð nokkrum klukkutímum eftir hjartaaðgerð – og amma réði ekkert við hann! Við höfum því oft talað um að hann afi ætti níu líf. Það gæti þó líka verið að hann hafi ekki viljað kveðja á undan henni ömmu, því ósköp hugsaði hann vel um ömmu frá því við munum eftir okkur. Það er því huggun harmi gegn að vita af þeim sameinuðum í Sumarlandinu að hugsa hvort um annað.

Helga Kristín Jóhannsdóttir, Harpa Hrund

Jóhannsdóttir, Jón Atli

Jóhannsson.

Margs er að minnast þegar Magnús Guðjónsson silfursmiður kveður að loknu góðu dagsverki. Hann starfaði við silfurborðbúnaðarsmíði á gullöld hennar hér á landi. Magnús vann í Gull- og silfursmiðjunni Ernu frá sjötta áratugnum og fram á þann níunda og var mikill vinnuvíkingur. Yngri menn litu upp til Magnúsar og starfsmanna af hans kynslóð sem voru miklir hagleiksmenn og gáfu mikið af sér því vinnan gat verið erfið og slítandi. Magnús var músíkalskur og íþróttamaður mikill á yngri árum auk þess að vera listasmiður. Fjöldi fagurra muna leit dagsins ljós á þessum tíma og prýða mörg íslensk heimili. Allt litróf stjórnmálanna var að finna á kaffistofu verkstæðisins og voru umræður fjörugar og lærdómsríkar fyrir þá yngri.

Í seinni tíð komu þau Magnús og Þuríður heitin kona hans af og til við á gamla verkstæðinu, fengu sér kaffisopa og rifjuðu upp gamlar stundir. Eftir að Þuríður féll frá fækkaði heimsóknum en voru áfram dýrmætar og ánægjulegar, erum við þakklát fyrir tryggð þeirra og frændrækni.

Við sendum fjölskyldu og vinum okkar dýpstu samúðarkveðju.

Fyrir hönd starfsfólks Ernu hf,

Ásgeir Reynisson.