1. júlí 2015 | Aðsent efni | 660 orð | 1 mynd

Athugasemdir við grein Óla Grétars um sæstreng

Eftir Skúla Jóhannsson

Skúli Jóhannsson
Skúli Jóhannsson
Eftir Skúla Jóhannsson: "Menn ættu að forðast að tala í fyrirsögnum um þetta mikilvæga hagsmunamál Íslendinga."
Hér er vikið að grein Óla Grétars Blöndal Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, í Fréttablaðinu 23. júní 2015. Fyrirsögn greinarinnar var: „Sæstrengur þyrfti ekki að kalla á stórfelldar virkjanir.“

Óli Grétar leitast við að rökstyðja staðhæfingu fyrirsagnarinnar í greininni, en ég er ósammála ýmsu sem kemur fram hjá honum.

Landsvirkjun hefur síðastliðin fimm ár haft til endurskoðunar áætlanir um sæstreng frá Íslandi til Bretlands og áformar að ljúka verkinu á næstu 2-3 árum, samkvæmt frásögn Óla Grétars. Þó er ekki enn komin fram áætlun um sjálfa framkvæmdina, en það er algjör forsenda vitrænnar umræðu um málið. Nauðsynlegt er að gefa sér forsendur um flutningsgetu, fjölda leiðara, landtökustaði, staðsetningu áriðils- og afriðilsstöðva, aðferð við niðurlagningu kapalsins, niðurgröft í sjávarbotninn og/eða grjótvarnir á leiðinni og þannig mætti lengi telja. Vonandi fer kostnaðaráætlun að líta dagsins ljós á næstunni?

Óli Grétar telur að orkuþörf til útflutnings um sæstreng frá Íslandi til Bretlands muni verða 5 TWh/ári, en tilurð þessarar orku væri með eftirfarandi hætti: „Strönduð orka“ vegna einangrunar íslenska raforkukerfisins 2,0 TWh/ári. Vindorka og smærri jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir 1,5 TWh/ári. Hefðbundnir orkukostir – vatnsafl og jarðvarmi 1,5 TWh/ári.

Skoðum nú hvern lið fyrir sig.

Strönduð orka

Strönduð orka upp á 2,0 TWh/ári, sem Óli Grétar nefnir, hefur jafnan verið kölluð umframorka. Í framsetningu Landsvirkjunar á síðustu misserum hefur komið fram eftirfarandi greining á þessari umframorku: Stækkanir núverandi virkjana 0,5 TWh/ári. Ótrygg orka vegna breytilegs rennslis 0,6 TWh/ári. Óseld orka 0,5 TWh/ári. Ótekin orka 0,4 TWh/ári.

Samkvæmt þessu er ekki gert ráð fyrir innflutningi á raforku til Íslands og er ég alveg sammála því.

Það væri áhugavert að sjá mat Landsvirkjunar á breytileika (óvissu eða líkindadreifingu) þessara talna. Það gæti orðið liður í að áætla nýtingu sæstrengsins, en varla getur verið arðbært að keyra hann á lágum nýtingartíma.

Vafasamt er að við núverandi aðstæður verði hagkvæmt að auka afl starfandi virkjana nema þá helst Búrfellsvirkjunar. Nær væri að nota fjármagnið í að reisa vatnsaflsvirkjanir á nýjum virkjunarstöðum.

Óljóst er hvort stækkanir á núverandi virkjunum mundu verða fullgildir aðilar að breska kerfinu fyrir mismunargreiðslu (CfD Contract for Difference). Fullgildir aðilar að kerfinu eru aðeins nýjar kolefnislausar virkjanir og þarf að gera sérstakan samning um hverja og eina. Alls óvíst er og reyndar hverfandi líkur á að orkuframleiðsla í þeim flokkum, sem Óli Grétar nefnir í flokknum strönduð orka, muni komast að í breska CfD-kerfinu. Þetta skiptir sköpum því verð, sem þar er boðið upp á, getur verið um 200% hærra en gengur og gerist á hinum almenna heildsölumarkaði.

Vindorka og smærri jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir

Til að framleiða 1,5 TWh/ári í vindorku þarf vindlund(i) upp á um 500 MW. Nær óhugsandi er annað en að samhliða því þurfi að reisa dælustöð í nágrenni vindlundanna. Með dælustöð væri skrykkjótt framleiðsla vindstöðva notuð til að dæla vatni frá neðra lóni í efra lón en stýranleg raforka síðan framleidd samkvæmt þörfum markaðar með því að láta vatnið falla gegnum vatnshverfil frá efra lóni til baka niður í neðra lón. Nýjar dælustöðvar (pumped storage) á Bretlandi eru fullgildir aðilar að CfD-kerfinu fyrir mismunargreiðslur. Sama gildir um vindmyllur á landi en þær þurfa að vera >5 MW.

Með smærri jarðvarmavirkjunum er átt við lághitavirkjanir og með smærri vatnsaflsvirkjunum er væntanlega átt við bændavirkjanir. Breska CfD-kerfið fyrir mismunargreiðslur gerir ráð fyrir nýjum vatnsaflsvirkjunum á bilinu 5-50 MW, en flestar bændavirkjanir á Íslandi verða að öllum líkindum minni en 5 MW. Smávirkjanir í þessu magni rísa væntanlega á löngu tímabili og reyndar er vafasamt að stilla þeim upp sem bakhjarli fyrir rekstur á stóreflis sæstreng til Bretlands.

Hefðbundnir orkukostir – vatnsafl og jarðvarmi

Óli Grétar gerir ráð fyrir að einungis 30% af orkunni þurfi að koma frá stærri vatnsafls- og/eða jarðvarmavirkjunum. Í ljósi þess, sem komið hefur fram hér að framan, þá þyrfti þessi hlutdeild að vera miklu meiri.

Menn ættu að forðast að tala í fyrirsögnum um þetta mikilvæga hagsmunamál Íslendinga. Stærðargráðan er slík að við verðum að tala af ábyrgð þegar kostir og gallar, afrakstur og áhættuþættir eru metnir.

Höfundur er verkfræðingur.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.