AIIB Fulltrúar 50 stofnríkja Innviðafjárfestingarbanka Asíu í Peking í fyrradag að lokinni staðfestingu stofnskrár.
AIIB Fulltrúar 50 stofnríkja Innviðafjárfestingarbanka Asíu í Peking í fyrradag að lokinni staðfestingu stofnskrár. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Stofnskrá Innviðafjárfestingarbanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB), sem Ísland er stofnaðili að, var samþykkt á ráðherrafundi stofnríkja bankans í Peking í fyrradag.
Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Stofnskrá Innviðafjárfestingarbanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB), sem Ísland er stofnaðili að, var samþykkt á ráðherrafundi stofnríkja bankans í Peking í fyrradag. Ragnar Baldursson sendifulltrúi skrifaði undir fyrir hönd Íslands. Þá var ákveðið að stefna að kosningu forseta bankans á sjötta undirbúningsfundi stofnríkja, sem haldinn verður í Tíblisi í ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Þar kemur jafnframt fram að AIIB er fjárfestingar- og þróunarbanki sem mun styðja aðgerðir til að efla innviði í Asíu. „Aðild Íslands að bankanum getur þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu, og er ætlað að styrkja góð samskipti Íslands og Asíuríkja. Stofnfjárhlutur Íslands miðast við stærð hagkerfisins og er um 0,018% af heildar stofnfé bankans. Sem stofnaðili verður atkvæðavægi Íslands þó mun hærra, eða um 0,28%,“ segir orðrétt í tilkynningu ráðuneytisins.

Bandaríkin og Japan ekki með

Á heimasíðu AIIB kemur fram að stofnþjóðirnar séu 50 talsins, þar á meðal Bretland, Þýskaland, öll Norðurlandaríkin, Ástralía og Suður-Kórea. Hvorki Bandaríkin né Japan eru meðal stofnþjóða, enda höfðu báðar þjóðir lýst sig andvígar stofnun bankans. Gert er ráð fyrir að sjö aðrar þjóðir bætist við sem hluthafar á árinu.Upphaflegt stofnfé bankans er 50 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 6.600 milljörðum króna, en til stendur að tvöfalda það fyrir árslok, í 13.200 milljarða króna.

0,018% stofnhlutur Íslands nemur því um 17,6 milljónum Bandaríkjadala, eða 2,33 milljörðum íslenskra króna. Þar af koma eingöngu 20% fjárhæðarinnar til greiðslu, en 80% stofnfjár getur bankinn kallað eftir ef þörf er á (stofnfjárloforð). Hið inngreidda stofnfé verður samkvæmt þessu um 470 milljónir króna, sem greiðist í fimm hlutum á fyrstu tveimur árum í starfsemi bankans, samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins.

Í frétt BBC kemur fram að Kína muni fara með liðlega 30% hlut í bankanum og verða stærsti einstaki hluthafinn, með 26% vægi atkvæða. Indland verður annar stærsti hluthafinn, Rússland þriðji stærsti og Þýskaland fjórði stærsti.

Ábyrgðarhluti að vera ekki með

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að samstaða hafi verið um það í ríkisstjórninni að Ísland yrði stofnfjáraðili að AIIB, Innviðafjárfestingarbanka Asíu. Hann telur mestan ávinning í því fyrir Ísland að vera með í bankanum frá upphafi frekar en að reyna að kaupa sig inn í hann seinna.

„Það gerðist bara á nokkrum sólarhringum, þegar átti að fara að loka stofnskránni og mikill fjöldi annarra bandamanna okkar en Bandaríkjamenn ákvað að vera með, að við ákváðum að vera með,“ sagði fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hann sagði að menn hefðu eðlilega spurt spurninga eins og þeirrar hvar vöxturinn yrði í framtíðinni og hvar eftirspurn myndi helst aukast. „Þetta er í raun og veru tvíþætt: Annars vegar er þetta fjárfesting og hins vegar er þetta leið til þess að greiða fyrir íslenskum aðilum sem ætla að fara í uppbyggingarverkefni á starfs svæði bankans í Asíu. Mér finnst það hefði verið meiri ábyrgðarhluti að vera ekki með en að taka þátt. Við erum að opna með þessu fyrir íslenska aðila sem munu sækjast eftir fyrirgreiðslu frá bankanum vegna verkefna í Asíu,“ sagði Bjarni.