Jóhannes Loftsson
Jóhannes Loftsson
Eftir Jóhannes Loftsson: "...nothæfisstuðullinn, sem þessi aðilar bera fyrir sig, byggir á útreikningum verkfræðistofunnar Eflu, sem eru með stórum reikniskekkjum og standast engan veginn íslenskar lagakröfur."

Í nýlegri aðsendri grein til Morgunblaðsins (9. júní) benti ég á nokkrar meiriháttar skekkjur í nýlegri skýrslu sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Isavia til að meta nothæfisstuðul Reykjavíkurflugvallar. Í útreikningum skýrsluhöfunda var brugðið frá ráðleggingum ICAO að því leyti að nothæfisstuðull var ekki reiknaður fyrir minni flugvélar heldur eingöngu fyrir stærri flugvélar sem þola meiri hliðarvind. Ekki var heldur tekið tillit til brautaraðstæðna sem hafa áhrif á lendingarskilyrði, eins og ísingar, snjófærðar og vindhviða, og eingöngu var stuðst við nýlegar veðurmælingar frá tiltölulega hlýjum og mildum árum, þrátt fyrir að ýmis merki séu á lofti um að viðsnúningur í áratugasjávarstraumasveiflum og minnkandi sólvirkni gætu valdi kaldari tímum fram undan. Þessi aðferðafræði er ekki í samræmi við íslensk lög, því að aðferðafræðin við mat á nothæfisstuðli sem lýst er í reglugerð 464/2007 byggir einmitt á leiðbeiningum ICAO.

Flugvellir standast ekki lagakröfur

Í töflu 1 bls. 17 og víða annars staðar í Rögnuskýrslu kemur fram að útreikningar á nothæfisstuðli Hvassahraunsflugvallar miði við 13 hnúta hámarks hliðarvind, en það er gildi sem samkvæmt íslenskri reglugerð má eingöngu nota fyrir stærri flugvélar. Ekki eru birtar niðurstöður útreikninga fyrir minni vélar sem þola minni hliðarvind, þrátt fyrir að sagt sé að útreikningar á þeim hafi farið fram. Þetta er mjög undarleg framsetning í ljósi þess að nothæfisstuðull minni vélanna er sá þáttur sem er takmarkandi fyrir hönnun flugvallarins. Að ekki skuli birtur nothæfisstuðul fyrir þessar vélar bendir til þess að skýrsluhöfundar telji viðunandi að miða hönnunina við að tryggja öryggi sumra flugvéla, en ekki allra. Slíkt væri galin nálgun sem stæðist ekki lög.

Í reglugerð 464/2007 grein 3.1.3 í VI hluta er fjallað um mat á leyfilegum hliðarvindstuðli og þar segir m.a. að hann eigi að vera að hámarki: „-19 km/klst. (10 hnútar) hvað varðar flugvélar með viðmiðunarflugtaksvegalengd undir 1200 m.“ Stærsta sjúkraflugvél hjá Mýflugi, Beechcraft Kingair 200, er með viðmiðunarflugtaksvegalengd 592 m. Hér væri því um nokkuð augljóst lögbrot að ræða. Reglugerðin er aðgengileg á netinu (www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/464-2007) og getur því hver sem er, meira að segja þeir sem eru í Rögnunefnd, kynnt sér hana.

Það að ekki hafi verið tekið tillit til sjúkraflugs er síðan sérstaklega alvarlegt í ljósi mikilvægi þess. Reynt er að fljúga sjúkraflug í öllum veðrum, og þar sem líf sjúklingsins er oft í hættu er aukinn þrýstingur á sjúkraflugmenn að reyna lendingu þó að aðstæður séu erfiðar.

Fyrir utan þessa yfirsjón virðist Rögnuskýrsla einnig hafa fallið í þá gryfju að nota aðeins veðurgögn frá hlýjum mildum árum (2001-2009), auk þess sem hvergi er minnst á hvernig áhrif brautarskilyrða (ísing, snjófærð o.fl.) eru tekin inn í útreikninga en tekið fram í töflu 1 að vindhviður séu ekki teknar með í útreikningana. Þetta eru nákvæmlega sömu skekkjur og komu fram í nýlegri skýrslu Eflu og þar sem ráðleggingu ICAO var ekki fylgt. Í samanburði við Vatnsmýrina kemur einnig fram að Hvassahraun sé bæði vindasamara og vetrarfrost þar töluvert tíðara. Út frá þessu er nokkuð óhætt að fullyrða að nær engar líkur séu á að tveggja brauta völlur eins og skýrsluhöfundar leggja til að verðir byggður í Hvassahrauni geti verið löglegur.

Í framhaldi af útgáfu skýrslunnar hafa ýmsir reyndir flugmenn stigið fram og lýst yfir að það væru mistök að byggja flugvöll í Hvassahrauni. M.a. hefur verið bent á að könnun á flugvallarstæði á þessum slóðum fyrir um 55 árum hafi sýnt að of mikil ókyrrð væri í lofti til að flugvallarstæðið þætti fýsilegur kostur og árið 2001 gaf flugráð út að Hvassahraun væri langversti kosturinn sem það skoðaði. Í ljósi þessa má jafnvel efast um að rekstur þriggja brauta flugvallar geti gengið þar.

Grunnforsendur Rögnuskýrslu standast engan veginn, því að allir flugvallarkostirnir sem eru kostnaðarreiknaðir eru tveggja brauta og því líklega ólöglegir. Óráðlegt er að eyða meira opinberu fé í nokkra könnun á svæðinu fyrr en hæfir aðilar hafa verið fengnir í að reikna nothæfisstuðulinn.

Lokun neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar yrði lögbrot

Vegna áhrifa ýmissa hagsmunaaðila hefur undanfarið verið settur verulegur þrýstingur á að neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar verði lokað. Vandamálið er hins vegar það að nothæfisstuðullinn sem þessi aðilar bera fyrir sig byggir á útreikningum verkfræðistofunnar Eflu, sem eru með stórum reikniskekkjum og standast engan veginn íslenskar lagakröfur. Lokun brautarinnar yrði því ólögleg.

Mikilvægt er að allir þeir sem koma að þessum málum átti sig á því að þótt einhverir aðilar sjái sér hag í því að loka neyðarbrautinni hafa óskir þeirra einar sér engin áhrif á þá raunverulegu veðurþætti sem ráða flugörygginu. Með einföldum hætti má sýna fram á að hér er um klárt lögbrot að ræða enda er ljóst að líf eru að veði ef slakað verður á flugöryggi.

Höfundur er verkfræðingur og frumkvöðull.