14. júlí 2015 | Aðsent efni | 621 orð | 1 mynd

Sviðsmynd Landsvirkjunar og sæstrengsumræðan

Eftir Elías Elíasson

Elías Elíasson
Elías Elíasson
Eftir Elías Elíasson: "Bæði vindmyllur og stækkanir eldri virkjana gefa af sér ótrygga orku og þegar mögulegar bilanir eins sæstrengs eru teknar með, þá verður afhendingin enn ótryggari."
Margir hafa undanfarið séð ástæðu til að stinga niður penna og fjalla um sæstreng. Nú síðast Ketill Sigurjónsson á mbl.is, erindi hans þar virðist helst það, að allir þeir sem ekki hrópa „hallelúja“ yfir sæstrengnum hljóti að bera hagsmuni stóriðjunnar fyrir brjósti. Þetta er ömurlegur málflutningur.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur hvatt til opinnar þjóðfélagsumræðu um sæstrenginn og erindi Skúla Jóhannssonar og fleiri hefur verið að kalla eftir einhverjum málefnalegum upplýsingum inn í þá umræðu. Þó að grein Óla Grétars Blöndal Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, snúist mest um gamlar lummur, sem erfitt er fyrir venjulega menn að sjá hvað merkja, þá leynast þar upplýsingar. Sviðsmynd Landsvirkjunar í málinu er 1.000 MW sæstrengur og orkuflutningur um hann yrði um 5 TWh á ári og orkuöflunin skiptist þannig: 2 TWh/ár frá ótilgreindri stækkun eldri virkjana, 1,5 TWh/ár frá vindmyllum og 1,5 TWh/ár frá nýjum virkjunum. Þau 300 til 400 MW af vindmyllum sem til þarf eru tæknilega í lagi, en umhverfismat liggur ekki fyrir þótt Landsvirkjun vinni að því. Þau 200 MW af jarðvarmavirkjunum sem til þarf rúmast ef til vill innan rammaáætlunar, en það, hvort orka jarðvarmasvæðanna er nægilega sönnuð liggur heldur ekki fyrir. Það sem mönnum sýnist óraunhæft í þessu er, að þessar allt að 2 TWh/ár frá eldra kerfi kunna að krefjast svo mikillar stækkunar eldri virkjana, að jaðarávinningur væri kominn langt niður fyrir kostnað þótt verð væri hátt. Þá er hætt við, að samanlagt fari allt aflið, stækkanir, jarðvarmi og vindur, yfir afl Kárahnjúkavirkjunar, 690 MW. Þetta atriði þarf Landsvirkjun að skýra betur.

Berum þessa sviðsmynd Landsvirkjunar saman við þá sviðsmynd Breta sem Charles Hendry, fyrrverandi orku- og umhverfisráðherra Bretlands, lýsti á ráðstefnu Kjarnans og Íslenskra verðbréfa um fjárfestingu í sæstreng til Bretlands 20/4-2015. Hann talaði um tvo sæstrengi, 600 MW hvorn um sig. Orkuflutningur um þessa strengi yrði væntanlega 7,5 TWh/ár og þá orku má fá með um 530 MW af jarðvarmavirkjunum, 400 MW af vindmyllum og 250 MW stækkun eldri virkjana Landsvirkjunar. Þetta er töluvert stærri sviðsmynd.

Stóri munurinn milli þessara sviðsmynda er þó ekki stærð þeirra, heldur afhendingaröryggi orkunnar í Bretlandi. Bæði vindmyllur og stækkanir eldri virkjana gefa af sér ótrygga orku og þegar mögulegar bilanir eins sæstrengs eru teknar með, þá verður afhendingin enn ótryggari. Að hafa strengina tvo bætir öryggið verulega.

Vissulega bjóða Bretar hátt verð fyrir orkuna. Frá því þarf þó að draga háan flutningskostnað um sæstreng, sem verður því hærri sem strengurinn er verr nýttur. Landsvirkjun virðist gera ráð fyrir tæplega 60% nýtingu, en sviðsmynd Mr. Hendry um 75%.

Munur sviðsmyndanna er, þrátt fyrir allt, þó ekki meiri en svo, að ef áhugi Íslendinga væri jafn mikill og Breta, eins og Mr. Hendry lýsti honum, þá væri bara handavinna að berja þetta saman. Gallinn er hinsvegar sá, að við erum ekki lengur að tala um orkukerfi með yfirfljótandi orku eins og var fyrir fimm árum. Nú er búið að semja um svo mikla orkusölu, að Landsvirkjun getur ekki fullgilt þá samninga nema virkja meira. Sæstrengurinn kemur þá ofan á því sem næst fullnýtt kerfi. Þegar enn er skrifað eins og hægt sé að ná allt að 10% betri nýtni úr kerfinu, án þess að kosta nokkru til, sæmir það varla Landsvirkjun.

Áhugaleysi ráðherra í þessu máli er meira en skiljanlegt. Hann hefur þrjá eða fleiri stóriðjukosti tilbúna fyrir skófluna, meðan lega sæstrengsins hefur hvorki verið ákveðin né rannsökuð. Hann sér líka fram á miklu meiri skuldsetningu þjóðarinnar vegna virkjana fyrir sæstrenginn. Auk þess þyrfti ráðherrann þegar í stað að senda heilan her af sérfræðingum til að rannsaka jarðvarmasvæðin, ef semja ætti núna.

Við eigum að flýta okkur hægt í virkjunarmálum. Maður hendir ekki strútseggi niður í körfu með gæsareggjum, maður leggur það varlega niður.

Höfundur er fv. sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.