17. júlí 2015 | Innlendar fréttir | 654 orð | 2 myndir

Sæstrengur sniðinn að stefnu ESB

• Evrópusambandið leggur mikla áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og samtengingu raforkumarkaða þvert á landamæri • Íslensk stjórnvöld hafa ekki hafið viðræður við Breta um sæstreng

Landsvirkjun Á ársfundi Landsvirkjunar nú í maí var töluvert rætt um sæstreng, kom hann meðal annars fram í máli forseta Íslands. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld ekki hafið viðræður við Breta um lagningu strengsins.
Landsvirkjun Á ársfundi Landsvirkjunar nú í maí var töluvert rætt um sæstreng, kom hann meðal annars fram í máli forseta Íslands. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld ekki hafið viðræður við Breta um lagningu strengsins. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísak Rúnarsson isak@mbl.is Orkumálaráðherra Evrópu, fyrir hönd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur lagt fram drög að nýrri stefnu Evrópusambandsins í orkumálum til opinberrar umfjöllunar.
Ísak Rúnarsson

isak@mbl.is

Orkumálaráðherra Evrópu, fyrir hönd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur lagt fram drög að nýrri stefnu Evrópusambandsins í orkumálum til opinberrar umfjöllunar. Í stefnumótuninni er lögð aukin áhersla á endurnýjanlega orkugjafa og tengingu orkukerfa á milli landa. Breytingar á innri markaði ESB hafa áhrif á Ísland í gegnum EES löggjöfina.

Lögð er sérstök áhersla á að fjármagna innviðauppbyggingu sem snýr að samtengingu orkumarkaða á milli landamæra. Áður hafa ýmis slík verkefni verið studd, m.a. lagning sæstrengs frá Noregi til Bretlands. Þessi vinna kann að hafa áhrif á möguleikann að tengja orkukerfi Íslands með sæstreng til Bretlands.

Uppistöðulón eru risarafhlöður

Í stefnudrögunum er lýst yfir vilja til þess að efla geymslugetu á raforku. Geymsla á rafmagni í miklum mæli er eitt af stærstu tæknilegu vandamálum samtímans. Í raun hefur lítið þokast í þeirri þróun undanfarna áratugi og uppistöðulón vatnsaflsvirkjana eru enn langhagkvæmasti geymslumöguleikinn fyrir rafmagn. Með vatnsafli er hægt að kalla eftir rafmagni með stuttum fyrirvara þegar þörf er á. Vind- og sólarorkugarðar Evrópu hafa vaxið hratt en þeir framleiða einungis rafmagn þegar vindurinn blæs og/eða sólin skín. Stýranleiki vatnsafls er því enn yfirburða aflgjafi fyrir samfélög sem treysta í auknum mæli á að raforkukerfið sé alltaf í lagi. Önnur af stóru áherslunum er sú að Evrópa verði sjálfbær um orku en margar Evrópuþjóðir reiða sig á gas frá Rússlandi. Þegar Jean-Claude Juncker framkvæmdastjóri Evrópusambandsins tók við embætti birti hann lista yfir fimm helstu forgangsmál sín en orkumál voru þar í öðru sæti. Sérstaklega var tekið fram í yfirlýsingu að þó að Evrópa vildi halda mörkuðum opnum fyrir erlendum aðilum þá ætti Evrópa að tryggja sér aðgang að öðrum orkukostum ef verð á orku frá austrinu yrði of hátt í viðskiptalegum eða pólitískum skilningi. Versnandi samskipti Evrópu og Rússlands í kjölfar ástandsins í Úkraínu hafa aukið enn á umræðu um orkusjálfbærni Evrópuríkja.

Möguleikar á Íslandssæstreng

„Ísland býr að mjög öflugu raforkukerfi. Þróun í orkumálum Evrópu síðustu 10-15 ár hefur hins vegar gjörbreytt möguleikum okkar til að nýta kerfið enn betur,“ segir Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun. „Sveigjanleiki vatnsaflsins er orðinn miklu mikilvægari en áður. Okkur tekst hins vegar ekki að gera verðmæti úr honum í einangruðu raforkukerfi Íslands. Sæstrengur myndi auka möguleika til að auka verðmætasköpun á Íslandi með aðgangi að öðruvísi markaði en við höfum nú. Þetta eru Norðmenn að gera með sínum sæstrengjum.“ Björgvin segir að raunhæft mat á fýsileika sæstrengs fari ekki fram án þess að samtal breskra og íslenskra stjórnvalda eigi sér stað. „Íslensk stjórnvöld hafa ekki ennþá spurt Breta hvað áhugi þeirra á sæstreng þýði í raun. Eru Bretar tilbúnir að taka áhættuna af því að þessi sæstrengur bili, eru þeir tilbúnir til að fjármagna verkefnið?“

Björgvin segir að bresk stjórnvöld hafi stutt við ýmis önnur orkuverkefni í landinu með sérstökum hætti, m.a. ábyrgjast þau 65% af fjármagnskostnaði við nýtt kjarnorkuver í Bretlandi, sem Kínverjar munu reisa, sem og verðtryggt raforkuverð til 35 ára.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur nú látið vinna skýrslu sem á að meta áhrif lagningar sæstrengs á íslenskt samfélag. MP-Straumur mun annast skýrslugerðina en ráðherra hefur þó einnig bent á að verði sæstrengur að veruleika þá geti Íslendingar ekki lengur sagst eingöngu búa yfir hreinni orku þar sem bein tenging verði inn í evrópska orkukerfið.

Enn margir óvissuþættir

Hagfræðistofnun ráðgerir að kostnaður við sæstreng sé 278 ma. en kostnaður við þær virkjanir sem ráðast þarf í sé um 164 ma. Hins vegar hefur Bloomberg New Energy Finance áætlað kostnaðinn um 400 ma. en það sýnir hversu margir óvissuþættirnir eru enn.

Áætlað er að strengurinn verði 800 MW sem þýðir að heildarafkastageta hans verði 7 TWs. Landsvirkjun gerir ráð fyrir að selja um 5 TWs á ári, þar af er talið að 2 TWs séu nú þegar inni í kerfinu, að vindorka ásamt smærri virkjunum geti staðið undir 1,5 TWs og að hefðbundnar vatnsafls- og jarðhitavirkjanir muni standa undir 1,5 TWs. Það jafngildir því að virkja þurfi fyrir um 170 MW.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.