[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Páll fæddist í Vestmannaeyjum 25.7. 1930 og ólst þar upp: „Ég var aldrei skammaður nema þegar ég gleymdi að koma heim á kvöldin. Það kom stundum fyrir þegar við strákarnir vorum að stelast í skekturnar.

Páll fæddist í Vestmannaeyjum 25.7. 1930 og ólst þar upp: „Ég var aldrei skammaður nema þegar ég gleymdi að koma heim á kvöldin. Það kom stundum fyrir þegar við strákarnir vorum að stelast í skekturnar. Það var ekki viðlegupláss fyrir alla þess báta í Vestmannaeyjahöfn svo þeir lágu gjarnan við streng og þurfti þá að fara út í þá á skektum sem alltaf lágu á lausu og við strákarnir stálumst í. Þarna rerum við þangað við vorum sóttir í háttinn.“

Páll var í Barnaskóla Vestmannaeyja þar sem faðir hans var skólastjóri, var síðan í Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja, stundaði nám við Kennaraskóla Íslands og lauk kennaraprófi 1949, stundaði nám við myndlistardeild Manitoba-háskóla 1950, nám í bókmenntum og líffræði við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn 1964-65 og stundaði þá jafnframt nám við Kúnstakademíuna í Kaupmannahöfn. Síðar stundaði hann nám í kvikmyndagerð við New York-háskóla frá 1972 og lauk þaðan prófum í ársbyrjun 1973: „Það var tilviljun hvernig ég leiddist út í kvikmyndagerð: Þýskur maður að nafni Hermann Schlenker var hér á landi upp úr 1960, varð blankur og þurfti að selja mér ljósmyndavél og linsur til að hafa fyrir farinu heim aftur. Nokkrum árum síðar endurtók sagan sig og hann seldi mér Bolex-kvikmyndavél. Sex mánuðum síðar var ég kominn til New York í kvikmyndanám.“

Páll vann í fiski frá barnsaldri enda gefið frí í skólanum þegar aflahrotur komu. Hann ísaði á bryggjunum frá tólf ára aldri og var til sjós á bát frá Eyjum.

Páll fór til Kanada 1950, var þar fyrst í Gimli og síðar járnbrautarþjónn í Winnipeg. Hann kenndi við Barnaskólann í Vestmannaeyjum frá hausti 1949-50 og 1952-54 og kenndi síðan við gagnfræðaskólann þar til 1971. Auk þess stofnaði hann Myndlistarskóla Vestmannaeyja 1953 og starfrækti hann í 17 ár. Hann var auk þess stundakennari við Iðnskólann í Vestmannaeyjum á árunum 1967-70.

Eftir kvikmyndanámið fór Páll til Vestmannaeyja til að kvikmynda eldgosið í Eyjum. Hann var þá í félagi við austurríska kvikmyndagerðarmanninn Ernst Kettler og saman gerðu þeir heimildarmyndina Days of Destruction sem hlaut gullverðlaun á kvikmyndahátið í Atlanta 1973.

Páll hefur verið kvikmyndagerðarmaður á eigin vegum frá 1973. Hann er einn afkastamesti, víðfrægasti og virtasti kvikmyndagerðarmaður heimildarmynda hér á landi og hefur gert 69 heimildarmyndir á síðustu 24 árum. Meðal þeirra eru Undur vatnsins; Öræfakyrrð, með Magnúsi Magnússyni; Litli bróðir í norðri; Hrafninn flýgur um aftaninn; Skarfar – einstök aðlögun; Krían; Spóinn var að vella: Ísaldarhesturinn og Vulcan Eruptions and Ash.

Meðal mynda sem hann hefur fengið verðlaun og viðurkenningar fyrir eru Eider and Man; Litle Brother in the North; The Iceage Horse; World of Solitude; Wonders of Wather og Expert Survivals – Cormorants and Shags. Hann fékk Edduverðlaunin fyrir heimildarkvikmyndir árið 2004 og var kjörinn Borgarlistamaður Reykjavíkurborgar.

Páll er enn á fullu við gerð heimildarmynda og vinnur við þær á hverjum degi, ásamt sínum aðstoðarmönnum: „Ég hef verið einstaklega heppinn í kvikmyndagerðinni þar sem myndum mínum hefur hvarvetna og alla tíð verið vel tekið erlendis. Ég hef því getað sinnt þessu starfi af kostgæfni og er enn að, því starfið kallar stöðugt á mig.“

Páll er félagi í Bjargveiðifélagi Vestmannaeyja í veiðineyti Helliseyjar.

Fjölskylda

Fyrri eiginkona Páls var Edda Guðrún Sveinsdóttir, f. 26.3. 1935, d. 20.4. 2002, húsfreyja. Hún var dóttir Sveins Benediktssonar, f. 12.5. 1905, d. 12.2. 1979, framkvæmdastjóra í Reykjavík, og Gunnhildar Ólafsdóttur, f. 24.3. 1907, d. 31.7. 1966, saumakonu í Vestmannaeyjum.

Börn Páls og Eddu Guðrúnar eru Gunnhildur, f. 1.11. 1953, myndlistarmaður og kennari í Hafnarfirði, en maður hennar er Trausti Baldursson, líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun og eru synir þeirra Smyrill og Víðir; Steingrímur Dufþakur, f. 12.12. 1963, sölumaður í Kópavogi og eru börn hans Edda Ósk og Páll Fáfnir, og Ólöf Sylvía, f. 12.11. 1966, verslunarmaður í Kópavogi og eru börn hennar Eiður Örn og Alexandra Grétarsbörn.

Seinni kona Páls var Þuríður Fannberg (Rúrí), f. 20.2. 1951, myndlistarmaður. Foreldrar hennar: Sigríður G.J. Fannberg, f. 3.6. 1921, húsfreyja, og Árni J. Fannberg, f. 1.2. 1924, d. 27.4. 1996, forstjóri.

Bræður Páls: Benedikt Steingrímsson, f. 14.7. 1926, d. 1.7. 1995,. fulltrúi hjá Orkukveitunni í Reykjavík; Jón Helgi Steingrímsson, f. 25.1. 1932, d. 31.1. 1951, tónlistarmaður; Gísli Steingrínsson, f. 5.8. 1934, málarameistari í Reykjavík; Svavar Steingrímsson, f. 24.5. 1936, pípulagningameistari í Vestmannaeyjum, og Bragi Steingrímsson, f. 1.1. 1944, plötusmiður og Helliseyjarjarl í Vestmannaeyjum.

Foreldrar Páls voru Steingrímur Benediktsson, f. 20.5. 1901, d. 23.11. 1971, kennari og skólastjóri í Vestmannaeyjum, og k.h., Hallfríður Ingibjörg Kristjánsdóttir, f. 14.12. 1899, d. 24.3. 1967, húsfreyja.