Yöntrur Helga Sigurðardóttir og Viðar Aðalsteinsson: „Málverkin höfða sérstaklega til þeirra sem kjósa að hlúa vel að sér og vilja upplifa áþreifanlega hamingju og grósku í sínu lífi.“
Yöntrur Helga Sigurðardóttir og Viðar Aðalsteinsson: „Málverkin höfða sérstaklega til þeirra sem kjósa að hlúa vel að sér og vilja upplifa áþreifanlega hamingju og grósku í sínu lífi.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Yöntrur og tónheilun nefnist viðburður í Jógastúdíói þar sem gestir Menningarnætur geta upplifað kyrrð og ró, hlýtt á söng og framandi tóna og notið orkunnar frá Yöntru-verkum úr smiðju listahjónanna Helgu Sigurðardóttur og Viðars Aðalsteinssonar.

Yöntru-málverkin eru til þess gerð að auka vellíðan, enda er yfirskrift þeirra Nærandi list,“ segja hjónin Helga Sigurðardóttir og Viðar Aðalsteinsson sem saman standa að viðburðinum Yöntrur og tónheilun í Jógastúdíói, Ánanaustum, á Menningarnótt. „Gestum býðst að upplifa slökun, kyrrð og ró í magnaðri orku litríkra Yöntru-listaverka og njóta söngs og heilandi tóna, þar sem leikið verður á kristalsskálar.“

Viðar og Helga eru tvíeykið að baki listakonseptinu Yantra Paintings, Yöntru-málverk, sem þau kynntu fyrst til sögunnar á Menningarnótt 2012. „Málverkin eru unnin eftir innri íhugun og tengingu við heilandi strauma miðjutáknsins, sem og eiginleika þeirra lita sem prýða hvert og eitt verk. Málverkin höfða sérstaklega til þeirra sem kjósa að hlúa vel að sér og vilja upplifa áþreifanlega hamingju og grósku í sínu lífi.“

Hefðir hindúa

Yantra táknar heimsmynd hindúa; hver mynd er gerð úr mörgum formum, hringjum, ferningum, þríhyrningum og blómamynstrum, og við tilbeiðslu er einblínt á miðpunktinn. „Hugmyndin að Yantra Paintings birtist mér sem sýn árið 2004,“ segir Helga til frekari útskýringar. „Ég varði næstu árum í að þróa mína list og dýpka og sýndi verkin loks opinberlega í fyrsta sinn á Menningarnótt fyrir þremur árum, þar sem þau fengu mjög góðar viðtökur.“

Þau hjónin benda á að Yöntru-listaverkin sameini fallega og ríkjandi liti með listrænni útfærslu á hinu forna og heillavænlega Sri Yantra-tákni. „Hvert verk magnar upp fallega og hagstæða orku í því rými sem það er staðsett í. Miðjutáknið, Sri Yantra, og litir málverkanna geta haft afar heilandi og uppbyggjandi áhrif á fólk, hvort sem um er ræða upplifun á mildri umvefjandi orku, eða kraftmikilli og valdeflandi.

Grænt eða bleikt Yöntru-málverk getur til dæmis skapað tengingu við hjartastöðina og ýtt undir skynjun þeirra sem verkanna njóta á friði, fegurð og kærleika. Indigóblátt verk getur aftur á móti hjálpað fólki að tengja við innsæi sitt, og í kjölfarið finna fyrir auknu trausti og staðfestu í lífi sínu.“

Innri kyrrð

Öll verkin sem sýnd verða í Jógastúdíói eru í sömu stærð, unnin með blandaðri tækni á striga. „Bakgrunnur hvers verks er unninn með akrýl og hvert verk hefur sína sérstöku áferð,“ segja Helga og Viðar. „Út frá miðju hvers verks gefur að líta listræna útfærslu á Sri Yantra-tákninu, sem stendur fyrir fullkominn samhljóm þess helga karllæga og kvenlæga. Táknið er handteiknað og skorið út í skapalón og úðað með gylltri, svartri eða hvítri málningu.

Á Menningarnótt gefst gestum tækifæri til að að njóta magnaðrar orku Yöntru-listaverkanna og deila hver með öðrum. Jógastúdíó verður opið frá klukkan 15 til 19 og dóttir okkar, Þórey Viðars, jóga- og jógadanskennari, verður með okkur og býður upp á tónheilun með söng og slakandi hljómum kristalsskála. Þórey mun spila á skálarnar á heila tímanum og gestir geta komið sér vel fyrir á dýnu með teppi og kodda, leyft sér að slaka á og fundið djúpa, innri kyrrð.“

Þau bæta við að öll verkin á sýningunni séu til sölu. „Hver litur í Yöntru-málverkunum ber með sér ákveðna orku og tíðni og því geta verkin virkað mismunandi á fólk. Mikilvægt er að meta hvert málverk með tilliti til þessa og í því sambandi bjóðum við gestum Menningarnætur upp á faglega raðgjöf.“

Betra líf

Helga er hjúkrunarfræðingur að mennt og sjálflærð listakona. Hún hefur málað frá unga aldri og alla tíð tjáð sig með myndlist í esóterískum stíl, að eigin sögn. Hún lýsir sér sem innsæislistakonu og kallar sköpunarverk sín list sálarinnar. Í rúmlega 20 ár hefur hún haldið námskeiðið Litir ljóssins víða um land og síðastliðið vor hélt hún sína 29. einkasýningu í Reykjavík.

Viðar starfar sem ráðgjafi á sviði mannræktar og sérhæfir sig í dáleiðslutækni og EFT (Emotional Freedom Technique). Hann er á meðal þeirra sem fyrstir kynntu „sweat“ fyrir Íslendingum, eða hina helgu svitahofsathöfn eins og hann orðar það. Helga og Viðar hafa helgað líf sitt þekkingarleit og miðlun á margskonar heildrænum leiðum í átt til betra lífs og listakonseptið Yantra Paintings er að þeirra sögn aðeins eitt af mörgum sameiginlegum verkefnum.

beggo@mbl.is