Litlir vinir á stóru tjaldi KVIKMYNDIR Bíóborgin, Saga Bíó, Borgarbíó SKÝJAHÖLLIN Leikstjóri Þorsteinn Jónsson. Handrit Þorsteinn Jónsson, eftir skáldsögu Guðmundar Ólafssonar, Emil og Skunda. Kvikmyndataka Sigurður Sverrir Pálsson.

Litlir vinir á stóru tjaldi KVIKMYNDIR Bíóborgin, Saga Bíó, Borgarbíó SKÝJAHÖLLIN Leikstjóri Þorsteinn Jónsson. Handrit Þorsteinn Jónsson, eftir skáldsögu Guðmundar Ólafssonar, Emil og Skunda. Kvikmyndataka Sigurður Sverrir Pálsson. Tónlist Christopher Oertel. Leikmynd Erla Sólveig Óskarsdóttir. Búningar Geir Óttarr Geirsson. Klipping Valdís Óskarsdóttir. Teiknimyndir Wenzel Kofron. Hljóðupptaka Sigurður Hr. Sigurðsson. Hljóðvinnsla Gunnar Smári Helgason. Framleiðslustjórn Hlynur Óskarsson, Martin Schluter. Aðalleikendur Kári Gunnarsson, Guðrún Gísladóttir, Hjalti Rögnvaldsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steindór HJörleifsson, Gísli Halldórsson, Flosi Ólafsson, Róbert Arnfinnsson. Styrkt m.a. af Kvikmyndasjóði Íslands og Evrópuráðsins, Det Danske filminstitut, ofl. Kvikmynd 1994.

SVO skemmtilega vill til að nokkrir okkar bestu kvikmyndaleikstjórar hafa að undanförnu fengist við það sígilda efni, æskuárin, með prýðisárangri. Nú er komið að Þorsteini Jónssyni að sjá heiminn með barnsaugum, endurskapa bernskuna.

Þorsteinn hefur að leiðarljósi handrit sem hann vann eftir kunnri sögu eftir Guðmund Ólafsson og segir frá viðskiptum Emils (Kári Gunnarsson), átta ára drengs, við veröld hinna fullorðnu er hún skyndilega skarast við áhyggjuleysi æskunnar. Emil vill eignast hund, hefur kynnst þessum vinalegu dýrum hjá afa sínum (Steindór Hjörleifsson) á Ólafsfirði, sem átti kostagripinn Skunda. Foreldrar Emils (Guðrún Gísladóttir, Hjalti Rögnvaldsson) eru að byggja og húsið er stórt. Mamma hans tekur vel í málið en pabbi má ekkert vera að pæla í áhugamáli sonar síns en samþykkir það þó í hugsunarleysi. Nú gerist Emil blaðasali en þegar hann sér að endar ná ekki saman til að skrapa í tæka tíð fyrir gullfallegum hvolpi sem hann verður að kaupa innan viku, gerist hann einnig handlangari hjá Jósa gamla trésmið (Gísli Halldórsson).

Þegar Emil kemur heim með hvolpinn verður hins vegar uppi fótur og fit, pabbi hefur átt slæman dag hjá bankastjóranum og búinn að gleyma loforði sínu svo Emil er skipað að skila vini sínum aftur. Hann er ekki á því að þola slíkt óréttlæti og stefnir norður í land til afa - sem skilur allt.

Nett þroskasaga

Skýjahöllin er lítil og nett lífsreynslu- og þroskasaga. Emil verður að setja sig um stund í spor hinna fullorðnu og velta fyrir sér veraldlegum hlutum eins og vinnu, peningum, íbúðarbyggingum, þessu leiðinda veraldarvafstri sem er svo víðsfjarri tilveru átta ára drengs. Jafnframt er lögð rík áhersla á hin bráðnauðsynlegu kynni barna af dýrum. Þorsteinn segir söguna á látlausan hátt, nálgast þannig einfaldan hugarheim barnsins, útkoman hrein og tær, myndin grípur mann sterkum tökum frá upphafi. Skýjahöllin er hlaðin tilfinningum en þær eiga blessunarlega ekkert skylt við væmni, þar hjálpar til knappur texti og einlægur. Kvikmyndataka Sigurðar Sverris er annar vel lukkaður þáttur. Bæði er takan laus við allar óþarfa krúsídúllur, fókusinn óvenju skýr og tær og þá tekur Sverrir gjarnan myndina frá sjónarhorni barnsins, að hætti E.T. Þannig sjáum við heiminn með barnsaugum, myndmálið skiptir miklu máli hér.

Aðgengileg heild

Það er skemmtileg stígandi í framvindunni og hún er skreytt með nokkrum, vel gerðum teiknimyndabútum sem falla vel inn í stemmninguna. Þar, sem annars staðar, ræður einfaldleikinn ríkjum svo heildin verður aðgengileg ungum sem öldnum. Látleysið verður þó til baga í norðurferðinni, sem er ekki eins sterkur kafli og aðrir. Munar mestu að Álfur (Sigurður Sigurjónsson) er tæpast nógu fyndinn, og ógleggri persóna en aðrar, sem eru mun betur skrifaðar.

Gott hjá krökkunum

Ungir og óreyndir leikararnir standa sig aldeilis vel, einkum Kári Gunnarsson í erfiðu og stóru aðalhlutverkinu, staðfestan uppmáluð, manngerðin hárrétt. Eins er hún litla vinkona hans (Oddný Anna Kjartansdóttir) bráðskemmtileg og hress. Guðrún og Hjalti óaðfinnanleg í hlutverkum pabba og mömmu, hjóna með þungar áhyggjur húsbyggjendanna á herðum sér, útkeyrð af vinnu. Nokkrir af okkar bestu leikurum skapa aukakarakterana af alkunnum hagleik. Hljóðið er einstaklega skýrt.

Í það heila tekið er Skýjahöllin falleg mynd og tilfinningarík þar sem fjallað er um samband ungra og aldinna, manna og dýra, á einfaldan og hispurslausan hátt. Áhersla lögð á látleysið og trúverðugheitin, útkoman rammíslensk mynd á alþjóðlegu máli og á örugglega eftir að fara víða.

Sæbjörn Valdimarsson

Þorsteinn Jónsson leikstjóri og Kári Gunnarsson, hinn ungi aðalleikari Skýjahallarinnar.