Jóhann Hafstein forsætisráðherra fæddist á Akureyri 19.9. 1915. Hann var sonur Júlíusar Havsteen, sýslumanns á Húsavík, og k.h, Þórunnar Jónsdóttur húsfreyju. Júlíus var sonur Jakobs Valdemars Havsteen, kaupmanns á Akureyri, og Thoru E.M.

Jóhann Hafstein forsætisráðherra fæddist á Akureyri 19.9. 1915. Hann var sonur Júlíusar Havsteen, sýslumanns á Húsavík, og k.h, Þórunnar Jónsdóttur húsfreyju.

Júlíus var sonur Jakobs Valdemars Havsteen, kaupmanns á Akureyri, og Thoru E.M. Havsteen húsfreyju. Þórunn var einnig af Hafsteinum, dóttir Jóns Þórarinssonar fræðslustjóra, af Presta-Högnaætt, og Láru Havstein, systur Hannesar Hafstein, skálds og ráðherra, af Briemætt forsætisráðherranna Gunnars Thoroddsen og Davíðs Oddssonar.

Meðal sjö systkina Jóhanns má nefna Jakob Hafstein, lögfræðing og listmálara, föður Júlíusar Hafstein sendiherra, og Hannes Þórð Hafstein, forstjóra SVFÍ, föður Stefáns Jóns Hafstein.

Synir Jóhanns og k.h., Ragnheiðar Hauksdóttur Hafstein: Haukur Hafstein innanhúsarkitekt, látinn, Jóhann Júlíus Hafstein, framkvæmdastjóri, og Pétur Kristján Hafstein, fyrrverandi hæstaréttardómari og sagnfræðingur.

Jóhann Hafstein lauk stúdentsprófi frá MA árið 1934, lögfræðiprófi frá HÍ 1938 og stundaði framhaldsnám í þjóðarrétti við Lundarháskóla og í Danmörku og Þýskalandi. Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1946-58, sat í bæjarráði 1946-54, var bankastjóri Útvegsbankans 1952-63, alþingismaður Reykvíkinga 1946-78 og lengst af dóms-, kirkju- og iðnaðarráðherra í Viðreisnarstjórninni.

Hlutverk Jóhanns í íslenskri stjórnmálasögu var umtalsvert en engan veginn auðvelt. Hann lagði línurnar um hinar miklu virkjunarframkvæmdir sem hófust með Búrfellsvirkjun og raforkusamningum vegna álvers í Straumsvík. Hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra við sviplegt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970 og glímdi í kjölfarið við alvarlega sundrung í forystu flokksins þar sem hann tók sér stöðu með eftirmanni sínum, Geir Hallgrímssyni, gegn Gunnari Thoroddsen.

Jóhann lést 15.5. 1980.