Dæluskip Fyrirtækið Jan de Nul kemur með þetta skip næsta vor.
Dæluskip Fyrirtækið Jan de Nul kemur með þetta skip næsta vor.
Dæluskipið Taccola hefur síðustu daga verið að dæla upp sandi við Landeyjahöfn. Verkinu miðar vel áfram þó að nokkurra daga töf hafi orðið vegna veðurs og dælingar.

Dæluskipið Taccola hefur síðustu daga verið að dæla upp sandi við Landeyjahöfn. Verkinu miðar vel áfram þó að nokkurra daga töf hafi orðið vegna veðurs og dælingar. Er skipinu ætlað að dæla upp um 300 þúsund rúmmetrum og náðist á þremur dögum að ná upp um 100 þús. rúmm.

Taccola er mun stærra og öflugra skip en þau sem áður hafa dælt við höfnina, reyndar svo stórt að því er ekki ætlað að dæla inni í höfninni sjálfri. Í viðtali Eyjafrétta við skipstjóra Taccola kemur fram að minna skip, er nefnist Pinta, sé væntanlegt hingað til lands í mars nk. til að hreinsa höfnina. Fram að því halda skip frá Björgun áfram dælingu þar. Þau hafa frá lok apríl sl. dælt um 400 þúsund rúmmetrum úr höfninni. Næsta vor eiga Belgarnir að dæla um 300 þúsund rúmmetrum þannig að á einu ári hefur 1 milljón rúmmetra af sandi komið upp úr innsiglingunni og höfninni.

Eigandi Taccola og Pinta, belgíska fyrirtækið Jan de Nul, átti lægsta tilboð í dýpkun á höfninni til 2017, eða fyrir 588 milljónir kr.

Sandburður við innsiglinguna í Landeyjahöfn og inn í höfnina hefur verið gríðarlegur og of mikill til að Herjólfur geti farið þar um.

Í yfirlýsingu frá Sigurði Áss Grétarssyni og Andrési Þ. Sigurðssyni, fulltrúum í starfshópi um hönnun og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, í Morgunblaðinu í gær sagði að útreikningar danskra sérfræðinga á sandburði hefðu verið vanáætlaðir. Samkvæmt upplýsingum blaðsins átti að dæla upp 30 þúsund rúmmetrum á ári.

Vitað hefur verið að Herjólfur hentar ekki til siglinga í Landeyjahöfn þar sem skipið ristir of djúpt. Verið er að hanna grunnristari ferju sem vonast er til að geti siglt inn í höfnina allt árið um kring. Uppi eru efasemdir um að það takist og í raun viðurkenna þeir það í sinni yfirlýsingu, Sigurður Áss og Andrés: „Að tryggja nægt dýpi fyrir nýrri ferju verður erfitt en viðráðanlegt.“ bjb@mbl.is