LEIÐIN AÐ EINFALDLEIKANUM eftir Arnald Indriðason Skýjahöllin barna- og fjölskyldumynd Þorsteins Jónssonar var frumsýnd í Sambíóunum á fimmtudag og hér ræðir Þorsteinn um gerð myndarinnar AÐ VAR rúmlega vika til frumsýningar á Skýjahöllinni og Þorsteinn...

LEIÐIN AÐ EINFALDLEIKANUM eftir Arnald Indriðason Skýjahöllin barna- og fjölskyldumynd Þorsteins Jónssonar var frumsýnd í Sambíóunum á fimmtudag og hér ræðir Þorsteinn um gerð myndarinnar

AÐ VAR rúmlega vika til frumsýningar á Skýjahöllinni og Þorsteinn Jónsson, höfundur hennar og framleiðandi, var á kafi í kynningarstörfum. Hann hefur verið með annan fótinn í Þýskalandi undanfarnar vikur og var á leiðinni út eina ferðina enn til viðræðna um það sem hann vonar að verði næsta mynd sín. Hann sagði það erfiðasta augnablikið að hætta að hugsa um Skýjahöllina og taka að hugsa um kynninguna á henni, auglýsingarnar og söluna. Með því stigi hann inní allt annan heim sem honum finnst í andstöðu við myndina. En þetta tilheyrir. Það er barist um athyglina á öllum vígstöðvum og þeir herskáustu njóta hennar.

Skýjahöllin, sem frumsýnd hefur verið í Sambíóunum og er væntanleg í Danmörku og Þýskalandi með dönsku og þýsku tali, er byggð á sögu Guðmundar Ólafssonar um Emil og Skunda. Hún kostar 105 milljónir króna og er gerð í samvinnu íslenskra, danskra og þýskra framleiðenda undir stjórn Þorsteins, sem er handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi. Með aðalhlutverkin í henni fara Kári Gunnarsson, sem leikur Emil, Guðrún Gísladóttir og Hjalti Rögnvaldsson, sem leika foreldra hans, Helgi Þorsteinsson, Sturla Sighvatsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steindór Hjörleifsson, Gísli Halldórsson, Flosi Ólafsson og Róbert Arnfinnsson. Kvikmyndataka var í höndum Sigurðar Sverris Pálssonar, leikmynd gerði Erla Sólveig Óskarsdóttir, Geir Óttarr Geirsson sá um búninga og Christoph Oertel sá um tónlistina. Framleiðslustjórn var í höndum Hlyns Óskarssonar og Martins Schl¨uters, en myndin var styrkt af Kvikmyndasjóði Íslands, Kvikmyndasjóði Evrópuráðsins - Eurimages, dönsku kvikmyndastofnuninni og Berliner filmförderung.

Sagan af Emil og Skunda

Eins og þeir þekkja sem lesið hafa söguna segir Skýjahöllin af hinum átta ára gamla Emil í Reykjavík sem er einbirni og heldur einmana því foreldrar hans eru uppteknir við að koma yfir sig stærra húsi. Emil langar í hvolp sem minnir á hund afa hans á Ólafsfirði og pabbi hans samþykkir að hann megi kaupa hvolp ef hann geti unnið fyrir honum. Honum tekst það en þá hefur pabbi hans um annað að hugsa - hugurinn er allur við húsbyggingar og bankavafstur - og Emil fær neitun og strýkur til afa síns.

Þetta er einlæg mynd fyrir krakka allt niður í þriggja ára aldur," sagði Þorsteinn. Það er ekki verið að leggja fyrir áhorfandann gátur heldur fær hann að lifa sig tilfinningalega inn í söguna. Emil kynnist mismundandi afstöðu til vinnunnar. Pabbi og mamma vinna til að eignast hluti eins og nýtt hús. Og í Slippnum verður Emil vitni að því að starfsmenn berjast fyrir því að halda vinnunni. Gömlu mennirnir eins og afi trúa á vinnuna sem hluta af lífinu. Heimurinn er einfaldur með augum barnsins. Reynslan hefur enn ekki gert hann flókinn og illskiljanlegan og sagan hefur þennan einfaldleika að leiðarljósi."

Þorsteinn sagðist hafa hitt um 3.000 krakka í leit sinni að rétta drengnum í hlutverk Emils. Hann var í heilan mánuð að fara á milli grunnskólanna á Reykjavíkursvæðinu, fór inní bekkjardeildir í öllum skólum, fylgdist með krökkunum og prófaði stráka í aðalhlutverkið og önnur smærri líka. Áður höfðu nokkrir hringt að fyrra bragði eins og gerist alltaf," sagði Þorsteinn þar sem við sátum á skrifstofunni hans, og þar á meðal var strákur úr Hafnarfirði. Ég sinnti því þó lítið vegna þess að ég var svo önnum kafinn í skólunum og þegar ég kom í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og í bekkinn hjá Kára Gunnarssyni sá ég strax að þarna var rétti pilturinn kominn. Hann hafði reyndar verið fyrstur til að hringja í mig."

Leitin að hvolpinum Skunda var næstum eins umfangsmikil, en hann er frá Garði í Kelduhverfi. Þorsteinn sá systur hans á ljósmynd í Reykjavík eftir að hafa farið vítt og breitt um landið í leit að rétta hvolpinum og gerði fyrirspurnir sem leiddu til ráðningu Skunda.

Leikstjórinn er verkstjóri

Alls koma um 40 krakkar fram í myndinni í stórum og litlum hlutverkum og sagði Þorsteinn það hafa gengið mjög vel að vinna með þeim. Þeir þurfa að finna að þetta er vinna en ekki leikur en maður þarf líka að gefa þeim pláss til að athafna sig, frið og slökun og reyna að hafa ekki of mikinn þrýsting á þeim. Það þarf að láta þá vita hvenær vinnunni er lokið og þeir geta leikið sér. Undirbúningstími fyrir tökur getur orðið langur og biðin mikil og þá mega börnin ekki fá leið á öllu saman áður en kemur að tökum svo það er heilmikil sálfræði á bak við það að leikstýra börnum."

Og Þorsteinn bætti við: Svo gerist það oft þegar búið er að undirbúa allt og vélin er farin í gang að þá kemur það besta fram í krökkunum og einbeitingin verður mest. Þannig verður þetta oft spurning um að hitta á rétta augnablikið þegar skilyrði eru best fyrir töku."

Þorsteinn líkti leikstjóranum við verkstjóra. Hann gefur öllum tækifæri til að gera sitt besta - leikurum, tónskáldinu, tökumanninum - allt eru þetta menn sem búa yfir mikilli kunnáttu og leikni og málið er að láta það koma fram óþvingað svo ekkert tapist. Þetta er stórt púsluspil þar sem allir kubbarnir þurfa að passa á sinn stað."

Eftirspurn eftir barnamyndum

Íslenskar bíómyndir, þar sem börn fara með stór hlutverk eða eru gerðar sérstaklega fyrir börn, hafa orðið talsvert áberandi hin síðari ár og aðspurður hverju þetta sætir sagðist Þorsteinn jafnvel eiga einhvern hlut í því sjálfur. Þau tvö ár sem ég var framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands tók ég eftir því að mikil eftirspurn var eftir barnamyndum frá Norðurlöndunum og sérstaklega frá Íslandi. Ein ástæðan var sú að menn litu Norður-Evrópu í einhverju rómantísku ljósi, þar sem íbúarnir eru í meiri tengslum við náttúruna og dýrin. Sjónvarpsstjórnendur, sem eru að sýna efni fyrir börn sem búa í stórborgum, leita mikið að efni þar sem börn og dýr eru úti í náttúrunni. Ég rak svolítinn áróður fyrir því á meðal okkar kvikmyndagerðarmanna að þarna væri pláss fyrir okkar framleiðslu, hvort sem það hefur haft þessi áhrif eða ekki.

Önnur ástæða er sú að við erum ekki í stakk búnir til að keppa við Hollywood í gerð hasarmynda, sem fyrirferðarmestar eru í bíóhúsum um allan heim. Einnig er hluti af skýringunni sá að kvikmyndir í Evrópu njóta mikilla styrkja þessi árin í samkeppninni við Bandaríkin. Styrkirnir hafa leitt til þess að kvikmyndagerðarmenn þurfa ekki að hugsa jafnmikið um markaðinn og áður. Þetta er tímabundið ástand og á meðan það varir á að nota tímann til að finna markaði fyrir einfaldar og aðgengilegar sögur sem snerta áhorfendur tilfinningalega - þar sem boðskapurinn er skýr öllum aldurhópum, hvar sem er í heiminum.

Vegna þess hve myndin er vel styrkt get ég leyft mér meiri fagmennsku og vandaðri vinnubrögð. Það er oft verið að skipta myndum í sölulegar myndir og listrænar. Í þessari mynd reyni ég að þurrka þessa skiptingu út. Ég reyni að höfða til dómgreindar og skynsemi áhorfenda en tek tillit til þess að ég framleiði vöru sem fólk vill sjá. Þó er ég ekki að raða saman bellibrögðum, eltingarleikjum, eldsvoðum og bardögum, heldur nota dramatískar lausnir."

Frá bók í mynd

Skýjahöllin byggist á vinsælli barnabók sem margir þekkja og hafa lesið og Þorsteinn sagðist hafa beitt þeirri aðferð við leikstjórnina að segja söguna frá bæjardyrum barnsins og stækka heiminn umhverfis það. Fullorðna fólkið er allt í eldra kantinum. Fólk um tvítugt eru karlar og kerlingar. Litanotkunin vísar einnig til skynjunar barnsins og er takmörkuð við ákveðna tóna, en hrein myndbygging látin vinna með kjarna sögunnar. Leikurinn er eins ýktur og hægt er án þess að fara út fyrir raunsæið. Einfaldleikinn var látinn sitja í fyrirrúmi. Málið var að einfalda söguna eins og kostur var með áhorfendahóp hennar í huga svo hún yrði skýr og markviss á tjaldinu og að efni myndarinnar væri á hreinu.

Það er svolítið kostulegt að ég lærði heimildarmyndagerð sem sýnir oftast raunveruleikann sem hver áhorfandi les sína merkingu úr. Nú geri ég leiknar myndir þar sem sagan er búin til og reyni að hafa hana eins skýra og kostur er til að gefa upp hvaða merkingu áhorfandinn á að leggja í hana. Þegar ég var að læra var söguþráður eitthvað sem engu máli skipti. Nú skiptir söguþráðurinn öllu. Þannig er maður kominn í hring. Vonandi að það sé þroskamerki."

Þorsteinn hélt áfram: En einfaldleikinn er hins vegar ekkert einfaldur í framkvæmd. Tökurnar stóðu í 11 vikur. Efnið sem við stóðum uppi með nægði í tveggja tíma mynd en í klippingunni erum við búin að þjappa efninu í 85 mínútur. Þetta er leiðin að einfaldleikanum.

- Sástu þá ekki eftir því sem þú hentir?

Nei, ég hef aldrei séð eftir því. Á meðan myndin batnar á klippiborðinu sér maður ekki eftir því sem maður hendir, alveg sama hver kostnaðurinn hefur verið við að ná því. Mér finnst myndin nákvæmlega eins og hún á að vera."

Teiknimynd

Inní Skýjahöllina er skeytt næstum tveggja mínútna löngum teiknimyndum sem unnar voru á þremur stöðum í Evrópu. Aðalhöfundurinn, Wenzel Kofron, vann í Frankfurt, teiknimyndavinnslan fór fram í Berlín og handavinnan var unnin í Búdapest. Þorsteinn leitaði í ævintýrateikningar Muggs eftir fyrirmyndum handa Kofron að vinna eftir, en teiknimyndafígúrurnar eiga sér einnig fyrirmyndir í sögupersónum myndarinnar og eru raddirnar í teiknimyndinni einnig raddir leikaranna.

Myndin er tekin í Ólafsfirði, á Blönduósi, í Langadal og í Reykjavík og nágrenni og hófust tökur í ágúst í fyrra. Ekkert kvikmyndaver er til á Íslandi enn sem komið er og leystu Skýjahallarmenn vandann með innitökur þannig að þeir innréttuðu tvo leikfimisali og breyttu í myndver. Það var ekkert vandamál, en erlendis þykir þetta stórfurðuleg aðstaða. Mestu skiptir að fagmennska í kvikmyndum er orðin alveg sambærileg við það sem gerist erlendis. Starfsemi eins og kvikmyndagerð passar vel í Íslendingseðlið. Þetta er átaksvinna unnin í skorpum og svo er frí. Það á vel við veiðimannaþjóðfélag eins og Ísland."

Nú er um áratugur síðan Þorsteinn sendi frá sér sína síðustu bíómynd, Atómstöðina, og hann segir að mesta framförin á þessum tíma í kvikmyndagerðinni lúti að skipulagningu og undirbúningi. Þá vorum við að byggja upp kvikmyndagerð og það var sérstaklega skipulagningin sem klikkaði. Það skiptir máli þar sem koma 30 manns að vinna saman að ekkert vanti svo allt geti gengið snuðrulaust. Eftir að hafa gert tvær bíómyndir áður þekkir maður gildi skipulagsins."

Næsta mynd

Fjórða myndin er í undirbúningi. Hún heitir Útlendingurinn og er gerð eftir frumsömdu handriti Þorsteins. Hann langar til að taka hana næsta sumar. Sagan segir af tveimur ungmennum sem eru á leið úr sveitinni í borgina í leit að fé og frama eins og gengur en komast að því að það er ekki eins einfalt að yfirgefa heimahagana og þau hugðu; þeir toga í ungmennin með sögu sinni, fortíð og jafnvel landslagi en Þorsteinn segir að landið eigi sjálft að vera næstum eins og ein persóna myndarinnar. Hann segist vera að leita að fjármagni og er í sambandi við þrjá framleiðendur í Þýskalandi, Danmörku og Noregi en allt byggist á styrk úr Kvikmyndasjóði eins og venja er. Þegar samtalið fór fram var hann á leið til Þýskalands að hitta fulltrúa frá sjónvarpsstöðum í Evrópu. Þegar maður er kominn á skrið getur ekkert stoppað mann. Það er best að geta gert hverja myndina á fætur annarri."

2.

FORELDRAR í byggingarbasli; Guðrún Gísladóttir og Hjalti Rögnvaldsson leika foreldra Emils.

3.

ÚTIHÁTÍÐ í Húnaveri; Emil og Sigurður Sigurjónsson.

4.

SVAÐILFARIR; Emil lendir í ýmsum ævintýrum í Skýjahöllinni.

5.

GILDI vinnunnar; Emil aðstoðar Gísla Halldórsson.

6.

Á PUTTANUM; Emil og Skundi með Árna Tryggvasyni.

- 8.

KYNLEGIR kvistir; Flosi Ólafsson í uppnámi.