[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Almennt má segja að skattframtöl beri ákveðið vitni um að hagur landsmanna hafi vænkast árið 2014.
Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Almennt má segja að skattframtöl beri ákveðið vitni um að hagur landsmanna hafi vænkast árið 2014. Landsmönnum fjölgar, atvinnuleysi hefur minnkað, tekjur og eignir hafa aukist á sama tíma og skuldir hafa minnkað. Allt er þetta góðs viti,“ skrifar Páll Kolbeins, rekstrarhagfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, í samantekt um álagningu einstaklinga sem hann birtir í Tíund, fréttablaði embættisins, á morgun.

Álagningin á síðasta ári staðfestir það sem áður hefur komið fram í tölfræði Ríkisskattstjóra að botninum í efnahagsmálum þjóðarinnar, eftir fall fjármálakerfisins, var náð árið 2010 og síðan hafa landsmenn verið að vinna sig út úr kreppunni. „Þegar fram í sækir mun skýrast betur hvort menn hafi lært af reynslu uppgangstímanna,“ segir Páll í lokaorðum samantektar sinnar.

Bótaþegum fjölgar stöðugt

Landsmenn töldu fram tæpa 838 milljarða í laun og hlunnindi í framtölum þessa árs. Álagningin í ár er vegna tekna á síðasta ári. Launin voru liðlega 48 milljörðum króna hærri eða 6,1% hærri að raunvirði árið 2014 en árið áður. Laun og hlunnindi voru nú svipuð og árið 2008, þegar efnahagur landsins tók dýfu. Þau hafa hækkað ár frá ári frá 2010, þegar botninum var náð, samtals um tæpa 106 milljarða króna. Páll bendir á að það vanti aðeins rúma 75 milljarða upp á að þau verði jafnhá og þau voru árið 2007 þegar uppsveiflan náði hámarki.

Við launatekjurnar bætast ýmsir tekju- og frádráttarliðir sem saman mynda tekjuskattsstofn. Þar á meðal eru greiðslur frá Tryggingastofnun, alls tæpir 74 milljarðar króna og hækkuðu um 10,5% frá árinu á undan. „Það er athyglisvert að greiðslur frá Tryggingastofnun hafa hækkað um 27,2% að raunvirði frá árinu 2010 á sama tíma og laun hafa hækkað um 14,4%. Þá lækkuðu tryggingabætur ekki í hruninu, ólíkt launum. Þær hafa hækkað um 27,1% ef miðað er við árið 2007 en launagreiðslur eru enn 8,2% lægri en þær voru þá,“ skrifar Páll í Tíund.

Hann getur þess einnig að 53.619 manns hafi fengið skattskyldar greiðslur frá Tryggingastofnun á síðasta ári, 1.507 fleiri en árið áður. Hann vekur athygli á því að þeim sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun hafi fjölgað um 8.815 frá 2010, eða tæp 19,7%. Fjölgunin í þessum hópi er margföld á við fjölgun framteljenda. Þeir sem fengu greidd laun voru hins vegar aðeins 6.679 fleiri árið 2014 en 2010 og hafði aðeins fjölgað um 3,8% á þessum tíma. „Í ljósi þess að vinnandi fólk stendur að mestu undir velferðinni í landinu er áhugavert að laun hafa aukist um 105,8 milljarða á sama tíma og tryggingagreiðslur, skattskyldar jafnt sem skattfrjálsar, jukust um 16,1 milljarð.“

Greiðslur Vinnumálastofnunar á atvinnuleysisbótum minnkuðu aftur á móti verulega á milli ára og sú hefur verið þróunin síðustu ár. Ríflega helmingi færri fengu greiddar bætur vegna atvinnuleysis í einhvern tíma á árinu 2009 en árið 2014.

Eignastaða landsmanna hefur batnað. Hún liggur aðallega í fasteignum. Fasteignir í eigu einstaklinga hækkuðu um 7,1% að raungildi á síðasta ári og hafa ekki hækkað jafnmikið frá árinu fræga, 2007, þegar þær hækkuðu um 9,4%. Jafnframt hefur þeim sem telja fram fasteignir fjölgað nokkuð á allra síðustu árum.

Vægi launa minnkaði í hruninu

„Mjög áhugavert var að sjá hvernig hlutur launa í stofninum lækkaði í kjölfar hruns bankanna sem aftur leiddi til hruns tekjuskattsstofnsins,“ skrifar Páll Kolbeins í Tíund. Laun lækkuðu um tæplega 20% á milli áranna 2007 og 2010 en aðrar greiðslur lækkuðu hins vegar ekki nema um tvö prósent að raungildi á sama tíma. „Laun og atvinna taka hröðum breytingum eftir því hvort byrlega blæs eða í álinn syrtir. Útgjöld ríkisins eru hins vegar ákveðin með lögum og því er erfitt að haga útgjöldum eftir því sem best hentar á hverjum tíma.“

Tekjur jukust mikið í þjóðfélaginu árið 2014. Það þarf að fara allt aftur til ársins 2007 til að sjá viðlíka hækkun á stofninum sem notaður er til að leggja á tekjuskatt og útsvar.