22. október 2015 | Fjölmiðlar | 176 orð | 1 mynd

Skemmtilegt stuð og alls ekkert tuð

Ljósvakinn

Stjarna Fannar Ólafsson er nýjasta sjónvarpsstjarnan.
Stjarna Fannar Ólafsson er nýjasta sjónvarpsstjarnan. — Morgunblaðið/Golli
Körfuboltakvöld á Stöð 2 sport hefur komið sem brakandi ferskt hráefni inn á íþróttamarkaðinn hér á fróni. Metnaðurinn hreinlega lekur af hverjum þætti. Baksviðsvinnan virðist vera faglega unnin því grafík og rennsli þáttarins eru notaleg.
Körfuboltakvöld á Stöð 2 sport hefur komið sem brakandi ferskt hráefni inn á íþróttamarkaðinn hér á fróni. Metnaðurinn hreinlega lekur af hverjum þætti. Baksviðsvinnan virðist vera faglega unnin því grafík og rennsli þáttarins eru notaleg. Það er enginn æsingur í settinu og flest sett fram á faglegan hátt.

Upphitunarþátturinn hófst reyndar skelfilega þar sem Kjartan Atli, umsjónarmaðurinn, bauð gesti heima í stofu velkomna og var kynntur til leiks sem Kjartan. Sérfræðingarnir voru þurrir og svöruðu spurningum umsjónarmannsins með jái og neii. Það var ævintýralega vont sjónvarp.

En fall er fararheill og síðan þá hefur eitthvað gerst bak við töldin sem við sófakartöflurnar vitum ekki neitt um. Þættirnir hafa rúllað hver öðrum betri og nú er ástríða sérfræðinganna á þessum yndislega leik að skila sér. Þeir leyfa sér að sletta, tala mikið og eru skemmtilegir. Fannar Ólafsson hefur byrjað best og þar er sjónvarpsstjarna fædd.

Ég hef fulla trú á að þetta skili sér í aukinni aðsókn þannig að myndirnar frá leikjunum verði betri. Það er auðvitað aumt sjónvarp að sýna íþróttamyndir frá hálftómum húsum.

Benedikt Bóas

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.