22. október 2015 | Aðsent efni | 802 orð | 1 mynd

Sósíalisminn í Sjálfstæðisflokknum

Eftir Svein Óskar Sigurðsson

Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Eftir Svein Óskar Sigurðsson: "Nóbelsskáldið gat þess í Alþýðubókinni að hvert einasta barn er fætt fullkomið gagnvart réttlætinu."
„En sú á einmitt að vera undirstöðuhugsun í afskiftum vorum og allri afstöðu til barna, að vér vitum ekkert um þau nema eitt: að þau eru í heiminn borin – hvernig kemur þjóðfélaginu ekki við. Hvert barn er alfullkomið gagnvart réttlætinu, hvort heldur storkurinn kom með það í nefinu ellegar læknirinn í tösku; eða það er eingetið eins og Jesús Kristur.“

Nóbelsskáldið gat þess í Alþýðubókinni að hvert einasta barn er fætt fullkomið gagnvart réttlætinu. Þetta fer greinilega úr skorðum við úthlutun fjármagns vegna skólabarna frá ríki til sveitarfélaga. Skuldsetning kallar á ójöfnuð og sýnir afleiðingar slóðaskapar sveitarfélaga (sjá töflu).

Það fer t.a.m. alfarið eftir því í hvaða sveitarfélagi við búum á höfuðborgarsvæðinu hvaða þjónustu barn fær í grunnskólum þrátt fyrir að ríkið skili hinu sama fyrir hvert barnsnef.

Skuldsetning sveitarfélaga og sameining

Um árabil hafa sveitarfélög verið að sameinast. Garðabær tók yfir Álftanes sem gat ekki staðið lengur undir sér en þar komu til ástæður sem óþarfi er að tíunda enda flestum kunnugar. Hvaða áhættu ganga sveitarstjórnarmenn undir og hvaða ábyrgð sæta þeir sem setja sveitarfélög sín í greiðsluþrot? Er hún ekki aðeins pólitísk?

Með tilkomu R-listans á síðustu öld var farið að bjóða upp lóðir á hinum „frjálsa markaði“. Það vita allir sem vilja vita að hér var um dulbúna skatta að ræða. Það vita allir hvernig þetta endaði. Verðbólga rauk upp, fjármagn var sogið frá almenningi langt inn í framtíðina.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu byggðu síðar á þessu vænta tekjuflæði sínu og skuldsettu sig mörg upp í rjáfur. Samhliða brutu sveitarfélögin eigin loforð sín í millum þess efnis að hvorki ætti að byggja né skipuleggja, þ.e. fyrir hrun, nema ákveðið marga fermetra svo slíkt myndi ekki valda óróa og ofþenslu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gengu sjálf gegn eigin loforðum í þessu efni. Flest þeirra veltu þessu yfir á almenning eftir hrun í formi hærri gjalda og skatta.

Þetta finna allir á eigin skinni. Nú vilja hinir sömu „breiðari skattstofn“ rétt eins og bankar sem hafa yfir 40 blaðsíðna verðskrá til handa þeim sem tæpast geta sótt þessa þjónustu annað. Ber hér ekki allt að sama brunni?

Hvað gerist í bæ skáldsins?

Svo er komið fyrir sveit Nóbelsskáldsins að búið er að loka bókasafni í Varmárskóla, bókasafni skáldsins. Eldri börn skólans geta ekki farið þar inn á skólatíma til að stunda lestur bóka. Það er ekki lengur hægt að láta sig hverfa inní heim bókmenntanna og fá þar frið eða stuðning fagfólks á sviði bókmennta og bókasafna.

Aðeins er hér um eitt atvik af mörgum að ræða þar sem meirihlutinn í bænum, með bæjarskáldið innanbúðar, fer illa að ráðum sínum og skerðir þjónustu við börn og foreldra þeirra. Þetta er ekki stjórnendum skóla um að kenna. Krafan um niðurskurð kemur að ofan.

Samhliða eru frjáls félagasamtök að berjast gegn ólæsi barna og hið opinbera er með átak á mörgum sviðum til að tryggja aukinn lestur og lesskilning. Er þetta forsvaranleg forgangsröðun hjá meirihlutanum í Mosfellsbæ?

Borgar- og bæjarráð bregðast við

Um þessar mundir, sbr. frétt í Stöð 2 þann 11. október sl., eru borgar- og bæjarráð sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að samþykkja hvert á fætur öðru ályktanir þar sem skorað er á ríkisstjórnina að „beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga“.

Hér vekur sérstaka athygli að í forsvari fyrir þessu ákalli til ríkisins eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

„Við erum að óska eftir því að tekjustofnar sveitarfélaganna verði fjölþættari og breiðari. Það er ástæða fyrir því. Nú eru nýgerðir kjarasamningar kennara og fleiri aðila og þetta kostar gríðarlega mikla fjármuni,“ sagði Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, í viðtali á dögunum.

Er þetta svona einfalt? Hækkaði ekki útsvarið umfram lækkun tekjuskatts þegar verkefni grunnskóla var fært frá ríki til sveitar? Fylgdu ekki fjármunir frá ríkinu vegna einsetningar skóla? Hvað með dulbúna ríkisvæðingu við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga? Er það vinnumat kennara sem er að setja sveitarfélög á hliðina? Nei, vinnumat mun aðeins segja stjórnum sveitarfélaga hvað þær skulda börnum og foreldrum þeirra.

Sumir sjálfstæðismenn vilja leita í vasa skattgreiðenda

Viljum við að sveitarfélögin geti skattlagt okkur enn frekar?

Ríkja ekki afar undarlegar áherslur í Sjálfstæðisflokknum um þessar mundir? Er þetta e.k. „sósíalismi“ í Sjálfstæðisflokknum? Hvað með sparnað eða sameiningu í stað þess að heimta sífellt meira fjármagn frá ríkinu án þess að skila því í réttar hendur? Sveitarfélög virðast nú í vörn eins og ofvaxin ólesin börn.

Sýnir reynslan ekki að sveitarstjórnum, sem kjörnar eru til fjögurra ára án þess að rjúfa megi það tímabil og boða til kosninga, er tæpast treystandi til að fara með skattstofn og hvað þá breiðari skattstofn.? Er ekki kjörið að sameina og spara?

Menn eiga ekki að taka bækur frá börnunum eða brauðpening til kennslu. Það er annaðhvort tær mannvonska eða einskær fáviska.

Höfundur er fv. formaður Sjálfstæðisfélags Mosfellinga, situr í skólaráði Varmárskóla og stjórn foreldrafélags Varmárskóla. Er talsmaður FGMOS, svæðisráðs grunnskólaforeldra í Mosfellsbæ.

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.